Bann við uppsögnum vegna fjölskylduábyrgðar starfsmanna

Miðvikudaginn 26. apríl 2000, kl. 11:11:59 (6623)

2000-04-26 11:11:59# 125. lþ. 102.14 fundur 241. mál: #A bann við uppsögnum vegna fjölskylduábyrgðar starfsmanna# frv. 27/2000, PHB
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 125. lþ.

[11:11]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum hér frv. um bann við uppsögnum vegna fjölskylduábyrgðar starfsmanna. Þetta er að sjálfsögðu eitt af þessum góðu málum sem allir vildu koma í gegn þar til kemur að því að ákveða hver eigi að borga. Hér er verið að setja álögur á fyrirtækin og þær álögur geta orðið það miklar að þær leiði til atvinnuleysis og minni getu fyrirtækja til að greiða laun. Þetta sjáum við t.d. á Evrópska efnahagssvæðinu þar sem 10% atvinnuleysi hefur verið viðvarandi í áratugi, nokkuð sem ég mundi telja algjörlega óviðunandi stöðu. En það er gert með því að hlaða svo miklum pinklum á atvinnulífið og gera vinnuna svo dýra að fyrirtækin hafi ekki efni á að ráða það fólk sem er atvinnulaust.

Þeim sem kvarta undan því að laun séu lág --- menn hafa flutt hér frv. um lágmarkslaun --- og kvarta undan því að félagsleg réttindi séu bágborin er náttúrlega í lófa lagið að stofna fyrirtæki, borga há laun og veita góð félagsleg réttindi ef það er svona voðalega auðvelt. En það er bara ekki svo voðalega auðvelt.

Það er ekki auðvelt að reka kannski þriggja eða fjögurra manna fyrirtæki sem berst í bökkum. Svo verður einn starfsmaðurinn frá í lengri tíma vegna fjölskylduábyrgðar eða annars. Þetta kemur að sjálfsögðu illa niður á þessum litlu fyrirtækjum sem eru meginuppistaðan í íslensku atvinnulífi. Það kemur jafnframt niður á launþegum hjá þessum fyrirtækjum. Ef þessi fyrirtæki geta ekki staðið sig og leggja upp laupana þá verður atvinnuleysi. Þetta er sá fíni línudans sem við þurfum að stíga í þessu máli sem öðrum: Hvað á að leggja mikið á fyrirtækin?

Ráðning starfsmanns er gagnkvæmur samningur og enginn hefur talað um að starfsmaðurinn getur sagt upp fyrirvaralaust, hversu óhagkvæmt það er fyrir fyrirtækið. Það tíðkast meira að segja að menn hreinlega labbi út og valdi fyrirtækjunum óskaplegum vandræðum. Þetta hefur ekki verið rætt, sérstaklega í stöðu eins og núna þar sem mikið framboð er á vinnu og lítið sem ekkert atvinnuleysi. Þá hefur þetta snúist við. Nú er launþeginn sterki aðilinn en ekki fyrirtækið. Fyrirtækin verða sum hver mjög illa fyrir barðinu á því að gera samning um ákveðin verk þegar starfsmennirnir segja síðan upp hver á fætur öðrum af því að þeim eru boðin hærri laun annars staðar.

[11:15]

Þetta er því ekki bara barátta Davíðs við Golíat heldur getur það snúist við þannig að Golíat eigi í vök að verjast. En yfirleitt eru fyrirtækin í sterkari stöðu og þess vegna setja menn upp svona félagslegt net fyrir launþegana. Það á sérstaklega við þegar atvinnuleysi er mikið og við vonum að ekki komi til þess og að ríkisstjórnin beri gæfu til að halda áfram á þeirri braut að halda niðri atvinnuleysinu sem er mjög mikilvægt.

Eins og oft vill verða um góð mál sem á að fá í gegn er þetta frv. mjög loðið. Það er svo loðið að það má nánast lesa út úr því hvað sem er. Óheimilt er að segja manni upp störfum. Hvað þýðir það? Ráðningarsamningur byggir á því að annar aðilinn lofar að vinna og sinna einhverju starfi og hinn aðilinn lofar að greiða honum laun í staðinn. Hvað gerist ef löggjafinn kemur inn í þetta og segir að þessi ráðningarsamningur eigi að vera í gildi en annar aðilinn þurfi ekki að vinna? Ber þá að greiða honum laun? Þá er bara spurningin hvernig ráðningarsamningurinn er orðaður og hvernig skilning menn leggja í þetta.

