Fríverslunarsamtök Evrópu 1999

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 18:56:38 (6607)

2000-04-13 18:56:38# 125. lþ. 101.6 fundur 414. mál: #A Fríverslunarsamtök Evrópu 1999# skýrsl, KHG
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 125. lþ.

[18:56]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil með nokkrum orðum mæla fyrir þeirri skýrslu sem liggur hér fyrir á þskj. 675 og greinir frá starfi Íslandsdeildar þingmannadeildarnefndar EFTA á síðasta ári.

Ég vil fyrst gera örlitla grein fyrir þingmannanefndinni. Þingmannanefnd EFTA var stofnuð árið 1977 og hafði það hlutverk að vera ráðgefandi fyrir ráðherraráð EFTA. Umsvif og starfsemi nefndarinnar urðu meiri þegar samningar hófust um Evrópska efnahagssvæðið árið 1989 og mikilvægi hennar jókst enn þegar EES-samningurinn tók gildi 1. janúar 1994, en fulltrúar úr henni skipa EFTA-hluta sameiginlegu þingmannanefndar EES. Aðild að EFTA eiga nú Ísland, Liechtenstein, Noregur og Sviss og sitja þjóðkjörnir fulltrúar þessara ríkja í þingmannanefndinni. Þar sem Svisslendingar eru ekki aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu varð þingmannanefndin með gildistöku EES-samningsins að formi til tvískipt, þ.e. annars vegar upphaflega nefndin, nú með fjórum fyrrgreindum aðildarríkjum, og hins vegar nefnd ríkjanna þriggja sem mynda EFTA-hluta EES.

Þingmannanefnd EFTA heldur fundi fjórum til fimm sinnum á ári, en fundar jafnframt tvisvar á ári með ráðherraráði EFTA. Nefndin fjallar um starfsemi EFTA, gerð og framkvæmd fríverslunarsamninga, málefni EES og Evrópusambandsins og efnahags- og viðskiptamál almennt. Alþingi á fimm fulltrúa í þingmannanefnd EFTA eins og önnur aðildarríki. Þingmannanefnd EFTA á einnig samstarf við ríki sem EFTA hefur gert fríverslunar- eða samstarfssamninga við, t.d. ríki á Miðjarðarhafssvæðinu og í Mið- og Austur-Evrópu. Þessi þáttur í starfi EFTA eykst stöðugt og eru fríverslunarsamningar við fleiri lönd og svæði í bígerð. Má þar helst nefna samning sem væntanlegur er við Kanada á næstu vikum en að þeirri samningsgerð hefur verið unnið um nokkurt skeið.

Íslandsdeildin er skipuð fimm þingmönnum eins og fyrr greinir en þar sem alþingiskosningar fóru fram á síðasta ári urðu mannaskipti eftir kosningar. Á fyrri hluta ársins sátu í nefndinni Vilhjálmur Egilsson, formaður, Gunnlaugur M. Sigmundsson, varaformaður, Árni M. Mathiesen, Sighvatur Björgvinsson og Hjörleifur Guttormsson. Auk þess átti Svavar Gestsson sæti sem áheyrnarfulltrúi til 6. mars á síðasta ári er hann lét af þingmennsku. Eftir kosningar var kjörin ný Íslandsdeild eins og fyrr greinir og skipa hana: Vilhjálmur Egilsson formaður, þingflokki sjálfstæðismanna, Kristinn H. Gunnarsson varaformaður, þingflokki framsóknarmanna, Össur Skarphéðinsson, þingflokki jafnaðarmanna, frá 19. febrúar þingflokki Samfylkingarinnar, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, þingflokki sjálfstæðismanna, og Ögmundur Jónasson, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Varamenn eru Gunnar Birgisson, þingflokki sjálfstæðismanna, Bryndís Hlöðversdóttir, þingflokki Alþýðubandalagsins, frá 19. febrúar þingflokki Samfylkingar, Katrín Fjeldsted, þingflokki sjálfstæðismanna, Jón Kristjánsson, þingflokki framsóknarmanna, og Kolbrún Halldórsdóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs.

[19:00]

Megináherslan í starfi nefndanna, þ.e. þingmannanefnda EFTA og EES, undanfarin ár hefur að jafnaði verið að fylgjast sem best með framkvæmd EES-samningsins. Nefndirnar leita upplýsinga frá ráðherraráði EFTA og EES og embættismönnum stofnana EFTA og Evrópusambandsins og koma skoðunum og áherslun þingmanna á framfæri við þessa aðila. Á síðasta ári fylgdist þingmannanefnd EFTA grannt með framgangi nýgerðra tvíhliða samninga Sviss og Evrópusambandsins og ræddi sérstaklega áhrif þeirra á EFTA-samstarfið og þær breytingar sem gera þyrfti á Stokkhólmssáttmálanum til þess að EFTA/EES-ríkin væru ekkert í lakari stöðu gagnvart Sviss en aðildarríki ESB.

Nefndin ræddi einnig um ákvarðanir er varða fríverslunarsamning EFTA við ýmis ríki. Þingmannanefndirnar fylgdust einnig grannt með samningaviðræðum um áframhald þróunarsjóðs EFTA og þeim áhrifum sem málið hafði á EES-samstarfið. Sex skýrslur voru teknar til umfjöllunar á fundum þingmannanefndar EES á árinu og samþykktar voru ályktanir á grundvelli þeirra. Skýrslurnar sem voru ræddar fjölluðu um ársskýrslu sameiginlegu EES-nefndarinnar fyrir 1998, einsleitni innan EES, neytendamál innan EES, stækkun Evrópusambandsins og áhrif hennar á Evrópska efnahagssvæðið, öryggi matvæla innan Evrópska efnahagssvæðisins og starf þingmannanefndar EES síðustu fimm ár.

Loks ber að geta funda sem Íslandsdeildin átti á árinu með fulltrúum þjóðþinga þeirra ríkja sem næst tóku við forsæti í ráðherraráði Evrópusambandsins. Nefndin fundaði með fulltrúum Evrópunefndar finnska þingsins í Helsinki 3. júní en Finnland sat í forsæti ESB á síðari hluta síðasta árs. Auk þess hélt nefndin fund með fulltrúum Evrópunefndar portúgalska þingsins í Lissabon 3. desember sl. en Portúgal tók við forsæti í ráðherraráðinu nú í ársbyrjun.

Þá er í þeirri skýrslu sem ég mæli fyrir í ítarlegu máli gerð grein fyrir þeim fundum sem þingmannanefndin sótti á árinu og geta þeir sem áhuga hafa kynnt sér það í þeirri skýrslu sem hér er til umræðu.

Ég vil, herra forseti, láta þetta duga sem almenna innleiðingu af minni hálfu og greinargerð um skýrsluna. Ég vænti þess að menn séu nokkru fróðari um starf nefndarinnar eftir en áður.