Bann við uppsögnum vegna fjölskylduábyrgðar starfsmanna

Miðvikudaginn 26. apríl 2000, kl. 11:39:16 (6635)

2000-04-26 11:39:16# 125. lþ. 102.14 fundur 241. mál: #A bann við uppsögnum vegna fjölskylduábyrgðar starfsmanna# frv. 27/2000, Frsm. ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 125. lþ.

[11:39]

Frsm. félmn. (Arnbjörg Sveinsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þær umræður sem hér hafa orðið. En vegna efnis þeirra held ég að rétt sé að taka fram að frv. fjallar um bann við uppsögnum vegna fjölskylduábyrgðar. Þetta ákvæði var nauðsynlegt að taka inn í lög vegna þess að til stendur að fullgilda samþykkt nr. 156 um jafna möguleika og jafnrétti til handa körlum og konum í atvinnu, þ.e. starfsfólk með fjölskylduábyrgð.

Þetta eru efnisatriði málsins og rétt að minna á það vegna þeirrar umræðu sem hér hefur orðið. Einnig vil ég minna á að í nál. er sérstaklega tekið fram að um kaup og kjör gilda samningar á almennum vinnumarkaði og um laun í fjarveru frá starfi fer eftir kjarasamningum viðkomandi starfsmanns, en nauðsynlegt er að skilja að rétt til launa annars vegar og rétt til að halda starfi hins vegar.

Þetta eru grundvallaratriðin í málinu og vegna þeirrar umræðu sem hér hefur orðið er rétt að minna á það, og einnig að þessi lagatexti varð til í samstarfi aðila vinnumarkaðarins og félmrn.