Bann við uppsögnum vegna fjölskylduábyrgðar starfsmanna

Miðvikudaginn 26. apríl 2000, kl. 10:47:58 (6618)

2000-04-26 10:47:58# 125. lþ. 102.14 fundur 241. mál: #A bann við uppsögnum vegna fjölskylduábyrgðar starfsmanna# frv. 27/2000, Frsm. ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 125. lþ.

[10:47]

Frsm. félmn. (Arnbjörg Sveinsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 1002 í 241. máli. Þetta er frv. til laga um bann við uppsögnum vegna fjölskylduábyrgðar starfsmanna.

Nefndin fékk á fund sinn Berglindi Ásgeirsdóttur og Elínu Blöndal frá félmrn. Þá hafa umsagnir borist um málið frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Jafnréttisráði, fjölskylduráði, karlanefnd Jafnréttisráðs, Félagi einstæðra foreldra og Bandalagi háskólamanna.

Frv. er lagt fram í þeim tilgangi að laga íslenska löggjöf að samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, ILO, nr. 156, um jafna möguleika og jafnrétti til handa konum og körlum í atvinnu: Starfsfólk með fjölskylduábyrgð. Nauðsynlegt er að fá ákvæði um bann við uppsögnum eingöngu vegna fjölskylduábyrgðar inn í íslenskan rétt svo að unnt verði að fullgilda samþykktina, sem er frá árinu 1981, og fullnægja skyldum Íslands samkvæmt henni. Í íslenskum lögum er að finna örfáar undantekningar frá þeirri meginreglu vinnuréttar að atvinnurekandi þurfi ekki að tilgreina ástæður uppsagnar en þær eru í 11. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, í 7. gr. laga nr. 57/1987, um fæðingarorlof, og í 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 28/1991, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Verði ákvæði frumvarpsins að lögum er þar með komin ein undantekning til viðbótar frá meginreglunni sem fyrr var getið.

Við umfjöllun málsins komu nefndarmenn með fjölmargar athugasemdir um ýmis hugtök og skilgreiningar í frv. á borð við uppsögn, náin skyldmenni og búsetu á heimili. Nefndin leggur áherslu á að með frv. breytist ekki á nokkurn hátt hvað felst í hugtakinu uppsögn. Frv. tryggir ekki að launþegi fái greidd laun í fjarveru frá starfi vegna fjölskylduábyrgðar. Um kaup og kjör gilda samningar á almennum vinnumarkaði og um laun í fjarveru frá starfi fer eftir kjarasamningum viðkomandi starfsmanns, en nauðsynlegt er að skilja að rétt til launa annars vegar og rétt til að halda starfi hins vegar.

Töluverðar umræður urðu einnig í nefndinni um hverjir teldust náin skyldmenni og hvort sanngjarnt væri að takmarka fjölskylduábyrgð starfsmanns við ósjálfráða börn hans. Nefndin lítur svo á að eftir 18 ára aldur verði afkomendur starfsmanns hvort eð er skilgreindir sem náin skyldmenni hans en ekki börn í skilningi frv. Því mundi starfsmaður sem væri frá vinnu vegna skyldna sem hann bæri gagnvart fötluðu uppkomnu barni sínu til dæmis falla undir ákvæði frv. Þó telur nefndin rétt að taka af öll tvímæli um þetta með því að fella brott orðið ,,ósjálfráða`` í 2. mgr. 1. gr. og er brtt. gerð um það. Jafnframt telur nefndin að með maka sé átt við sambúðarmaka jafnt sem eiginmann eða eiginkonu. Fram kom við meðferð málsins að hugtakið náið skyldmenni er í raun skilgreint út frá búsetu. Þarna gæti til dæmis verið átt við fjarskylda aldraða frænku sem byggi á heimili starfsmanns. Það verður að teljast nánast ógerlegt að skilgreina í lögum hverjir teljist vera náin skyldmenni þar sem fjölskyldubönd manna eru misjöfn. Hvað varðar skilyrðið um að barn, maki eða náið skyldmenni verði að búa á heimili starfsmanns telur nefndin að ekki sé hægt að skýra það of þröngt og lítur svo á að hér hljóti að vera átt við þá sem búa eða hafa að jafnaði haft búsetu á heimili starfsmanns. Þannig sé til dæmis ekki hægt að segja manni upp störfum vegna þess að hann sé frá vinnu vegna skyldna gagnvart nánum ættingja sem liggur á sjúkrahúsi eða fötluðu barni sem vistað er á sérstöku heimili. Nefndin velti því einnig fyrir sér hvaða önnur tilvik en veikindi og fötlun gætu komið til greina við beitingu ákvæðisins og lítur svo á að það verði að skýra þröngt þannig að um sé að ræða tilvik sem jafnað verði til veikinda eða fötlunar.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeirri breytingu að orðið ,,ósjálfráða`` í 2. mgr. falli brott.

Undir þetta nál. skrifa auk þeirrar sem hér stendur hv. þm. Drífa Hjartardóttir, Pétur H. Blöndal, Jónína Bjartmarz, Guðrún Ögmundsdóttir, Kristján L. Möller, Vigdís Hauksdóttir og Steingrímur J. Sigfússon.