Utandagskrárumræða og fjarvera sjávarútvegsráðherra

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 13:59:48 (6551)

2000-04-13 13:59:48# 125. lþ. 101.91 fundur 455#B utandagskrárumræða og fjarvera sjávarútvegsráðherra# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 125. lþ.

[13:59]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er afar sérkennileg uppákoma að ekki skuli takst að fá umræður um þetta stórmál í þessari viku áður en þingið fer í páskaleyfi. Það sem er þó öllu verra er sú röksemdafærsla sem uppi er höfð, þ.e. að þetta sé allt á valdi hæstv. sjútvrh. Síðan hvenær er það svo, herra forseti, að hæstv. sjútvrh. ráði hér störfum Alþingis og hann tilkynni um hvenær utandagskrárumræður geti orðið og hvenær ekki? Er það þannig að ef ráðherra segir: Ég er tilbúinn til að ræða þetta hálftólf á föstudaginn kemur en ef það verði ekki gert þá verði engin umræða --- segir þá Alþingi já og amen? Er það þannig? Síðan hvenær tók hæstv. sjútvrh. við forsæti hér á Alþingi?

Ég mótmæli því að málin séu sett upp með þeim hætti sem hér er gert af forseta, að fyrir hendi sé neitunarvald ráðherra hvað varðar utandagskrárumræður. Réttur þingmanna er í sjálfu sér einhliða til að taka hér upp mál, hvort heldur er í formi yfirlýsingar, umfjöllunar af sinni hálfu eða spurningar til ráðherra. Í því sambandi vísa ég t.d. til upphafsmálsgreinar 5. gr. þingskapa. Þannig er að málshefjandi getur að sjálfsögðu óskað eftir því að umræðan fari fram engu að síður þó að ráðherra sé ekki við.

Ég leyfi mér að spyrja, herra forseti: Hvað er mikilvægara á málefnaskrá hæstv. sjútvrh. í dag en að ræða við Alþingi um þetta mál? Hvaða skyldur hæstv. sjútvrh. íslensku þjóðarinnar eru svo ríkar að hafandi haft fjögurra daga fyrirvara til þess að gera breytingar á sinni dagskrá komi hann því ekki við að vera einhvern tíma dagsins hér í Alþingi? Er hæstv. ráðherra ekki bundinn þingskyldum eins og aðrir? Er hæstv. sjútvrh. á suðvesturhorni landsins?

Ég fer fram á það að áður en við tökum það gilt að svona hljóti þetta að vera þá verði upplýst um hvaða skyldur hæstv. sjútvrh. hefur svo brýnar að hann kemur því ekki við að eiga orðastað við þingmenn um þetta stóra mál í dag.