Yfirlitsskýrsla um alþjóðamál

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 17:24:44 (6595)

2000-04-13 17:24:44# 125. lþ. 101.2 fundur 612. mál: #A yfirlitsskýrsla um alþjóðamál# skýrsl, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 125. lþ.

[17:24]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Í yfirlitsskýrslu hæstv. utanrrh. um alþjóðamál er komið víða við og margt ágætlega sagt og áherslur um sumt ágætar. Um þetta hefur farið fram yfirgripsmikil umræða í dag og hefur verið komið víða við. Vísa ég þar sérstaklega í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, Kolbrúnar Halldórsdóttur og Sigríðar Jóhannesdóttur en í málflutningi þeirra er að finna margt sem ég er mjög sammála og ætla ekki að endurtaka hér.

Ég ætla að minnast nokkrum orðum á nokkuð sem er ekki að finna í þessari skýrslu en á þar heima og vísa ég þar til málefna Íraks. Hæstv. ráðherra vék reyndar fáeinum orðum að Írak í andsvari og sagði ef ég skildi hann rétt að umræðan væri komin á hærra plan en hún hefði verið á árum áður. Hins vegar fannst mér á frammíköllum hæstv. ráðherra að hann vildi gera sitt til að koma henni inn í gamalkunnan farveg. Hann kallaði fram í hjá ræðumönnum og sagði að fráhvarf frá viðskiptabanni Sameinuðu þjóðanna jafngilti úrsögn úr þeim samtökum. Ekki tel ég það vera en grundvallaratriði og fyrsta skref sem okkur ber að stíga er að sýna viðleitni í þá átt að fá viðskiptabanninu á Írak hnekkt ef við teljum það á annað borð vera rangt og brjóta gegn mannréttindum, sem ég tel það vera. Þetta hefur hins vegar ekki verið gert. Sex sinnum hefur verið flutt á Alþingi þáltill. þar sem hvatt er til þess að viðskiptabannið á Írak verði tekið til endurskoðunar. Í öll skiptin hefur farið fram fyrri umræða um þessa þáltill. og síðan hefur það verið svæft í utanrmn. Það hefur aldrei fengist afgreitt út úr nefndinni þannig að þingið gæti tekið afstöðu til tillögunnar. Þegar tækifæri hafa gefist á vettvangi Sameinuðu þjóðanna til að taka afstöðu til þessara mála hafa Íslendingar lagst gegn hugmyndum um að afnema viðskiptabannið og ég vísa þar t.d. í ályktunartillögu sem borin var upp í New York hjá Sameinuðu þjóðunum í nóvembermánuði 1988. Þar var borin fram ályktunartillaga þar sem ríki voru hvött til þess að hlíta grundvallaratriðum mannréttinda í tillögu sem bar heitið ,,Human rights and unilateral coercive measures`` eða mannréttindi og einhliða þvingunaraðgerðir. Þar segir í 1. lið, með leyfi forseta, og ég ætla að lesa það á ensku, þar er hvatt til þess að:

,,Urges all States to refrain from adopting or implementing any unilateral measures not in accordance with international law and the Charter of the United Nations, in particular those of a coercive nature with all all their extraterritorial effects, which create obstacles to trade relations among States, thus impeding the full realization of the rights set forth in the Universal Declaration of Human Rights Resolution and other international human rights instruments, in particular the right of individuals and peoples to development.``

Í þriðja liðnum eru ríki hvött til hins sama:

,,... to commit themselves to their obligations and responsibilities arising from the international human rights instruments to which they are party by revoking such measures at the earliest time possible.``

