Yrkisréttur

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 19:31:36 (6610)

2000-04-13 19:31:36# 125. lþ. 101.9 fundur 527. mál: #A yrkisréttur# frv. 58/2000, utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 125. lþ.

[19:31]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um yrkisrétt fyrir hönd landbrh., Guðna Ágústssonar, sem er eins og kunnugt er sjúkur um þessar mundir, þótt hann sé nú á góðum batavegi sem betur fer.

Með aðild að samningnum um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar skuldbinda Íslendingar sig til að lögfesta reglur um vernd hugverka á sviði plöntukynbóta. Þetta frv. er til komið vegna þessara skuldbindinga.

Með frv. þessu er lagt til að hér á landi verði lögfestur möguleiki á vernd á hugverkarétti í plöntukynbótum sem nefndur hefur verið yrkisréttur. Frv. er samið með tilliti til þess að það samræmist alþjóðlegum samningi um vernd nýrra yrkja, svokölluðum UPOV-samningnum, og höfð er hliðsjón af framkvæmd hans í nágrannalöndunum.

Herra forseti. Þetta mál skýrist sig að mestu leyti sjálft og ég vænti þess að nánari upplýsingar geti komið fram um það við meðferð þess í nefnd og sé því ekki ástæðu til þess að gera frekari grein fyrir því við 1. umr. (Gripið fram í: Það er samt fróðlegt.) Það er afar fróðlegt, það er rétt, og ég tel það ekkert eftir mér, en ég veit ekki hvort það er jafnskemmtilegt en það er nú svo með ýmis mál á hv. Alþingi að við verðum margt að þola í þeim efnum. En ég ætla ekki að leggja það á hv. þm. og legg til að að lokinni umræðunni verði frv. vísað til 2. umr. og hv. landbn. sem ég veit að muni fjalla vel og ítarlega um það.