Yfirlitsskýrsla um alþjóðamál

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 11:46:26 (6521)

2000-04-13 11:46:26# 125. lþ. 100.1 fundur 612. mál: #A yfirlitsskýrsla um alþjóðamál# skýrsl, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 125. lþ.

[11:46]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef aldrei dregið í efa að sjávarútvegur flestra ríkja, ef ekki allra, sé styrktur. Né heldur hef ég haldið því fram að sjávarútvegur Íslendinga væri styrktur meira, hvað þá heldur jafnmikið og sjávarútvegur annarra ríkja. Sennilega eru sjávarútvegsstyrkir á Íslandi þeir lægstu sem hægt er að finna í nokkru vestrænu ríki.

Hins vegar er alveg ljóst að t.d. skattafsláttur, sjómannaafslátturinn, er að mati allflestra hagfræðinga, innlendra sem erlendra, ríkisstyrkur. Um það eru þeir flestir ef ekki allir sammála.

Ég spurði hæstv. utanrrh. einfaldlega og setti það fram: Er nú ekki ráð þegar þessi umræða fer í gang að menn skoði hvaða rök verða líklega færð fram gegn okkur sem málflytjendum í þessu máli þannig að við stöndum ekki klumsa þegar einhverjir taka sig til og spyrja hvort Íslendingar séu ekki að kasta grjóti úr glerhúsi? Mér finnst full ástæða til þess að menn skoði áður en þessi umræða hefst hvort íslenskur sjávarútvegur sé alfarið laus við opinbera styrki. Þá er ég ekki bara að tala um styrki úr ríkissjóði heldur styrki úr sveitarsjóðum líka. A.m.k. yrði forvitnilegt að fá að vita hver niðurstaðan yrði af því í hve miklum mæli slíkir opinberir styrkir séu veittir. Þeir eru klárlega veittir, t.d. með ókeypis aðgangi að takmörkuðum auðlindum sjávar.

En auðvitað eru fleiri sem gera það. Það eru fleiri þjóðir sem beita þeirri aðferð. En þetta er náttúrlega styrkur sem aðrar atvinnugreinar hafa ekki. Ég veit ekki um neina atvinnugrein á Íslandi sem hefur ókeypis aðgang að t.d. orku. Um þetta má því að sjálfsögðu fjalla.