Yfirlitsskýrsla um alþjóðamál

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 14:07:43 (6554)

2000-04-13 14:07:43# 125. lþ. 101.2 fundur 612. mál: #A yfirlitsskýrsla um alþjóðamál# skýrsl, RG
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 125. lþ.

[14:07]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég mun drepa á fáein afmörkuð málefni í þessari yfirlitsskýrslu hæstv. utanrrh. um alþjóðamál en vísa að öðru leyti til þess sem komið hefur fram í máli þingmanna Samfylkingarinnar. Sighvatur Björgvinsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir hafa þegar talað í þessari umræðu af hálfu Samfylkingarinnar og fleiri þingmenn Samfylkingarinnar munu koma inn í þessa umræðu, m.a. talsmaður okkar, Margrét Frímannsdóttir.

Ég vil hins vegar, virðulegi forseti, í upphafi máls míns bregðast við orðum sem hér hafa fallið varðandi ástandi í Írak. Það hefur komið fram hjá öðrum sem hér hafa talað hversu átakanlegt það er að þúsundir barna deyja þar daglega. Varðandi það, herra forseti, vil ég segja þetta:

Ég þekki vel umræðuna um að vera hluti af alþjóðabandalagi og geta ekki gengið gegn ákvörðun sem tekin er á vettvangi þess bandalags. Ég þekki vel þau viðhorf að Saddam Hussein sjálfur beri sjálfur ábyrgð á ástandinu heima fyrir og það eigi að beina gagnrýni sinni að þeim herramanni. En, herra forseti, það er ekki hægt að horfa upp á þær þjáningar sem hafa gengið yfir þúsundir og aftur þúsundir barna í Írak, ekki heldur fyrir okkur sem erum aðilar að einhverju bandalagi þar sem þessi ákvörðun er tekin.

Ég hef í öllum ræðum sem ég hef flutt um utanríkismál á Alþingi hvatt til að utanrrh. Íslands væri rödd mannréttinda á alþjóðavettvangi, að utanrrh. Íslands komi fram fyrir okkar hönd og hvetji til að tekið sé á þeim málaflokki. Ég hef hvað eftir annað séð ástæðu til að þakka utanrrh. framlög hans á þessum vettvangi og að fara orðum um hve vel hann hafi brugðist við og einmitt stigið slík spor á alþjóðavettvangi. Þess vegna hvet ég hæstv. utanrrh. til að fara í umræðuna um málefni Íraks frá þessum sjónarhóli, sem rödd mannréttinda, og þess að þjóðir heims geti ekki lengur horft upp á það sem þarna er að gerast.

Þetta vildi ég segja í tilefni þeirra orða sem hér hafa fallið um málefni Íraks. Við Íslendingar getum ekki annað en brugðist við því sem þar gerist og haft skoðun á því óháð því hvort við erum bundin af ákvörðunum sem teknar eru á vettvangi Sameinuðu þjóðanna eða annars staðar.

Herra forseti. Ég ætla að víkja að nokkrum afmörkuðum þáttum í þessari skýrslu sem er um margt fróðleg, hefðbundin að vísu, og verður væntanlega rædd allt öðruvísi en sú skýrsla sem boðað er að við munum taka til umræðu eftir páska um Evrópumál. Ég vil aðeins segja eitt um þann þátt sem snýr að Norðurlöndunum. Hér var fyrir tveimur vikum ágæt umræða um Norðurlandasamstarf og hæstv. utanrrh. tók þátt í þeirri umræðu. Ég tek auðvitað eftir því hversu mikla áherslu utanrrh. leggur á stöðu Norðurlanda í Evrópu og að auk þess sem hið hefðbundna samstarf hafi haldið áfram eins og áður þá hafi samráð aukist hvað varðar Evrópumál og grannsvæði Norðurlanda. Fyrir Ísland er það ómetanlegt, að hafa aðgang að upplýsingum um stefnu og ákvarðanir Evrópusambandsins í tengslum við samstarf Norðurlanda.

Þetta er kjarninn í því sem við höfum rætt á vettvangi Norðurlandaráðs og um Norðurlandaráð, að ekki síst fyrir okkur, löndin tvö í Norðurlandaráði sem erum utan Evrópusambandsins, þá hafi þetta skipt máli. Það skipti miklu máli að Norðurlandasamstarfið veiktist ekki eftir að fleiri lönd fóru inn í Evrópusambandið. Það hefur áfram verið sterkur vettvangur þrátt fyrir skipulagsbreytingar sem þar voru gerðar.

