Utandagskrárumræða og fjarvera sjávarútvegsráðherra

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 14:01:56 (6552)

2000-04-13 14:01:56# 125. lþ. 101.91 fundur 455#B utandagskrárumræða og fjarvera sjávarútvegsráðherra# (aths. um störf þingsins), Forseti HBl
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 125. lþ.

[14:01]

Forseti (Halldór Blöndal):

Forseti vill taka fram að gefnu tilefni að það hefur enginn, svo mér sé kunnugt, beðið um að fá að taka til máls hér á Alþingi samkvæmt 1. mgr. 50. gr. Mér er þannig ekki alveg ljóst hvað fyrir hv. þm. vakti með hans athugasemd. Á hinn bóginn var farið fram á það af hv. 18. þm. Reykv. að eiga orðastað við hæstv. sjútvrh. um hæstaréttardóm og hafði verið um það beðið áður en dómurinn féll.

Það er alveg laukrétt hjá hv. þm. að alþingismenn og forseti Alþingis eru við því búnir, ef einhvern þann atburð ber að höndum í þjóðfélaginu sem vekur tilefni til umræðu, að til slíkrar umræðu sé efnt hér á Alþingi svo fljótt sem verða má. Eins og fram hefur komið hafði umræðubeiðandi, hv. 18. þm. Reykv., ekki tök á því að ræða málið sl. föstudag. Enginn annar alþingismaður tók þá beiðnina upp og óskaði eftir því að eiga þessar viðræður við hæstv. sjútvrh. þann dag.

Ég vil líka taka það fram sem hv. þm. er kunnugt að fyrir því er venja, ef menn biðja um utandagskrárumræðu við ráðherra, að forseti hafi ekki milligöngu um það mál heldur tali þingmenn beint við viðkomandi ráðherra og skýri forseta frá samtali þeirra.