VES-þingið 1999

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 18:14:31 (6602)

2000-04-13 18:14:31# 125. lþ. 101.4 fundur 387. mál: #A VES-þingið 1999# skýrsl, KPál (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 125. lþ.

[18:14]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég vil fara nokkrum orðum um skýrslu þá sem dreift hefur verið um Íslandsdeild VES fyrir árið 1999 en VES-þingið kemur saman tvisvar á ári í París og fjallar um varnar- og öryggismál í Evrópu. Vestur-Evrópusambandið er varnarbandalag tíu Vestur-Evrópuríkja og var stofnað með Brussel-sáttmálanum 1948. Eftir stofnun Atlantshafsbandalagsins 1949 lá VES reyndar í nokkrum dvala en eftir 1991 hafa störf innan VES þróast mjög hratt en þá tók Ísland þátt í því starfi í fyrsta sinn.

Skipan Íslandsdeildarinnar á sl. ári var þannig að við alþingiskosningar var skipt um fulltrúa í deildinni. Hv. þm. Lára Margrét Ragnarsdóttir, Össur Skarphéðinsson og Siv Friðleifsdóttir sem voru fulltrúar Alþingis í þessari deild fram til júní eða fram yfir kosningar á síðasta ári létu þá af störfum innan deildarinnar. Við tóku sá sem hér stendur, hv. þm. Katrín Fjeldsted og Lúðvík Bergvinsson.

[18:15]

Starfsemi þingsins var hefðbundin eins og undanfarin ár. Fyrra þingið stóð frá 14.--17. júní í fyrra og sóttu þau Lára Margrét Ragnarsdóttir þann fund sem formaður deildarinnar og Lúðvík Bergvinsson sem þá var fulltrúi minni hlutans en var kandídat fyrir Samfylkinguna sem fulltrúi í Íslandsdeildinni.

Á fundinum voru ræddar margar skýrslur sem snerta starfsemi VES og Evrópu, m.a. um breyttar starfsreglur eftir að Pólland, Tékkland og Ungverjaland hlutu aukaaðild að VES í kjölfar inngöngu sinnar í NATO. VES að loknum leiðtogafundi NATO og ESB var einnig til umræðu, friðargæslu- og öryggismál í Afríku, evrópskir gervihnettir, VES sem framkvæmdaraðili að aðgerðum til þess að hafa stjórn á hættuástandi, hreyfanleiki evrópsks herafla, fjárlög VES, friðargæsla á Balkanskaga, stöðugleiki í Kosovo og álit almennings á framlagi VES til stöðugleika í Albaníu.

Mjög margir ávörpuðu þingið eins og venjulega, en þar voru þeir helstir Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, José Cutileiro, framkvæmdastjóri VES, Walther Stützle, aðstoðarvarnarmálaráðherra Þýskalands, Philip Gordon, deildarstjóri Evrópudeildar þjóðaröryggisráðs Bandaríkjanna, Günter Verheugen, aðstoðarutanríkisráðherra Þýskalands, Jacques Poos, utanríkisráðherra Lúxemborgar, og Tom Spencer, fráfarandi formaður utanríkismálanefndar Evrópuþingsins.

Seinna þingið var haldið 29. nóvember til 2. desember og það þing sóttu auk mín sem formanns Katrín Fjeldsted, varaformaður og Lúðvík Bergvinsson, auk Gústafs Adolfs Skúlasonar ritara. Þar var framtíðarskipan í öryggis- og varnarmálum Evrópusamstarfsins í brennidepli en hún var einnig á fundi til umfjöllunar hjá leiðtogum í Helsinki síðar þann mánuð. Meðal þess sem helst var rætt í þessu sambandi var staða evrópsku NATO-ríkjanna sem standa utan ESB (aukaaðildarríkja VES) annars vegar og skipan evrópsks þingmannasamstarfs á sviði öryggis- og varnarmála hins vegar. Þá var Klaus Bühler, þingmaður kristilegra demókrata í Þýskalandi, kjörinn nýr forseti VES-þingsins og tók hann við af spænska jafnaðarmanninum Lluis María de Puig um áramót.

