Yfirlitsskýrsla um alþjóðamál

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 15:32:04 (6571)

2000-04-13 15:32:04# 125. lþ. 101.2 fundur 612. mál: #A yfirlitsskýrsla um alþjóðamál# skýrsl, GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 125. lþ.

[15:32]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir undirtektirnar við máli mínu. Ég játa að mér var ekki kunnugt um að þessi starfsemi varðandi markaðsmál væri og hefði verið í gangi hjá Tækniskólanum. Því síður vissi ég að utanrrn. hefði tekið tvo nema til starfa árlega. Ég tel að það sé mjög vel og nauðsynlegt. Ég sé að menn hafa gert sér grein fyrir því að allt of margir hafa verið í því að kaupa en ekki nógu margir í að selja. Ég tel að þetta sé liður í að breyta því og fagna því mjög.

Mér var heldur ekki ljóst að til stæði þessi kynning eða ráðstefna um björgun í hafsnauð. Engu að síður tel ég að við búum yfir sérstökum aðstæðum í björgunarskólanum á Gufuskálum þar sem við getum þjálfað fólk í leit við mjög erfiðar aðstæður. Við getum þjálfað fólk við að bjarga af sjó eða við sjó. Þar höfum við kjöraðstæður til þess þjálfa ekki bara íslenskar sveitir heldur og erlendar sveitir. Ég vil þakka hæstv. utanrrh. undirtektir hans við máli mínu og fyrir upplýsingarnar.