Yfirlitsskýrsla um alþjóðamál

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 17:40:12 (6596)

2000-04-13 17:40:12# 125. lþ. 101.2 fundur 612. mál: #A yfirlitsskýrsla um alþjóðamál# skýrsl, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 125. lþ.

[17:40]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég sat um tveggja ára skeið í þróunarnefnd Alþjóðabankans fyrir hönd Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna og má segja að Norðurlöndin hafi verið í forustu fyrir því að skuldir fátækustu ríkja heims yrðu minnkaðar eða felldar niður.

Þau skilyrði sem fyrst og fremst eru sett og er erfitt að setja oft og tíðum, þ.e. að um sé að ræða lýðræðislega stjórnarhætti og tryggt sé að sú hjálp sem berst þessum löndum komist í hendur réttra aðila eða verði í reynd þessum löndum til hjálpar. Því miður hefur oft komið fyrir að þessir peningar hafa með einum eða öðrum hætti lent í hendur stjórnvalda og orðið þess valdandi að margvísleg spilling hefur þrifist í þessum löndum. Það er það sem menn vilja koma í veg fyrir.

Ég tek hins vegar undir það með hv. þm. að stundum hafa skilyrði sem hafa verið sett, kannski sérstaklega af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem er dálítið annað þó að þetta séu skyldar stofnanir, orðið til þess að viðkomandi ríki hafi engan veginn ráðið við hið félagslega ástand í landinu og orðið til þess að valda upplausn. Þessi vegur er vandrataður. Hins vegar er nauðsynlegt að setja einhver þau skilyrði sem tryggja að þessi hjálp komist raunverulega í framkvæmd til þjóðarinnar sem á í hlut og til fólksins í því landi sem á í hlut en ekki til valdhafa.