Umhverfismengun af völdum einnota umbúða

Miðvikudaginn 26. apríl 2000, kl. 10:42:06 (6617)

2000-04-26 10:42:06# 125. lþ. 102.13 fundur 176. mál: #A umhverfismengun af völdum einnota umbúða# (umsýsluþóknun) frv. 26/2000, Frsm. KPál
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 125. lþ.

[10:42]

Frsm. umhvn. (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir um nál. umhvn. um frv. til laga um breytingu á lögum um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, nr. 52 29. maí 1989, sbr. lög nr. 47 16. maí 1990.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þórð H. Ólafsson og Sigríði Arnardóttur frá umhvrn., Andra Ottesen frá fjmrn. og fleiri.

Í frv. er lögð til endurskoðun á ákvæðum laga um umsýsluþóknun sem lögð er á einnota umbúðir undir drykkjarvörur. Jafnframt eru lagðar til breytingar sem fela það í sér að hver umbúðategund beri þann umsýslukostnað sem af henni hlýst og hærri umsýsluþóknun verði lögð á óhagkvæmar umbúðir. Að mati nefndarinnar var orðið tímabært að endurskoða fjárhæðir umsýsluþóknunar hjá Endurvinnslunni og telur hún mikilvægt að rekstrargrundvöllur hennar sé tryggður enda um mikið þjóðþrifafyrirtæki að ræða.

Nefndin leggur til að gerðar verði breytingar á frv. Í 1. gr. frv., sem breytir 1. mgr. 1. gr. laganna, er umhvrh. heimilað að hækka hámarksfjárhæð umbúðaeiningar í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs frá síðustu hækkun gjaldsins. Með ákvæðinu er ráðherra framseld heimild til að hækka gjaldið en samkvæmt stjórnarskránni verður að kveða skýrt á um skilyrði skattlagninga í lögum. Leggur nefndin til að ráðherra verði gert skylt að hækka hámarksfjárhæðina í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs þannig að skylda komi í stað heimildar.

Nefndin skoðaði málið með fulltrúum Endurvinnslunnar og fulltrúum fjmrn. og umhvrn. og leggur til að gerðar verði breytingar á fjárhæð í frv. eins og fram kemur í nál.

Við meðferð málsins ákvað nefndin að kanna leiðir til að taka upp skilagjald á drykkjarfernur og kallaði til viðræðna um það mál aðila frá Hagstofu Íslands og Sorpu. Að sögn forustumanna Sorpu er ekkert því til fyrirstöðu að bæta þessum umbúðategundum við þær sem þegar eru háðar skilagjaldi. Hvað varðar móttöku og endurvinnslu á drykkjarfernum gegn skilagjaldi er því tæknilega fært að taka við pappafernum og sjá um greiðslu skilagjalds. Telur nefndin að það mundi auka skil stórlega að taka upp skilagjald á drykkjarfernur. Mat fulltrúa Hagstofunnar var hins vegar að álagning skilagjalds á þessar vörur nú yrði til þess að hækka verð þeirra og að öllum líkindum hafa áhrif til hækkunar á vísitölu.

[10:45]

Nefndin telur sér því ekki fært að leggja fram tillögur í þessa veru að sinni en beinir því til umhverfisráðuneytis að fundnar verði leiðir til að taka upp skilagjald á drykkjarfernur án þess að það valdi hækkun á vísitölu, líkt og er með skilagjald af gosumbúðum. Þá er hvatt til þess að samhengi vísitölu og skilagjalds verði kannað með tilliti til þess að skilagjald verði tekið upp á fleiri tegundir af endurnýtanlegu efni, t.d. pappa og bíldekk.

Herra forseti. Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Undir þetta rita frsm. sem hér stendur og hv. þm. Katrín Fjeldsted, Ásta Möller, Vigdís Hauksdóttir, Kolbrún Halldórsdóttur og Össur Skarphéðinsson með fyrirvara. Hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir, Ísólfur Gylfi Pálmason og Gunnar Birgisson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.