Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 13:36:38 (6541)

2000-04-13 13:36:38# 125. lþ. 100.8 fundur 484. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skattleysismörk) frv. 9/2000, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 125. lþ.

[13:36]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það frv. sem komið er til 2. umr. er eins og hv. þingmenn þekkja mál sem afgreitt var í tengslum við kjarasamninga við Flóabandalagið og fela í sér breytingar á skattleysismörkum og persónuafslætti. Nefndin fjallaði um frv. á einum fundi og fékk til fundar við sig bæði fulltrúa frá ASÍ og frá Öryrkjabandalaginu. Eins og fram kemur í nál. skrifa allir nefndarmenn undir álitið án fyrirvara. Ég vil þó halda til haga í umræðunni að fulltrúar Öryrkjabandalagsins lýstu sig ósammála þeirri viðmiðun sem hér er lögð til grundvallar að því er varðar hækkun persónuafsláttar og skattleysismarka næstu þrjú árin, eða frá 2000--2003, en í frv. er miðað við að láta skattleysismörk fylgja almennum umsömdum launahækkunum. Fulltrúar Öryrkjabandalagsins töldu eðlilegra og það þjónaði betur hag lífeyrisþega að persónuafslátturinn mundi fylgja launavísitölu. En hér er um að ræða samkomulag sem gert var í tengslum við kjarasamninga og ekki vannst tími til í nefndinni með tilliti til þess að breytingin tekur gildi núna um næstu mánaðamót að skoða nákvæmlega þær viðmiðanir og áhrif þeirra, bæði á kjör launþega og láglaunafólks. Því er niðurstaðan sú að við skrifum undir nál. án fyrirvara.

Fulltrúar Öryrkjabandalagsins lögðu til í nefndinni mjög athyglisvert plagg sem sýnir þróunina á lífeyrisgreiðslum frá 1993--1999. Þar kemur skýrt í ljós, eins og hv. þm. þekkja, hve kjör lífeyrisþega hafa verulega dregist aftur úr lágmarkslaunum og kjörum á almennum vinnumarkaði, en frá árinu 1993 hafa lágmarkslaun hækkað um 52,3%, launavísitalan um 38,6% en tekjutrygging lífeyrisþega einungis um 20,5%. Þeir benda einnig á hve skattleysismörk hafa hækkað lítið á þessu tímabili, eða einungis um 5,9%. Það segir sig sjálft að það hefur auðvitað veruleg áhrif á kjör láglaunafólks og lífeyrisþega hvernig þróun skattleysismarka hefur hækkað á þessu tímabili. Þeir benda á, sem er rétt að fram komi í umræðunni, að lífeyrisþegar sem eru einungis á strípuðum almannatryggingabótum eins og þeir kalla það greiða af þeim bótum sem eru innan við 70 þús. kr. á mánuði um 40 þús. kr. í skatta á ári. Það segir sig sjálft að það er mjög mikill peningur fyrir þá sem einungis hafa um tæpar 70 þús. kr. sér til framfærslu á mánuði.

Þessu vildi ég halda til haga í umræðunni ásamt því að benda á að það er mjög mikilvægt sem fram kemur í nál. efh.- og viðskn., sem var frágengið áður en samningarnir sem tókust hjá Verkamannasambandinu í nótt urðu til, en þar kemur fram sú skoðun nefndarinnar að þar sem einungis hluti vinnumarkaðarins hefur nú gert kjarasamninga til lengri tíma og endurskoða á þá 1. febrúar ár hvert með hliðsjón af launaþróun og þeim kjarasamningum sem á eftir koma er ljóst að almennar umsamdar launahækkanir geta orðið aðrar en liggja til grundvallar því sem kveðið er á um í frv. Verði þróun almennra launahækkana frábrugðin þessum forsendum er ljóst að þróun persónuafsláttar hlýtur að koma til umfjöllunar Alþingis á ný. Þetta er mjög mikilvægt, enda sýnir það sig strax núna að við erum hér að fjalla líka um brtt. sem hæstv. fjmrh. leggur fram, sem er bein niðurstaða eða afleiðing vegna þess að samið var um heldur betri kjör í þeim samningum sem tókust í nótt en gerðist hjá Flóabandalaginu sem hefur áhrif á það að skattleysismörkin breytast heldur meira en kveðið er á um í frv. og er þá raunverulega viðurkenning á því af hendi stjórnvalda að þessu þurfi að breyta í takt við umsamda launaþróun á þessu tímabili sem er alveg fram til 2003. Ég fagna því þeirri brtt. sem hæstv. fjmrh. leggur hér fram og undirstrika að ég tel að hér sé lögð ákveðin stefna með þeirri brtt. sem fjmrh. hefur mælt fyrir varðandi þróunina á þessum tíma fram til 2003.