ÖSE-þingið 1999

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 18:48:44 (6606)

2000-04-13 18:48:44# 125. lþ. 101.5 fundur 413. mál: #A ÖSE-þingið 1999# skýrsl, PHB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 125. lþ.

[18:48]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum hér skýrslu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins fyrir árið 1999. ÖSE-þingið er samstarfsvettvangur 317 þingmanna frá 55 ríkjum sem ná vestan frá Bandaríkjunum og Kanada í vestri og allt að Rússlandi, Kirgisistan og Tadsjikistan í austri. Markmið ÖSE er að stuðla að friði, öryggi og samvinnu ríkja í Evrópu og standa vörð um virðingu fyrir mannréttindum íbúa álfunnar. Mjög snemma var ákveðið að kalla til þing þingmanna frá ríkjum ÖSE, sem áður hét RÖSE, og við Íslendingar tökum þátt í því.

Á þingi þar sem þingmenn frá þessum mörgu mismunandi ríkjum hittast er mjög mikilvægt að það takist að breiða út lýðræðishugsun, þingræðishefð og sérstaklega virðingu fyrir mannréttindum til þeirra ríkja sem risið hafa á rústum Sovétríkjanna gömlu þar sem þessi hugtök eru nánast óþekkt: lýðræði, mannréttindi og þingræði. Til þess er ÖSE-þingið mjög góður vettvangur.

Þegar ég fór fyrst á þessi þing 1995 þá þótti mér þetta dálítið innihalds- og tilgangslaus samkunda en segja má að þegar ÖSE tók að sér framkvæmd Dayton-samkomulagsins í Bosníu-Hersegóvínu, og eins þegar það hefur tekið virkan þátt í framkvæmd stöðugleikasáttmála fyrir Suðaustur-Evrópu sem tók gildi í júní sl., þá hafi ÖSE öðlast hærri sess og tilgang. Það er orðið virkara sem slíkt.

Af öðrum verkefnum sem ÖSE sinnir ber kosningaeftirlitið mjög hátt. Eins er mikið rætt um sameiginlegt öryggi og lýðræði á 21. öld en það var þema síðasta ársfundar sem haldinn var í St. Pétursborg.

Helsta málefni fundar stjórnarnefndarinnar sem hittist tvisvar á ári var umfangsmikið eftirlit sem ÖSE hafði þá með stríðandi fylkingum í Kosovohéraði, en sem kunnugt er var vopnahlé þar ekki virt. Enn fremur var rætt um ástand mála í Bosníu-Hersegóvínu, í Hvíta-Rússlandi, Tsjetsjeníu og Nagorno-Karabakh. Svo var rætt um stöðu minnihlutahópa víðs vegar um álfuna, en allt eru þetta gamalkunnug vandamál. Síðan koma alltaf upp öðru hvoru vandamál með Kýpur-deiluna og vandamál sem uppi eru í Tyrklandi.

Herra forseti. Á fundi stjórnarnefndar í janúar fyrir ári síðan kom finnski þingmaðurinn Kimmo Kiljunen upp með skemmtilega hugmynd, þ.e. að snúa við því starfi sem sinnt hefur verið í kosningaeftirliti og bjóða fulltrúum þessara nýju lýðræðisþjóða í Mið- og Austur-Evrópu til að fylgjast með framkvæmd þingkosninga og bæjarstjórnarkosninga í Vestur-Evrópu. Þeir mundu læra af því og hugsanlega mætti koma á framfæri athugasemdum um framkvæmd þeirra kosninga. Það vill svo til að í mars 1999 var skipulögð för slíkrar sendinefndar frá Kákasus-ríkjum til að fylgjast með framkvæmd þingkosninga í Finnlandi.

Áttundi ársfundur ÖSE-þignsins var haldinn í St. Pétursborg, eins og áður er getið, í júlí sl. Frá Íslandi fóru hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir, sem er varaformaður Íslandsdeildarinnar, og hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir auk mín. Þema þingsins var sameiginlegt öryggi og lýðræði á 21. öld. Það þema var rætt í þremur nefndum þingsins, nefnd um stjórnmál og öryggismál, sem ég tók þátt í, nefnd um efnahags-, vísindi, tækni og umhverfismál, sem hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir tók þátt í og nefnd um lýðræði og mannréttindamál sem hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir tók þátt í.

Þegar þetta þema hafði verið rætt í nefndum voru sett saman ályktunardrög sem steypt var saman í eina yfirlýsingu, St. Pétursborgar-yfirlýsinguna sem samþykkt var af þingfundinum. Auk þess voru sérstakar ályktanir um eftirfarandi málefni: Stöðu mála í Kosovo; aukið lýðræði innan ÖSE, hvernig þingmenn hefðu meiri áhrif á starf ÖSE; hlutverk ÖSE við að koma í veg fyrir að átök brjótist út, þ.e. að vera fyrirbyggjandi og hafa stjórn á hættuástandi. Þá var ályktað um verslun með börn og konur sem neydd eru til að stunda vændi. Einnig var ályktað um morðið á rússnesku þingkonunni Galinu Starovoitovu, sem var dálítið merkilegt því að þar voru gagnrýnd mannréttindi í gestalandinu, þar sem þingið var haldið. Ályktað var um þróun réttarríkis og mannréttinda í Rússlandi og þá var ályktun um stjórnmálaástandið í Hvíta-Rússlandi.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra, skýrslan liggur fyrir á þskj. 674. En ég vil þakka meðnefndarmönnum mínum fyrir gott starf og einnig ritara nefndarinnar, Gústaf Adolfi Skúlasyni, fyrir ágætt starf og mikla hjálp.