Reyndar er tekið fram í nál. hv. félmn. að það leiði ekki af sjálfu sér að það eigi að greiða laun þann tíma sem maðurinn er frá vinnu. En það er ekkert einfalt. Ef fyrirtækin ættu að fara að borga laun þann tíma sem fólk er frá vegna fjölskylduábyrgðar erum við að tala um verulega mikil útgjöld fyrir fyrirtækið sem kemur þá væntanlega niður á getu þess til að borga öðrum starfsmönnum góð laun.

Síðan stendur þarna ,,náin skyldmenni`` án þess að segja nokkuð meira um hvað það er. Er það í fimmta lið eða er það í þriðja lið eða eru það bara afkomendur? Ekkert orð um það. Þarna stendur ,,sem búa á heimili hans``. Hversu lengi hafa þau búið á heimili hans? Er nóg að hann taki einhverja gamla, veika, fjarskylda frænku heim til sín og þá sé hún orðin náið skyldmenni sem búi á heimili hans og þessi starfsmaður geti verið frá?

Einnig hefur verið bent á það að þetta er kannski of þröngt þegar t.d. foreldrar flytja á elliheimili og búa ekki lengur á heimili manns. Þá þyrfti hugsanlega að víkka þetta út með sömu rökum. Þetta er því bæði of þröngt og of vítt.

Svo er spurningin ,,sem greinilega þarfnast umönnunar hans``. Hvað með aðra ættingja? Nú er það þannig að umönnun lendir yfirleitt alltaf á konum. Hvað er með karlmenn? T.d. ef tvö systkini, bróðir og systir sem eru að annast gamla móður, hvort þeirra á að sinna því? Ég er nærri viss um að í um 90% tilfella, kannski meira, er það konan sem sér um það og þetta kemur niður á konum. Þetta gæti því haft sömu áhrif og fæðingarorlofið hefur haft á laun kvenna, að það lækkar laun kvenna. Nánast allir eru sammála um það að ef fyrirtæki veit að konur geta verið frá vegna fjölskylduábyrgðar og þær muni gera það frekar en karlar ráða þau frekar karlmenn eða jafnvel borga þeim hærri laun.

Svona getur oft gerst þegar menn ætla að grípa inn í atvinnulífið með einhverjum slíkum beinum hætti þannig að þetta getur slegið til baka í jafnrétti karla og kvenna.

Herra forseti. Fyrirtæki eru farin að líta á starfsmennina sem megineign sína nú til dags, starfsmennirnir eru meginuppistaða fyrirtækisins. Það er mjög mikilvægt í starfsmannastefnu hvernig til tekst að byggja upp ákveðna samkennd meðal starfsmanna. Eitt af því er m.a. að líta til fjölskyldu starfsmannanna. Þetta eru fyrirtæki í auknum mæli að gera og sum hver hafa alltaf gert þetta. Ef einhver stríðir við einhver bágindi heima við hafa atvinnurekendur margir hverjir séð til hliðar við það þó að menn bregði sér öðru hverju heim eða séu jafnvel heima langdvölum og borga jafnvel laun á meðan. Þetta hafa menn gert vegna þess að þeir eru að gefa öðrum starfsmönnum merki um að svona muni þeir bregðast við gagnvart þeim ef þeir lenda í slíkum vandræðum.

Fyrir mörg fyrirtæki er þessi lagasetning því engin breyting en hún er kannski að þvinga önnur fyrirtæki til að taka upp slíka stefnu sem þau ættu að gera af sjálfu sér.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta en tel að hér sé á margan hátt nauðsynlegt frv. í gangi en menn þurfa að átta sig á því hvaða álögur það leggur á atvinnulífið. Einnig þyrfti að skilgreina nánar hvað er átt við með náin skyldmenni, hvað er átt við með því að búa á heimili og hvað er átt við að þarfnast umönnunar. Einnig þyrfti að athuga hvort ekki sé hægt að gera kröfu til að önnur ættmenni sem standa hinum sjúka jafnnærri komi líka inn í dæmið en ekki bara einhver af einhverri tilviljun eða jafnvel vegna fordóma um að konur eigi að sinna ættingjum sínum því að þá lendi það á konum að annast hinn sjúka.

Ég lagði því til að það hefði staðið þarna, en það var ekki fallist á það í hv. félmn., ,,sem greinilega þarfnast umönnunar hans og stendur honum næst`` þannig að það væri hægt að skikka bróður eða son til þess að annast hinn sjúka ekki síður en dóttur eða systur.