Yfirlitsskýrsla um alþjóðamál

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 15:15:30 (6568)

2000-04-13 15:15:30# 125. lþ. 101.2 fundur 612. mál: #A yfirlitsskýrsla um alþjóðamál# skýrsl, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 125. lþ.

[15:15]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. utanrrh. fyrir svör hans. Ég fagna því að hann telji að þingmannasamkunda eins VES sé mikilvæg. Ég hef reyndar fundið fyrir því en þetta er opinber yfirlýsing sem ég tel mikilvæga í málinu.

Það urðu mikil tímamót í Lissabon þegar þessi samþykkt var gerð af öllum þessum ríkjum sem eru þá öll Evrópuríkin, sem sagt Evrópusambandsríkin ásamt hinum 13 ríkjunum. Þessi 28 ríki, öll fyrir utan Svíþjóð, samþykktu þetta einróma. Reyndar geta ekki nema þau ríki sem eru aðilar að Brussel-samningnum greitt atkvæði. Svíar létu skoðun sína í ljós sem áheyrnarfulltrúar en sögðu að ef þeir hefðu atkvæðisrétt þá mundu þeir greiða atkvæði gegn þessu. Það kom öllum á óvart þarna á þinginu að þetta skyldi koma frá þeim því að bæði ég sem fulltrúi Íslands og aðrir sem eru utan Evrópusambandsins en í NATO höfðum lýst miklum áhuga okkar fyrir því að þetta gæti gengið eftir og höfum alla tíð lýst því yfir að af hálfu íslenskra aðila, og þar höfum við að sjálfsögðu túlkað sjónarmið utanrrn., væri mikill skilningur og velvilji fyrir þeirri þróun sem er að eiga sér stað um varnar- og öryggigsmál í Evrópu og þetta þing væri einmitt sá lykill sem okkur vantaði að umræðunni, þá í framhaldinu innan Evrópusambandsins og Evrópu.