Á þinginu voru ræddar mjög margar skýrslur að venju og þá helst þróun í átt til atvinnuhermennsku í Evrópu, evrópsks herafla, almenningsálitið, evrópsk öryggis- og varnarmál, evrópskt samstarf í vopnaframleiðslu, framtíð gervitunglamiðstöðvar VES, Kína á tímamótum, nýjustu þróun í Suðaustur-Evrópu, stöðu mála í Kosovo, o.s.frv.

Þetta þing ávörpuðu Jan-Erik Enestam, varnarmálaráðherra Finnlands, formennskuríkis ESB síðari hluta ársins 1999, José Matos da Gama, utanríkisráðherra Portúgals, formennskuríkis ESB og VES fyrri helming ársins 2000, Javier Solana, framkvæmdastjóri VES og æðsti talsmaður ESB í utanríkis- og öryggismálum, og Charles Goerens, varnarmálaráðherra Lúxemborgar, formennskuríkis VES síðari helming ársins 1999.

Ég tók þar til máls sérstaklega um framtíð evrópskra varnarmála og lýðræðislegs eftirlits. Þau mál sem hafa síðan borið helst á góma varðandi VES og ég hef aðeins rætt í þinginu eru þau mál sem snúa að framtíð VES og þeirri þróun sem á sér nú stað um framtíð þess innan stofnana Evrópu. Þar eru mjög miklar breytingar í farvatninu eins og hér hefur komið fram þó svo þau málefni hafi ekki farið mjög hátt í sölum Alþingis. Þar kemur eflaust margt til, m.a. að við erum með tvíhliða varnarsamning við Bandaríkin sem tryggir hagsmuni okkar, málefni NATO eru í eðlilegum og góðum farvegi og standa traustum fótum, þannig að öryggismál okkar eru út af fyrir sig í góðum höndum. Það er samt þó þannig að VES, eins og hefur komið fram, hefur gegnt veigamiklu hlutverki undanfarin ár í að samræma aðgerðir milli NATO Evópuríkjanna og NATO yfirstjórnarinnar um hin ýmsu mál sem snúa að vörnum og öryggi í Evrópu, einnig varðandi friðargæslu og aðgerðir sem snúa að þeim málum sem koma upp hverju sinni. VES hefur því gegnt vaxandi hlutverki sem stofnun sem hefur samræmt aðgerðir fyrir Evrópuríkin og var hugmyndin að tæki við stærra hlutverki í framtíðinni. Með Kölnarsamþykktinni í fyrra verður það svo niðurstaðan að ESB, eða Evrópusambandið, ákveður að yfirtaka þau verkefni sem Vestur-Evrópusambandið hefur hlotið eða tekið til sín og að þeir samningar verði gerðir að öll starfsemi VES verði komin yfir til Evrópusambandsins fyrir árið 2003.

Það er ekki á hverjum degi sem svo miklar breytingar verða og hvað varðar okkar Íslendinga, ef af verður að Vestur-Evrópusambandið verður endanlega lagt niður og ekkert þingmannasamband verður heldur, þá er aðkoma okkar að öryggis- og varnarmálum í Evróup engin ef við höfum einungis þá möguleika að geta haft afskipti af þessum málaflokki í gegnum NATO. Það er ekki bara Ísland sem mundi verða þar út undan, heldur öll þau Evrópuríki sem eru í NATO en ekki í Evrópusambandinu ásamt öllum öðrum aukaaðildarríkjum sem eru í Austur-Evrópu og eru ekki á leið inn í Evrópusambandið og munu ekki fara þá leið eins og Rússland, Rúmenía, Búlgaría, Úkraína, Hvíta-Rússland og mörg önnur ríki sem sótt hafa þing Vestur-Evrópusambandsins á undanförnum árum og talið það þjóna hagsmunum sínum að taka þátt í varnar- og öryggismálaumræðu á samevrópskum vettvangi.

