Yfirlitsskýrsla um alþjóðamál

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 15:13:19 (6567)

2000-04-13 15:13:19# 125. lþ. 101.2 fundur 612. mál: #A yfirlitsskýrsla um alþjóðamál# skýrsl, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 125. lþ.

[15:13]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Þann 1. mars sl. setti Evrópusambandið á stofn stofnanir í öryggis- og varnarmálum sem áttu að undirbúa aðgerðir til að mæta því hættuástandi sem gæti komið upp í Evrópu og þær stofnanir voru settar upp til bráðabirgða. Við Íslendingar höfum óskað mjög ákveðið eftir því, ásamt öðrum þjóðum sem standa utan Evrópusambandsins og eru í Atlantshafsbandalaginu, að verða aðilar að þessum stofnunum. Við því hefur enn þá ekki orðið.

Á sama hátt hljótum við að krefjast þess og vilja taka þátt í því þingmannasamstarfi sem á sér stað á þessum vettvangi. Mér finnst það sjálfgefið og eðlilegt að við styðjum það af öllum mætti og þurfi í sjálfu sér ekki að taka sérstaka afstöðu til þess að öðru leyti en því að Alþingi Íslendinga þarf að sjálfsögðu að taka til þess afstöðu.

Að því er varðar samstarf Norðurlandanna, þá liggur fyrir að bæði Svíþjóð og Finnland eru hlutlausar þjóðir. Hlutleysi er nú allmikið á undanhaldi, ef það hefur þá einhvern tíma verið til, og þess vegna hefur margt verið að breytast hjá þessum þjóðum. En það er rétt að þarna hefur verið nokkur sérstaða en þó hef ég aldrei orðið var við neina beina andstöðu af hálfu þessara þjóða eða að ekki væri sýndur skilningur á sérstöðu Íslands og Noregs í þessu efni. Ég vænti því þess að svo geti orðið áfram en það er vissulega rétt að bæði Svíþjóð og Finnland hafa haft nokkra sérstöðu í þessum efnum.