Utandagskrárumræða og fjarvera sjávarútvegsráðherra

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 13:55:27 (6549)

2000-04-13 13:55:27# 125. lþ. 101.91 fundur 455#B utandagskrárumræða og fjarvera sjávarútvegsráðherra# (aths. um störf þingsins), EKG
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 125. lþ.

[13:55]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Eins og við vitum eru utandagskrárumræður hugsaðar þannig m.a. að með þeim sé hægt að bregðast við því sem gerist í þjóðfélaginu. Umræddur hæstaréttardómur féll sl. fimmtudag. Hæstv. sjútvrh. lýsti sig tilbúinn að ræða málin strax á föstudag. Það var auðvitað hið eðlilega í málinu. Það gat ekki orðið. Það lá fyrir að hæstv. sjútvrh. yrði fjarverandi, m.a. erlendis mestalla þessa viku. Hann hafði þær skuldbindingar að hann gat ekki komið því við að taka þátt í þessum utandagskrárumræðum í þessari viku. Það lá alveg fyrir. Þess vegna er fráleitt að halda því fram að hæstv. sjútvrh. sé að reyna að víkja sér undan þessari umræðu þegar hann lýsti því yfir að hann væri tilbúinn að taka þátt í þessari umræðu daginn eftir að hæstaréttardómurinn var kveðinn upp. Það hefði náttúrlega verið eðlilegt að ræða málin strax að upp kveðnum hæstaréttardómnum.

Hæstiréttur hefur kveðið upp sinn dóm og Alþingi og alþingismenn vilja auðvitað tjá sig um málið. Alþingismenn hafa verið að tjá sig um málið eins og eðlilegt er í fjölmiðlum strax að loknum þessum dómi. Þess vegna var langsamlega eðlilegast að við ræddum um dóminn daginn eftir eins og hæstv. sjútvrh. lagði raunar til og vildi að við gerðum. Það gat hins vegar ekki orðið. Fyrir því kunna að vera ástæður sem ég ekki þekki en það lá fyrir að hæstv. sjútvrh. var vegna skuldbindinga sinna og starfa upptekinn annars staðar. Hann gat ekki komið því við að eiga þessar umræður í þessari viku. Á því eru eðlilegar skýringar og fráleitt, eins og hér var reynt að halda fram, að hæstv. sjútvrh. væri að reyna að koma sér undan því að eiga þessar umræður eða stjórnarliðið þyrði ekki að taka þátt í sjávarútvegsumræðunni. Öðru nær. Stjórnarliðið er að sjálfsögðu alltaf tilbúið til að taka þátt í sjávarútvegsumræðunum. Þær fóru m.a. fram að hluta til í þessari viku, þegar við ræddum um sjávarútvegsmál. Þær verða væntanlega líka ræddar í næstu viku af efnislegum ástæðum.