Yfirlitsskýrsla um alþjóðamál

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 17:46:04 (6599)

2000-04-13 17:46:04# 125. lþ. 101.2 fundur 612. mál: #A yfirlitsskýrsla um alþjóðamál# skýrsl, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 125. lþ.

[17:46]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Mér hefur fundist tónarnir vera að breytast frá Alþjóðabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í seinni tíð en þegar betur er að gáð og stefnan skoðuð og þau skilyrði sem sett eru þá hefur mér fundist orð og athafnir ekki alltaf fara saman. Staðreyndin er sú þegar vikið er að t.d. Indónesíu voru þar sett pólitísk skilyrði að þessu leyti.

Staðreyndin er sú að þessi ríki hafa verið að taka á sig mikil lán. Og það eru oft bankar og fjölþjóðleg fjármögnunarfyrirtæki sem veita slík lán. Þegar ríkin síðan komast í þrot hafa þau gert tvennt. Þau hafa óskað eftir því að alþjóðasamfélagið hlaupi undir bagga með þeim og veiti fjármagn þeim til aðstoðar eða að alþjóðastofnanirnar knýi ríkin til að einkavæða starfsemi sína og síðan hafa þær, þ.e. alþjóðlegu bankakeðjurnar, tekið þessar eignir til sín, og þannig hafa ríkin greitt þessar skuldir. Slíkar kröfur um kerfisbreytingar og markaðsvæðingu eru því iðulega komnar frá þeim einkaaðilum sem hæstv. ráðherra segir að séu að koma til þessara landa. Því miður er þetta staðreyndin.