Annað mál sem tengist Norðurlandasamstarfinu og varð kannski til í gegnum það er Norðurskautsráðið. Hæstv. utanrrh. átti frumkvæði að stofnun þess ef ég man rétt. Það kemur fram í skýrslunni að Norðurskautsráðið sé samráðsvettvangur enda hafi ekki náðst samstaða um að gera það að eiginlegri alþjóðastofnun með tilheyrandi höfuðstöðvum og föstum fjárframlögum aðildarríkja.

Mér fannst þetta feikilega áhugavert verkefni þegar það fór af stað. Ég hef átt þess kost að sitja tvö þingmannaþing þessa samstarfs, fyrst hér heima á Íslandi --- ef ég man rétt var það fyrsta þingið --- og svo þing sem haldið var í Kanada eða samráðsfund. Ég hef haft áhuga á að fylgjast með þessum málum en mér finnst það ljóður á þessu samstarfi hversu lítið okkar land, í fararbroddi hér á norðurslóð, fáum af upplýsingum um starfið í Norðurskautsráðinu. Þess vegna spyr ég hæstv. utanrrh. hvort hann hefði kosið að þetta samstarf hefði náð að verða alþjóðastofnun, þar sem þess er getið hér, og hvernig hægt sé að taka á þessum málum. Er hann ánægður með hvernig þetta samstarf hefur þróast og er það í samræmi við það sem hann lagði upp með þegar hann flutti um það ræður og hvatti í raun til þess að af samstarfinu yrði? Ég vil gjarnan heyra viðhorf hans til þess.

Annað sem mig langar að koma inn á varðar varnarsamstarf okkar og varnarsamvinnuna. Við umræðu í fyrravor spunnust hér góðar umræður um varnarsamstarfið, endurskoðun þess, þá þróun sem orðið hefur og þá þróun sem mun verða. Ég gat ekki skilið hæstv. utanrrh. öðruvísi en svo að hann kysi að skoða hvort möguleiki væri fyrir Íslendinga á að fá frekari aðkomu að þeim verkefnum sem eru eingöngu hjá varnarliðinu í dag.

[14:15]

Í rauninni er mjög lítið fjallað um þessi mál í skýrslunni en sagt að samkvæmt bókuninni frá 1996 geti samningsaðilar óskað eftir að hún verði endurskoðuð og hvenær eigi þá að kappkosta að hefja viðræður. Mér fyndist mjög áhugavert ef hæstv. utanrrh. mundi fara aðeins í þá umræðu sem við tókum hér fyrir rúmu ári í tilefni af því að til umræðu var skýrsla um brottför hersins.

Enn annar þáttur sem við höfum áður rætt í umræðu um utanríkismál er aðild Íslands að efnahags- og félagsmálaráði Sameinuðu þjóðanna, ECOSOC, og hvað það skipti miklu máli að við fengum loksins seturétt þar og Ísland hefur verið þar í þrjú ár. Ég tek eftir því að í vinnu ECOSOC er lögð mikil áhersla á lagfæringu lífskjara og atvinnu og félagslega þróun og allt það sem við setjum á oddinn sem lýðræðisríki. Ég sé líka að lönd eru hvött til þess að setja lög til að tryggja útrýmingu alls ofbeldis gegn konum og einnig er fjallað um fátækt og reyndar á mörgum stöðum er fjallað um þátt kvenna varðandi þróun í fátæku ríkjunum. Út af fyrir sig væri hægt að taka heilmikla umræðu um það en hvað það varðar ætla ég að vísa til orða hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur sem gerði þeim þætti vel skil í umræðunni fyrr í morgun.

