Yfirlitsskýrsla um alþjóðamál

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 16:14:46 (6579)

2000-04-13 16:14:46# 125. lþ. 101.2 fundur 612. mál: #A yfirlitsskýrsla um alþjóðamál# skýrsl, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 125. lþ.

[15:52]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það að menn hafi gefið í skyn að Ísland gæti ekki einhliða aflétt þátttöku í þessu viðskiptabanni, þá getur Ísland það að sjálfsögðu. Það yrði þá að sjálfsögðu að axla þær afleiðingar sem því eru samfara. (Utanrrh.: Og segja sig úr Sameinuðu þjóðunum?) Nei, það er nefnilega misskilningur hjá hæstv. utanrrh. (Utanrrh.: Nei.) Og víða annars staðar hafa menn reyndar rætt þann möguleika og bent á að þau ríki sem tækju þá ákvörðun gætu vísað til ýmissa annarra ákvæða Sameinuðu þjóðanna, þar á meðal mannréttindasáttmálans og varið sig með honum og spurningin er þá auðvitað, hvort er rétthærra, sú þvingaða ákvörðun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um að viðhalda þessu banni vegna neitunarvalds Bandaríkjanna og ofríkis Bandaríkjanna eða aðrir sáttmálar Sameinuðu þjóðanna sem leggja þær skyldur á herðar aðildarríkjunum að uppfylla mannréttindi.

Tillagan hins vegar, herra forseti, hefur frá upphafi verið um að Alþingi fæli utanrrh. að beita sér fyrir endurskoðun. Tillagan hefur aldrei verið um einhliða aðgerðir af Íslands hálfu, það talar sínu máli skýrast og svarar hæstv. utanrrh. um að einhver grundvallarsinnaskipti hafi orðið hjá þeim sem hér talar. Tillagan hefur verið frá upphafi eins og hún er enn þann dag í dag og sömuleiðis var sú tillaga sem ég flutti á vettvangi Norðurlandaráðs þannig að ekki er hægt að bera fyrir sig nein þjóðréttarleg vandkvæði í þeim efnum. Alþingi getur að sjálfsögðu samþykkt að fela utanrrh. að fara með þá afstöðu Íslands í farteskinu á vettvang alþjóðastofnana að Íslendingar vilji að framkvæmd þessa viðskiptabanns verði endurskoðuð. Annað og meira er ekki sett á blað í þessari tillögugrein og reyndar hafa ýmsir gagnrýnt það að of vægt væri í hlutina farið í ljósi þessa ástands sem þarna ríkir. Ég yrði ekki hissa á því þó að sú sorglega saga sem þarna hefur verið að skrifast í landinu forna milli fljótanna eigi eftir að þykja þegar frá líður einhver allra ljótasti blettur á sofandahætti hins alþjóðlega samfélags og ofríkis Bandaríkjamanna á þessum áratug eftir að það eitt landa varð yfirgnæfandi heimsveldi.