Hér vitnaði ég í ályktunartillögu sem var borin upp hjá Sameinuðu þjóðunum í nóvember 1998. Þar er hvatt til þess að ríki beiti ekki einhliða þvingunaraðgerðum ef þær stríða gegn grundvallarmannréttindum og grundvallarsáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Íslendingar greiddu atkvæði gegn tillögunni. Hún var engu að síður samþykkt. Þetta var ályktunartillaga sem var ekki bindandi, viljayfirlýsing. 104 ríki greiddu atkvæði með tillögunni, 44 voru gegn og 10 sátu hjá. Á meðal þeirra ríkja sem greiddu atkvæði gegn þessari tillögu var Ísland. Þess vegna er það rangt af hálfu hæstv. utanrrh. þegar hann gefur í skyn að Íslendingar geti sig hvergi hreyft gagnvart öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Við gátum tekið þátt í að álykta í þessa veru og stutt þessa viðleitni. Það gerðu Íslendingar ekki. Þeir greiddu atkvæði gegn tillögunni.

[17:30]

Síðan eru áhöld um það og hefur mikið verið um það rætt hvort ákvörðun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, sem hæstv. utanrrh. vísar jafnan til, sé í samræmi við grundvallarsáttmála Sameinuðu þjóðanna vegna þess að því aðeins má grípa til aðgerða af þessu tagi að heimsfriðnum sé ógnað. En þetta eru lögfræðileg efni. Hitt er ekki lögfræðileg álitamál á hvern hátt alþjóðlegur mannúðarréttur er festur í lög og alþjóðlega samninga. Það er ekkert álitamál. Það er ekkert álitamál hvað stendur í Genfarsáttmálanum frá 1949 sem samþykktur var í ágústmánuði árið 1949. Það er ekkert álitamál hvað stendur í viðaukum við þann samning sem samþykktir voru árið 1977. Það er ekkert álitamál. Þar segir að ekki megi nota hungur eða svelti sem hernað. Það má ekki gera. Í viðaukanum, sem Íslendingar eiga aðild að og hafa samþykkt, er líka talað um að það beri að gera grundvallarmun á milli hermanna annars vegar og borgara hins vegar. Þetta er nokkuð sem menn hafa reyndar ekki deilt um. Það er þess vegna sem ,,Oil for goods`` kom til sögunnar, að Írakar mættu selja tiltekið magn af olíu til að forða hungri í landinu.

Síðan hafa menn deilt um hvort þarna sé að finna nægilegar tilslakanir til að komast fram hjá þessum ákvæðum Genfarsáttmálans og viðauka hans. Þeir aðilar sem hafa komið að þessu máli fyrir hönd Sameinuðu þjóðanna og sinnt þar mannúðarstarfi hafa hver á fætur öðrum sagt af sér, Denis Halliday, Hans von Sponeck, Jutta Burghart, allir þessir aðilar sem höfðu yfirumsjón eða voru í æðstu stjórn mannúðarstarfsins í Írak fyrir hönd Sameinuðu þjóðanna hafa sagt af sér og sagt að það sem sé að gerast í landinu brjóti gegn mannúðarrétti og alþjóðlegum skuldbindingum sem Íslendingar meðal annarra eiga aðild að. Það er því rangt að menn geti skotið sér á bak við öryggisráð Sameinuðu þjóðanna og talið sig stikkfrí, lausa allra mála. Þegar það kemur síðan á daginn að þegar tækifæri gáfust á vettvangi Sameinuðu þjóðanna að sýna vilja sinn í þessum efnum leggjast fulltrúar okkar Íslendinga gegn því að svo verði gert, leggjast gegn því að ályktað sé í þá veru að grundvallarmannréttindi séu virt. Mér finnst að Íslendingar og Alþingi eigi skilið annað og meira og betri útskýringar af hálfu hæstv. utanrrh. um þessi efni en það sem við höfum fengið. Í því sambandi ítreka ég enn og aftur mikilvægi þess að þingið fái að segja vilja sinn um þessi efni. Sex sinnum hefur komið fram þáltill. um endurskoðun á viðskipabanninu á Írak, um að hvetja íslensk stjórnvöld, að þingið álykti í þá veru að fulltrúar okkar hjá Sameinuðu þjóðunum beiti sér í þessa veru. Sex sinnum hefur þetta komið fram og þetta fæst ekki afgreitt. Þingið fær ekki að greiða um þetta atkvæði. Finnst mönnum þetta eðlileg lýðræðisleg vinnubrögð? Mér finnst það ekki. Mér finnst þetta andlýðræðisleg vinnubrögð.

