Yfirlitsskýrsla um alþjóðamál

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 14:35:33 (6561)

2000-04-13 14:35:33# 125. lþ. 101.2 fundur 612. mál: #A yfirlitsskýrsla um alþjóðamál# skýrsl, MF
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 125. lþ.

[14:35]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Út af fyrir sig er dálítið fróðlegt á þessum tímamótum þegar utanríkisþjónustan á 60 ára afmæli að skoða þróun þeirrar umræðu sem hefur átt sér stað á Alþingi um utanríkismál frá upphafi og frá þeim tíma að utanrrh. fór að skila sérstökum skýrslum og nú sérstaklega í seinni tíð síðustu árin og áratugina. Ef við berum saman þær skýrslur um utanríkismál sem hafa verið fluttar og þær umræður sem hafa átt sér stað sést mjög vel hversu miklar breytingar hafa átt sér stað innan þessa málaflokks og hve mikilvægi öflugrar utanríkisþjónustu hefur vaxið ört. Kröfur okkar til stöðugrar þróunar á endurskipulagningu utanríkisþjónustunnar hafa auðvitað verið í takt við þær öru breytingar sem við höfum horft á.

Við gerum mjög miklar kröfur til utanríkisþjónustu okkar og við gerum kröfur um víðtæka sérþekkingu og sérhæfingu starfsmanna utanríkisþjónustunnar og við gerum kröfu til þess að þessi sérþekking og sérhæfing sé með svolítið öðrum hætti en hún hefur verið á undanförnum árum. Alþjóðlegar ráðstefnur og fundir þar sem fjallað er um hagsmuni sem snerta okkur Íslendinga, bæði beint og óbeint, eru daglegir viðburðir þar sem þátttaka okkar í ákvarðanatöku er mjög nauðsynleg og alþjóðlegt samstarf nær inn á öll svið samfélagsins og kemur inn á öll starfssvið ráðuneyta okkar. En heildarsamræmingin hlýtur engu að síður að vera í höndum utanrrn. og við gerum þess vegna kannski meiri kröfur um að fá þaðan þær upplýsingar sem við þurfum um alla málaflokka frekar en að beina þeim til fagráðuneytanna.

Ég var einmitt að velta því fyrir mér, virðulegi forseti, að við tejum gjrnan að allir ráðherrar eigi að vera viðstaddir umræðu um fjárlög íslenska ríkisins. Þá er að sama skapi orðið tímabært að ráðherrar, ýmsir hæstv. ráðherrar ýmissa fagráðuneyta væru viðstaddir umræðu um utanríkismál og færu þar yfir eða gæfu okkur skýrslu um það hvernig erlend samskipti eru rekin innan ýmissa fagráðuneyta. Töluvert vantar á að hv. alþm. hafi vitneskju um það mikla starf sem fram fer innan fagráðuneytanna af hálfu okkar embættismanna erlendis og jafnvel þar sem hv. alþm. eru sjálfir þátttakendur í erlendu samstarfi. Ég tek sem dæmi Evrópuráðið þar sem við verðum iðulega vör við að fagráðuneytin eiga ýmist fulltrúa sína sem eru að taka þátt í því starfi sem þar á sér stað án þess að við þingmenn vitum í hverju það starf felst eða á hvaða sviðum menn eru að vinna. Ég teldi nauðsynlegt að ráðuneytin skiluðu a.m.k. skriflegum skýrslum inn til þingsins, a.m.k. utanrmn. þar sem farið væri ítarlega yfir það starf sem innt er af hendi í fagráðuneytum og er mjög mikilvægt á alþjóðavettvangi og snertir daglegt líf eða hag flestra ef ekki allra landsmanna.

Ég tek þetta fyrir í upphafi ræðu minnar þar sem utanrrn. heldur utan um þetta starf og þó að við höfum ákveðinna sérhagsmuna að gæta í alþjóðlegu samstarfi þá eru sameiginlegir hagsmunir þjóða sífellt fyrirferðarmeiri í umræðu og störfum í utanríkisþjónustunni og við berum ábyrgð í samfélagi þjóðanna, undan því verður ekki vikist. Samfylkingin leggur áherslu á að við tökum þátt í þessu alþjóðlega samstarfi hvar sem því verður við komið. Þetta kostar peninga eins og svo oft hefur komið fram og ef menn bera saman fjárlög núna á undanförnum árum og framlög til utanríkisþjónustunnar þá hafa þau vissulega vaxið en að mínu mati ekki nærri því í takt við það hve mikilvægi málaflokksins hefur vaxið á þessum tíma. Þetta er alltaf spurning um forgangsröðun og við verðum ósköp einfaldlega að horfast í augu við það að þátttaka okkar í alþjóðlegu samstarfi kemur alltaf til með að kosta peninga. Við þurfum þess vegna að endurskipuleggja ríkisreksturinn út frá þessum mikilvæga málaflokki, þ.e. taka meira tillit til hans en við höfum gert hingað til.

