Yfirlitsskýrsla um alþjóðamál

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 14:50:49 (6562)

2000-04-13 14:50:49# 125. lþ. 101.2 fundur 612. mál: #A yfirlitsskýrsla um alþjóðamál# skýrsl, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 125. lþ.

[14:50]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Út af þeirri spurningu sem hv. þm. Margrét Frímannsdóttir kom með í lok máls síns, þá er það rétt að við sögðum að við vildum halda þessu starfi áfram. Það má segja að við höfum haldið því áfram með því að við höfum haft þessar tillögur til hliðsjónar í öllu okkar starfi. Utanrrn. hefur hins vegar verið mjög upptekið við mál sem snerta Evrópusambandið að undanförnu. Við höfum líka verið mjög uppteknir við verkefni sem tengjast hinni sameiginlegu stefnu Evrópusambandsins í öryggis- og varnarmálum. Þess vegna skal það alveg játað að við höfum ekki getað sinnt þessu starfi eins og við höfum ætlað okkur. En ég er enn þeirrar skoðunar að við eigum að halda þessu starfi áfram og skipa í það sérstaka nefnd. Af minni hálfu er ég enn sem fyrr reiðubúinn til þess að eiga um það samstarf við utanrmn. Alþingis og skipa fulltrúa þaðan í slíka nefnd til þess að halda áfram þessu starfi. Ég tel rétt að við hefjum slíkt starf á næstu mánuðum, t.d. næsta haust þegar skýrari línur liggja bæði að því er varðar samninga við Bandaríkjamenn sem væntanlega verða hafnir þá að því er varðar framhald þess máls og jafnframt liggja vonandi fyrir skýrar niðurstöður í sameiginlegri öryggis- og varnarmálastefnu Evrópu á þeim tíma. En það hefur tekið miklu meiri tíma af okkar hálfu og lengri tíma en við gátum séð fyrir.