Bann við uppsögnum vegna fjölskylduábyrgðar starfsmanna

Miðvikudaginn 26. apríl 2000, kl. 11:24:04 (6625)

2000-04-26 11:24:04# 125. lþ. 102.14 fundur 241. mál: #A bann við uppsögnum vegna fjölskylduábyrgðar starfsmanna# frv. 27/2000, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 125. lþ.

[11:24]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Sumt fólk er atvinnurekendur, annað fólk er launþegar. Þeir sem eru atvinnurekendur hafa kosið að stofna fyrirtæki og reka það. Það getur hver og einn gert. Þeir sem eru launþegar hafa kosið að stofna ekki fyrirtæki og vera þá launþegar frekar. Það getur hver og einn gert. Þetta er spurningin um það hvort þeir sem eru með lág laun stofni bara ekki fyrirtæki sjálfir eins og hinir og borgi þá há laun.

Ég er sammála hv. þm. þegar hann talar um að greiða mannsæmandi laun og það sé skömm að því að greiða ekki mannsæmandi laun. Ég var mjög mikið á móti því þegar lægstu laun voru 45 þús. kr. fyrir u.þ.b. sex árum. Það hefur tekist að ná þeim upp í núna, það er stefnt að 90 þús. kr. Það er tvöföldun á sex, sjö árum, sem er afskaplega góður árangur bæði aðila vinnumarkaðarins og eins ríkisvaldsins sem hefur komið inn í það með skattalagabreytingum. (Gripið fram í: Það er nú einhver verðbólga.) Jú, vissulega er einhver verðbólga, herra forseti, en hún er ekki nándar nærri tvöföld á þessum tíma, langt í frá. Þessi laun hafa enda hækkað meira en öll önnur laun.

Varðandi það að menn eigi ekki að greiða svona lág laun þá vildi ég snúa dæminu við: Menn eiga ekki að vinna hjá svona fyrirtækjum. Menn eiga bara að fara til annarra fyrirtækja. Þá kemur inn í dæmið hvort það er atvinnuleysi eða ekki. Þegar atvinnuleysi er neyðast menn til að vinna fyrir þessum lágu launum en þegar ekki er atvinnuleysi þá geta þeir farið annað, og það gera þeir í dag sem betur fer. Þess vegna er atvinnuleysið mesti bölvaldurinn fyrir láglaunafólk og nánast hefur tekist að útrýma atvinnuleysinu.