Það hefur svo komið betur og betur fram að þjóðir Evrópu hafa virkilega miklar áhyggjur af því ef Vestur-Evrópusambandsþingið yrði lagt niður þannig að þær þjóðir sem standa utan Evrópusambandsins yrðu algjörlega einangraðar frá umræðunni. Margir innan Evrópusambandsins sjálfs eru hræddir um að það muni veikja öryggi Evrópu frekar en að styrkja það með því að einangra Evrópusambandið í eina heild um öryggismálastefnu sína en að tvístra öðrum ríkjum með því að ýta þeim frá þessum sameiginlega málaflokki og sameiginlegum hagsmunum Evrópuríkjanna.

Þessar áhyggjur hafa m.a. komið fram í því að á þingum VES hefur það verið í raun mjög sterkt í umræðunni að ekki eigi að hleypa ríkjum inn í stofnanir í VES eða inn í þing VES heldur eigi að halda þarna ,,status quo`` og ekki eigi fleiri að hafa atkvæðisrétt en þeir sem séu fullgildir aðilar, þ.e. bæði í NATO og í Evrópusambandinu.

Nú heyrast sífellt fleiri raddir innan Evrópusambandsríkjanna sem eru í VES um að nauðsynlegt sé að viðhalda þessu þingmannasambandi, þessum þingmannavinkli um Evrópumál í öryggis- og varnarlegu tilliti, með svipuðu móti og gert hefur verið í VES, en þó sjá flestir fyrir sér að slíkt fyrirkomulag yrði opið öllum Evrópuríkjum á jafnréttisgrundvelli, þ.e. bæði Evrópusambandsríkjunum og öðrum Evrópuríkjum. Þar sjá menn öryggishagsmunum Evrópu best borgið hvað varðar umræðuna og líta á það sem einn af þeim hornsteinum fyrir friði í Evrópu að Evrópuríkin hafi vettvang til að koma saman og ræða þessi mál augliti til auglitis og geta kallað til sín þá ráðamenn sem stjórna öryggis- og varnarmálum í hverju ríki fyrir sig. Í framhaldi af þeim bollaleggingum sem staðið hafa yfir núna í eitt og hálft ár hjá Vestur-Evrópusambandinu var samþykkt einróma tillaga á þingi Vestur-Evrópusambandsins sem var aukaþing og haldið í Lissabon í síðasta mánuði að mælast til þess að samþykkt yrði í öllum þjóðþingum sem eiga aðild að VES, bæði fullgildir sem aukaaðilar, að stofnað yrði öryggis- og varnarmálaþing Evrópu sem kæmi þá í staðinn fyrir þing Vestur-Evrópusambandsins. Þessi svokallaði þingmannavinkill þar sem þjóðkjörnir þingmenn koma saman sem fulltrúar þjóða sinna og ræða varnar- og öryggismál við leiðtoga hvers lands eftir því sem óskað er verði sá grunnur sem menn vilji byrja með og með því móti auka öryggi Evrópu enn meira og samráð enn meira en gert hefur verið og kannski sem aldrei fyrr. Í mínum huga er þetta þá frekar sókn til frekari öryggis innan Evrópu en að menn séu að fara hver frá öðrum eins og má kannski segja að menn hafi á tilfinningunni þegar samskiptin við Evrópusambandið hafa verið skoðuð á undanförnum mánuðum.

Reyndar er ekki hægt að segja það um öll ríki Evrópusambandsins að þau hafi verið neikvæð t.d. í garð þeirra aukaaðildarríkja sem eru í NATO en ekki í Evrópusambandinu því þau eru fjöldamörg ríkin í Evrópusambandinu sem hafa stutt t.d. mjög dyggilega við bakið á Íslendingum. Þar má nefna m.a. Breta, Þjóðverja og Dani.

[18:30]

Það er rétt að geta þess að til að halda þeirri umræðu uppi var það ákvörðun norska Stórþingsins að boða til sérstaks fundar um þessa þróun í Evrópu. Sá fundur var haldinn í febrúar og þar sendu þau ríki sem eru í VES og NATO en utan Evrópusambandsins frá sér sérstaka yfirlýsingu þar sem áhyggjum þeirra er lýst og áhuga fyrir því að þetta samstarf geti haldið áfram. Öll aðildarríkin sex þar undirrituðu, en fjögur af þessum sex ríkjum hafa þegar sótt um aðild að Evrópusambandinu og var það erfitt fyrir sum þeirra að taka þátt í slíkri yfirlýsingu en þau gerðu það samt vegna þess að mönnum er ekki sama hvernig þessi mál þróast.