Að lokum langar mig til að beina spurningu til hæstv. utanrrh. um efni sem lítið hefur verið fjallað um og það er skuldaniðurfelling Alþjóðabankans til fátækustu ríkja. Mig langar til að fá að vita hvort og þá hvaða skilyrði hafa verið sett fyrir slíkri skuldaniðurfellingu vegna þess að þau skilyrði eru fyrir hendi. Þó að fram komi að Íslendingar hafi beitt sér fyrir niðurfellingu skulda fátækustu ríkja heims meðan þeir voru í forsvari innan Alþjóðabankans fyrir Norðurlöndin á árinu 1997--1998 þá hefur komið fram í máli hæstv. utanrrh. og kom fram í þeim ræðum sem hann flutti á þessum vettvangi að hann teldi eðlilegt að stuðla að kerfisbreytingum hjá viðskiptaaðilum bankans í átt til einkavæðingar. Þetta hefur verið gagnrýnt hvað harðast, ekki síst af hálfu fátækra ríkja þegar Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafa verið að setja þeim stólinn fyrir dyrnar hvað þetta snertir. Þess vegna beini ég spurningu til hæstv. utanrrh.: Eru sett einhver skilyrði fyrir niðurfellingu skulda og ef skilyrði eru sett, hver eru þau? Þetta er ekki allt eins stórkostlegt í þessum efnum og menn skyldu ætla. Lánveitingarnar og niðurfellingarnar á skuldum hafa iðulega verið háð mjög þröngum pólitískum skilyrðum, það er staðreynd.

Annað er þegar verið er að láta í sjóði til þess að aðstoða fátæk ríki við að greiða skuldir sínar, þá skulum við ekki gleyma því hvaðan slíkar kröfur koma. Þær koma úr tveimur áttum. Þær koma frá aðilum, verkalýðshreyfingu, almannasamtökum og þessum fátæku ríkjum sjálfum um að skuldir verði felldar niður eða vextir og svo hafa einnig komið kröfur frá Alþjóðabankakerfinu þegar þessi ríki hafa komist í þrot um að alþjóðlegar stofnanir og ríki hlaupi undir bagga svo að þessi ríki geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart bönkunum. Þetta er stundum samhengi hluta.

Ég óska eftir því að hæstv. utanrrh. skýri þetta með niðurfellingu skulda. Ég vona að hann hafi heyrt spurningu mína. (Gripið fram í.) Ekki nægilega vel? Ég skal endurtaka hana. Ég var að fjalla um niðurfellingu skulda á vegum Alþjóðabankans og vísaði í það að stundum hefði það verið svo og oftar en ekki hefði það verið svo þegar bæði lán eru veitt eða einhver fyrirgreiðsla af þessu tagi er veitt, niðurfelling skulda, eru sett skilyrði um kerfisbreytingar iðulega í átt til markaðsvæðingar, nokkuð sem hefur verið gagnrýnt mjög harðlega víða í þriðja heiminum og annars staðar. Ég spyr með skírskotun til þeirrar skuldaniðurfellingar sem rætt er um: Voru einhver slík skilyrði sett og ef svo er, hver voru þau?

Að lokum, herra forseti, vona ég að þó hæstv. ráðherra hafi ekki heyrt nægilega vel spurningu mína um Alþjóðabankann að hann hafi heyrt hvað ég sagði um Írak og varðstöðu Íslendinga þar og óskir mínar um að þingið fái nánari skýrslur frá hæstv. ráðherra um það málefni.