Yfirlitsskýrsla um alþjóðamál

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 11:52:31 (6525)

2000-04-13 11:52:31# 125. lþ. 100.1 fundur 612. mál: #A yfirlitsskýrsla um alþjóðamál# skýrsl, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 125. lþ.

[11:52]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er aðeins út af þessari umræðu. Ég vildi biðja hv. þm. Sighvat Björgvinsson að hlusta á það vegna þess að ég gat ekki svarað honum um þetta efni, en báðir hv. þm. hafa komið inn á sama hlut. Það sem við Íslendingar erum fyrst og fremst að tala um í þessu sambandi eru styrkir sem valda ofveiði, rányrkju og óskynsamlegri nýtingu fiskstofna. Við erum þeirrar skoðunar að það sé ekkert í okkar kerfi og okkar uppbyggingu sem geri það.

Hins vegar gerum við ráð fyrir að það verði hlutverk nefndar að fara yfir þessi mál og skilgreina hvað séu ríkisstyrkir í þessu sambandi og hvernig beri að líta á þá. Og við munum að sjálfsögðu, eins og við væntum að allar þjóðir geri jafnframt, upplýsa um það hvernig stöndum að málum. Ef það verður niðurstaða þessarar nefndar að eitthvað í okkar kerfi sé hægt að skilgreina sem ríkisstyrki og beri þá að banna samkvæmt þeirri niðurstöðu sem menn komast að, þá verðum við að sjálfsögðu að sæta því. Við gerum okkur alveg grein fyrir því í upphafi. En við erum ekki þeirrar skoðunar þegar við göngum til verksins að neitt í okkar kerfi leiði beinlínis til þess að óskynsamleg nýting náttúruauðlinda eigi sér hér stað. Það er eins og í öllu öðru starfi að við tökum að sjálfsögðu þá áhættu að leggja öll okkar spil á borðið. Við teljum þetta vera mál sem skiptir ekki aðeins okkur máli heldur allar þjóðir heims því að náttúruauðlindir hafsins eru mjög víða nýttar óskynsamlega og væri hægt að gera miklu meiri verðmæti úr þeim fyrir margar þjóðir ef betur væri staðið að málum.