Þess vegna er þetta komið svo langt sem raun ber vitni. Ég geri ráð fyrir að allir fulltrúar þjóðþinga séu um þessar mundir að kynna þessar hugmyndir fyrir þjóðþingum sínum og fá staðfestingu fyrir því að bæði þjóðþingin og ráðherrar ríkjanna lýsi yfir stuðningi við þessa breytingu. Ég fagna því að hæstv. utanrrh. lýsti því yfir áðan í umræðunni að hann styddi það að stofnað yrði sérstakt varnar- og öryggismálaþing Evrópu og að hann og utanrrn. mundi í störfum sínum koma því á framfæri þar sem kostur væri. Það er afskaplega mikilvægt fyrir okkur að utanrrn. með því ágæta starfsliði sem þar er og sendiherrum um allan hinn evrópska heim komi þeim skilaboðum á framfæri við ráðamenn að þeir styðji varnar- og öryggismálaþing Evrópu og muni taka þátt í því með fullum þunga þegar þar að kemur.

Af hálfu Íslendinga er því ekkert að vanbúnaði að huga að næstu skrefum í að þessi stofnun geti orðið að veruleika. Slíkt þing mundi verða staðsett í París eins og nú er og það mundi þá fyrst og fremst starfa tvisvar á ári sem umræðugrundvöllur. Flest þau ríki sem eiga aðild að VES í dag verða að breyta samþykktum sem þau hafa undirritað gagnvart VES og samþykkja að þær skuldbindingar gangi sjálfkrafa yfir til nýs þings Evrópu um varnar- og öryggismál. Meðal annars þarf Evrópusambandið að samþykkja að þeir menn sem fara með þennan málaflokk í Evrópusambandinu gefi skýrslur til þings Evrópu um varnar- og öryggismál og að því leyti til getur komið til kasta Alþingis að breyta ákvæðum sem snúa að aðild okkar að VES eins og það er í dag og yfirfæra það yfir á nýja þingið um varnar- og öryggismál Evrópu.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þetta. Mér finnst að hér hafi komið fram mjög jákvæð svör sem gefa tilefni til þess að ætla að við munum halda áfram starfi sem er merkilegt. Samskipti okkar við Evrópu á þessu sviði eru mjög nauðsynleg. Við erum sífellt að reyna að hanga í því að detta ekki frá Evrópusambandinu með því að vera inni í EES-samningnum og með Schengen-sáttmálanum höfum við reynt það eftir fremsta megni. Síðan höfum við tekið þátt í VES-samstarfinu og þá höfum við í rauninni átt kost á því að taka þátt í nánast flestu því sem varðar sameiginleg umræðumál Evrópuríkja og höfum getað fylgst mjög náið með því. Það ber því sérstaklega að geta þess hversu mikilvægt það er að þessi liður gleymist ekki og að Alþingi Íslendinga gleymi því ekki að þarna erum við að tala um mjög merkilegt mál.

Ég vil að lokum, herra forseti, leyfa mér að þakka félögum mínum, hv. þm. Katrínu Fjeldsted og hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni, fyrir ötult starf og samvinnu við það sem hingað til hefur farið fram innan VES og í þeirri vinnu sem fram undan er. Ég vil einnig leyfa mér að þakka Gústaf Adolfi Skúlasyni, ritara nefndarinnar, fyrir mjög góða vinnu og lipra framkomu en hann hefur sérhæft sig sérstaklega í samskiptum um varnarmál og er ég afskaplega ánægður með störf hans. Belinda Theriault og starfsmenn alþjóðasviðs Alþingis er afskaplega hjálpsamt og duglegt fólk sem hafa reynst okkur í Íslandsdeildinni mjög vel og leyst úr hvers manns vanda og vil ég færa þeim hinar bestu þakkir fyrir störf þeirra í þágu okkar.