Yfirlitsskýrsla um alþjóðamál

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 14:25:13 (6556)

2000-04-13 14:25:13# 125. lþ. 101.2 fundur 612. mál: #A yfirlitsskýrsla um alþjóðamál# skýrsl, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 125. lþ.

[14:25]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þekki þá stöðu varðandi fastanefndina sem var á vegum Norðurlandaráðs og sat í forsn. á þeim tíma sem verið var að breyta því að það voru þjóðþingin sem tilnefndu í þingmannasamráðið. En í forsn. söknuðu menn þess líka að ekki kæmi meira upplýsingaflæði frá fastanefndinni til Norðurlandaráðs sem tilnefndi í hana. Við vitum auðvitað að þarna hefur farið fram gott starf en við höfum ekki beinlínis haft tækifæri til þess að taka umfjöllun og umræðu um það hér í þinginu eins og við gerum þegar um formlegt alþjóðastarf er að ræða.

Það er gott að málin hafi þróast á þann veg að Bandaríkin hafa komið að þessu máli. Bandaríkin afboðuðu sig á síðustu stundu þegar þingmannafundurinn var í Kanada. Ég tek undir það að mjög áhugavert væri ef slík alþjóðastofnun sem hér um ræðir hefði aðsetur á Íslandi og vil gjarnan fylgjast með því hvort eitthvað er hægt að vinna að þessu.

Ég ætla ekki frekar að fara inn á norðlægu víddina, við ræddum það undir umræðunni um Norðurlandamálin, það er auðvitað á vettvangi Evrópusambandsins og vekur áhuga þar, en stóra spurningin hvað það varðar er hvernig við, löndin í EES, komum að því. Ég vona að öðru leyti að hæstv. ráðherra svari öðrum spurningum mínum annaðhvort í seinna andsvari eða síðari ræðu sinni.