Annar þáttur er málefni barna og ég hef getið þess hér, m.a. í umræðu um Norðurlandaskýrsluna, að Samfylkingin hefur flutt mjög mörg mál á þessu þingi varðandi málefni barna en norræna ráðherranefndin hefur verið að vinna með þau mál og norðurnefndin í Norðurlandaráði og mjög mörg spennandi verkefni hafa verið tekin þar fyrir. Norræna ráðherranefndin hvatti til framkvæmdar barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Hér er kafli um málefni barna og barnasáttmálann og hversu mikilvægur hann er og að starfshópur á vegum mannréttindaráðsins hefur ákveðið að gera viðbótarsamning, reyndar er búið að gera þann samning, málamiðlun náðist um hann núna í janúar, sem kveður á um að börnum 18 ára og yngri verði óheimil þátttaka í vopnuðum átökum. Alls staðar er hvatt til framkvæmdar barnasáttmálans og fyrir þessu þingi liggur tillaga Samfylkingarinnar um að bera saman íslensk lög og barnasáttmálann og gera úrbætur þar sem á skortir. Nú höfum við fengið tvær skýrslur sem ráðherrarnir bera fram, annars vegar norrænu ráðherranefndarinnar og svo þessa skýrslu þar sem þessi staða er dregin fram. Mér finnst mjög mikilvægt og hvet til þess að sú tillaga sem ég er að vísa til verði afgreidd í samræmi við það sem lögð er áhersla á hér.

Ég hef nokkrum sinnum hvatt til þess að við létum til okkar taka varðandi alþjóðasakadómstólinn og vil árétta og minna á að tillaga um fullgildingu hans kom fyrir þingið, ég held í síðustu viku, og verður væntanlega fljótlega afgreidd héðan.

En það mál sem ég ætla að drepa á í lokin, herra forseti, eru málefni flóttamanna. Við höfum verið að taka fyrir í þinginu frv. um Schengen, eftirlit með útlendingum og fleiri lög sem snúa að komu útlendinga hingað til lands, en í mars í fyrra var lagt fyrir þingið frv. um breytingar á lögum um eftirlit með útlendingum. Það frv. hefur ekki komið aftur fyrir þingið. Í því frv. var kveðið á um hvernig ákvörðun væri tekin í málum sem varða hæli eða vernd gegn ofsóknum. Kveðið var á um framkvæmd ákvörðunar þegar um flóttamenn er að ræða, um réttaraðstoð og kröfuna um að útlendingi sé skipaður réttargæslumaður þegar hann leitar hér hælis og fjallað var um vernd gegn ofsóknum og fleira sem varðar flóttamenn.

Sérstök ástæða er til að minna á þetta, bæði vegna þess að hér er kafli um flóttamenn og við höfum aðallega staldrað við það að við bjóðum nokkrum tugum flóttamanna til búsetu á Íslandi á ári hverju. En ég fékk þær upplýsingar í gær, og tilviljun að ég fékk þær upplýsingar í tölvupósti á sama tíma og við ræðum utanríkismál á Alþingi, að til sé verða eiginlega ný stefna í málefnum flóttamanna í Evrópu eða réttara sagt að Evrópa sé að verða með meiri afturhaldsstefnu í málefnum flóttamanna og nú sé talað bæði um Schengen- og Dublin-samninginn með hálfgerðri leynd og að menn tengi flóttamenn við eiturlyfjasmygl og glæpamennsku. Að mannréttindi hvað þetta varðar séu dálítið víkjandi fyrir harðri umræðu sem tengi flóttamenn og þessa þætti, eiturlyfjasmygl og glæpamennsku, sem við óttumst öll, og að mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hafi gert athugasemd við þetta.

Því miður er ég ekki með neinar frekari upplýsingar um þennan þátt. Ég spyr um hvort þetta sé rétt, að mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hafi þurft að gera athugasemdir við einhverja samninga sem hafi verið gerðir í Evrópu og verið sé að tengja það við almenna útlendingaandúð í Evrópu.

Nú tek ég það sérstaklega fram að ég er ekki að tengja það að frv. sem varðar réttindi flóttamanna skuli ekki koma inn við það sem ég er hér að segja. En það vill svo til að ég hef árum saman kallað eftir því hvenær endurskoðuð lög um réttindi flóttamanna komi inn í þingið. Þau komu loksins í mars fyrir ári og síðan hafa þau ekki sést. Sumt af því sem er í þessu frv. er komið inn í frv. um eftirlit með útlendingum og kemur inn í lögin sem voru sett eða frv. sem sneru að Schengen. En það er alveg ljóst að það sem snýr að flóttamönnunum sem slíkum hefur ekki komið hingað inn í frumvarpsformi, ég veit að þetta er á vettvangi dómsmrh., en flóttamennirnir og hugmyndir um hag þeirra koma fyrir í þessari skýrslu og þess vegna nota ég þetta tækifæri eins og svo oft áður að minnast á flóttamennina og hvernig við eigum að standa vörð um málefni þeirra og réttargæslu.