Það er ekki nóg af okkar hálfu að gera kröfur. Við verðum líka sem þingmenn að vera tilbúin til þess að axla þá ábyrgð sem við berum á því hvernig þessar kröfur eru uppfylltar og það er m.a. í gegnum þær fjárveitingar sem Alþingi ákveður til hvers málaflokks. Mér sýnist að veruleg þörf sé á því að auka fjárveitingar eða vægi fjárveitinga íslenska ríkisins á hverju ári til utanríkismála.

Ekki fyrir löngu kom fram, og í annarri skýrslu sem við munum taka fyrir, að kostnaðurinn við hugsanlega þátttöku okkar í Evrópusamstarfinu í Evrópubandalaginu mundi kosta okkur a.m.k. 7--8 milljarða kr. Þegar ég las skýrsluna og skoðaði það sem liggur að baki þessum kostnaði er því ekki að neita að ég velti fyrir mér kostnaði ef við sinntum alþjóðlegu samstarfi eins og við raunverulega þyrftum á öllum sviðum, hvort okkur er ekki í raun og veru óhætt að reikna með því að annar kostnaður sem við þurfum að bera á næstu árum verði eitthvað álíka ef við sinnum öllum þáttum í alþjóðlegu samstarfi eins og við þyrftum að gera. Það á ekkert síður við alþjóðlegt samstarf þar sem Alþingi er þátttakandi þar sem er langt í frá að við sem höfum tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi á vegum Alþingis höfum úr því fjármagni að spila sem við þyrftum til að geta sinnt því af einhverju viti. Það er ósköp einfaldlega þannig að ef ég tek t.d. Evrópuráðið sem hefur nokkuð verið rætt á þessum þingfundi nú þegar --- og skýrsla Evrópuráðsstarfsins verður flutt á eftir af hv. þm. Láru Margréti Ragnarsdóttur, formanni okkar í íslensku sendinefndinni --- ef við ætluðum að taka þátt í því starfi eins og þyrfti og sinna nefndarstarfi þá þyrftu fjárveitingarnar a.m.k. að tvöfaldast á við það sem við höfum í dag. Það kemur fram í skýrslu hæstv. ráðherra að starf íslenskra þingmanna í Evrópuráðinu hefur verið öflugt og það er alveg rétt og aðdáunarvert þó að við segjum sjálf frá, þá er aðdáunarvert hvernig okkur hefur á undanförnum árum tekist að nýta þær takmörkuðu fjárveitingar sem við höfum úr að spila vegna þess að þarna eru þingmenn sem hafa sýnt einstakan dugnað og tekið að sér verkefni, ekki bara nefndarverkefni í þeim nefndum sem við viljum gjarnan taka þátt í heldur einnig ýmis eftirlitshlutverk á vegum Evrópuráðsins. Formaður okkar, hv. þm. Lára Margrét Ragnarsdóttir, fór t.d. í eftirlitsferð til Tsjetsjeníu sem skilaði síðan skýrslu sem réði úrslitum um það hvernig atkvæði féllu á Evrópuráðsþinginu varðandi Rússana og rétt þeirra til að greiða atkvæði í Evrópuráðinu. Þeir voru sviptir atkvæðisrétti sínum. Það var rétt ákvörðun þó hún væri tekin af naumum meiri hluta þingsins þar sem um var að ræða 78 atkvæði sem féllu með því að þeir yrðu sviptir atkvæði en 69 voru á móti en æðimargir þingmenn Evrópuráðsins tóku þá ákvörðun að greiða ekki atkvæði. Það er einkennileg ákvörðun í ljósi þess að þarna er verið að brjóta mannréttindi mjög gróflega. Það kom fram í skýrslunni sem lá til grundvallar umræðunni sem átti sér stað á þinginu. Ef Evrópuráðið ætlar að standa undir nafni verður það að sjá til þess að þær þjóðir sem þar eru fylgi þeim skilyrðum sem sett eru vegna aðildar þeirra.

