Yfirlitsskýrsla um alþjóðamál

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 12:14:36 (6529)

2000-04-13 12:14:36# 125. lþ. 100.1 fundur 612. mál: #A yfirlitsskýrsla um alþjóðamál# skýrsl, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 125. lþ.

[12:14]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek alveg undir með hv. þm. að við þurfum að fara að huga að því að opna sendiráð í Suður-Ameríku. Við höfum þar mikilvægra hagsmuna að gæta, t.d. í landi eins og Chile, Argentínu, Brasilíu og fleiri lönd mætti nefna. Það er mjög óheppilegt að við skulum ekki hafa neitt sendiráð í þessari heimsálfu þannig að við erum fyllilega meðvitandi um það. Sama má segja um mörg önnur ríki í Asíu og reyndar í norðanverðri Afríku og það má líka nefna Mið-Evrópu og Austur-Evrópu í þessu sambandi. Það verður því ekki hjá því komist að huga að því í framtíðinni.

[12:15]

Ég vildi taka undir með hv. þm. að það er mjög mikilvægt að Alþingi hafi á að skipa starfsliði sem getur fylgst vel með málum og þá kannski sérstaklega í Brussel. Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að það væri á margan hátt heppilegt að Alþingi hefði starfsmann við sendiráðið í Brussel til að fylgjast þar með ýmsum gerðum og þeirri vinnu sem þar á sér stað. Nú höfum við lagt til að koma á breyttri skipan þessara mála þannig að mál komi miklu fyrr fyrir Alþingi og þingið fái meiri yfirsýn yfir það sem er að gerast og komi fyrr að málum og ég tel að að það þurfi að ræða það ítarlega. En af hálfu utanrrn. er ekkert því til fyrirstöðu að greiða fyrir því að starfsmaður Alþingis geti tekið þátt í því starfi sem þar er fyrir hönd þingsins. Það hefur legið fyrir af okkar hálfu. En það eins og annað er náttúrlega háð fjárveitingum og kostnaði. Það er kostnaðarsamt að hafa starfsmenn erlendis. Það eru ekki aðeins launin heldur líka ýmislegt annað sem fylgir því.