Yfirlitsskýrsla um alþjóðamál

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 16:10:49 (6577)

2000-04-13 16:10:49# 125. lþ. 101.2 fundur 612. mál: #A yfirlitsskýrsla um alþjóðamál# skýrsl, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 125. lþ.

[15:52]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ætli ég geri þá ekki slíkt hið sama og fagni því alveg sérstaklega að hæstv. utanrrh. fjallar nú um þetta mál á allt annan hátt en hann gerði fyrir nokkrum árum. Hæstv. utanrrh. viðurkennir nú að þetta viðskiptabann sé ekki að skila þeim árangri sem menn ætluðu. Hæstv. utanrrh. viðurkennir að þetta ástand er auðvitað óþolandi. Það er ekki hægt að búa við þetta áfram og ég fagna því.

Ég tel mig hafa fjallað um þetta mál á mjög svipaðan hátt allt frá því að ég, sennilega einna fyrstur stjórnmálamanna á Norðurlöndum, tók þetta mál upp bæði á Alþingi Íslendinga og síðan í framhaldinu á norrænum vettvangi. Þá voru sjónarmið vissulega önnur og menn vörðu það af mikilli hörku að þetta væri hið eina rétta og þetta væri allt þessum mannhundi Saddam Hussein að kenna og þeim væri þetta rétt mátulegt. Nú hafa komið í ljós upplýsingar jafnt og þétt, sem þá þegar máttu mönnum að vísu vera ljósar, sem sýna að þarna er ósköp einfaldlega ástand sem alþjóðasamfélagið getur ekki borið ábyrgð á. Það er ekki hægt eftir heilan áratug að réttlæta það að vegna þessa viðskiptabanns skuli 5 þúsund börn deyja í hverjum einasta mánuði. Mannfallið er komið talsvert á aðra milljón, þar af líklega um 600 þúsund börn og það heldur áfram. Í raun og veru er hver einasti mánuður mikill ábyrgðarhlutur og hver einasti dagur sem líður ef ekki tekst að knýja þarna fram einhverja skynsamlegri lausn mála. Ég vitnaði til þess fyrr í umræðunum að allir helstu yfirmenn mannúðarmála á vegum Sameinuðu þjóðanna sem hafa farið með málefni Íraks hafa sagt af sér vegna þess að þeir hafa ekki treyst sér til að bera ábyrgð á ástandi mála.

Ég vonast þar af leiðandi til þess að núna komist hreyfing á að málið verði tekið á dagskrá af alvöru og ég trúi ekki öðru núna, herra forseti, en að sú tillaga sem hér hefur legið fyrir þinginu ár eftir ár fái nú loksins afgreiðslu og vilji Alþingis Íslendinga í þessu sambandi fái að koma í ljós.

[16:13]