Bann við uppsögnum vegna fjölskylduábyrgðar starfsmanna

Miðvikudaginn 26. apríl 2000, kl. 11:22:05 (6624)

2000-04-26 11:22:05# 125. lþ. 102.14 fundur 241. mál: #A bann við uppsögnum vegna fjölskylduábyrgðar starfsmanna# frv. 27/2000, GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 125. lþ.

[11:22]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fjalla um það frv. sem hér er til umræðu. Það eru margir góðir hlutir sem þar eru og eiga sér stað en það er aðeins út af orðum hv. þm. Péturs Blöndals um greiðslu lágmarkslauna en sá sem hér stendur hefur flutt frv. um að lágmarkslaun skuli vera 112 þúsund. Ég get fyllilega staðið við það og þau orð en ekki að sá sem slíkt frv. flytji eða þeir sem tali svona ættu sjálfir að stofna fyrirtæki. Það hafa þó margir gert og m.a. sá sem hér talar og hann greiddi langt umfram lágmarkslaun þegar hann sinnti þeim störfum.

Herra forseti. Sá sem getur ekki greitt mannsæmandi laun, laun á bilinu 95--115 þús. kr. á mánuði, á ekki tilverurétt í fyrirtækjarekstri. Það er svo einfalt. Þeir aðilar munu hrökklast út af vinnumarkaði sem geta ekki tekið þátt í því að greiða laun sem gætu talist mannsæmandi.

Skoðanir mínar og skoðanir hv. sjálfstæðisþingmanns Péturs Blöndals, stangast mjög alvarlega á. Ég vil taka það sérstaklega fram að ég tel að einstaklingur sem hefur undir 100 þús. kr. í brúttólaun til framfærslu eigi í miklum örðugleikum og það er um þetta sem ég hef rætt í öllum þeim ræðum sem ég hef flutt um lágmarkslaun og stöðu öryrkja og aldraðra. Í dag tel ég að það eigi að miða við á bilinu milli 90 og 100 þús. kr. sem algjört lágmark til framfærslu einstaklings.