[14:45]

Við eigum þarna núna þrjá fastafulltrúa, þ.e. auk mín hv. þingmenn Láru Margréti Ragnarsdóttur og Ólaf Örn Haraldsson. En við höfum átt mjög dugmikla þingmenn sem starfa með Evrópuráðinu eins og núv. formann utanrmn., hv. þm. Tómas Inga Olrich. Allir þessir þingmenn ásamt mörgum öðrum sem þarna hafa starfað hafa tekið mjög virkan þátt í starfsemi Evrópuráðsins. Hæstv. ráðherra utanríkismála var formaður ráðherraráðs Evrópuráðsins á síðasta ári og ég vil, virðulegi forseti, koma á framfæri þakklæti okkar fyrir hans störf þar. Við vorum stolt af störfum ráðherra í Evrópuráðinu og jafnframt starfsfólki sendiráðsins og sendiherra okkar í Strassborg, bæði fastráðnu og einnig því sem kom frá utanrrn. til starfa í Strassborg. Allt þetta fólk lagði af mörkum mjög mikla vinnu og hafði þó úr miklu minni fjármunum að spila en ýmsir þeir sem áður hafa farið þarna með formennsku og starfsliðið var fámennara en við höfum oft séð í kringum formenn þegar aðrar þjóðir hafa farið með formennsku. Við vorum þess vegna, og kannski ekki síst þess vegna, mjög þakklát fyrir það mikla og góða starf sem okkar ráðherra og sendiherra og hans starfsfólk innti af hendi meðan á þessu stóð og gerir reyndar áfram innan Evrópuráðsins þó að formennskunni sé lokið.

Virðulegi forseti. Ég minnist þess að fyrir ári síðan birtist á þinginu sem fylgiskjal með ræðu hæstv. ráðherra plagg sem hét Öryggi og varnarmál Íslands við aldamót. Þar var á ferð álit sem er greinargerð starfshóps sem var skipaður 14. september 1998 af hæstv. ráðherra til að leggja mat á íslensk öryggis- og varnarmál á tímum breytinga í alþjóðamálum. Greinargerðin sem þessi starfshópur skilaði var nokkuð ítarleg en hann tók þó fram í inngangi sínum að starfshópurinn sem hafði ráðfært sig við ýmsa aðila og þegið frá þeim góðar ábendingar bæri einn ábyrgð á þeim sjónarmiðum sem sett voru fram í greinargerðinni. Þessi greinargerð var heilmikið rædd þegar skýrsla hæstv. utanrrh. var til umræðu fyrir ári síðan sem og niðurstöður þessa hóps þar sem komu fram ýmsar tillögur. Ég vil, virðulegi forseti, beina þeim spurningum til hæstv. ráðherra hvað hafi verið gert í framhaldi af þessu starfi vegna þess að það kom m.a. upp í þeirri umræðu að áframhaldandi starf væri nauðsynlegt, þetta væri aðeins grunnur til að byggja á áframhaldandi starf og að til greina kæmi að inn í nefndarstarf kæmu fulltrúar frá Alþingi, frá utanrmn., frá meiri hluta og minni hluta. En það hefur ekki gerst og því spyr ég hæstv. ráðherra hvort þessu starfi hafi verið haldið áfram og hvort þær tillögur sem þarna voru lagðar fram hafi verið teknar til athugunar. Ég ætla að nefna nokkrar með leyfi forseta. Það var m.a rætt um að kannaðar yrðu leiðir til að Íslendingar gætu axlað stærra hlutverk einir eða í samstarfi við önnur ríki í vörnum landsins og það var rætt um öryggis- og varnarmálaþáttinn og hvernig við komum inn í ESB og síðan Europol og upplýsingaskipti milli lögregluyfirvalda í aðildarríkjum ESB og miðlæga samskiptamiðstöð á sviði fíkniefnamála sem væri möguleiki á að við gætum tekið þátt í.

Fleiri þættir voru þarna nefndir varðandi öryggis- og varnarmálastarfið og þar sem liggur nú fyrir að hægt er að endurskoða bókunina 9. apríl 2000 --- þá rann hún út --- þá spyr ég hæstv. ráðherra hvort þær tillögur sem þarna voru lagðar fram hafi nokkuð verið teknar til athugunar í ljósi þeirrar endurskoðunar sem heimil er.