Þjóðlendur

Miðvikudaginn 26. apríl 2000, kl. 12:10:25 (6645)

2000-04-26 12:10:25# 125. lþ. 102.16 fundur 321. mál: #A þjóðlendur# (kostnaður af hagsmunagæslu, málsmeðferð) frv. 65/2000, Frsm. ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 125. lþ.

[12:10]

Frsm. allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson hafi misskilið mig að einhverju leyti. Það sem ég sagði í upphafi máls míns áðan er skýrt að við byggjum að mörgu leyti á þeirri fyrirmynd sem er í Noregi. Helsti munurinn er sá að þar er um dómstólastig að ræða og ákvörðun þeirra verður skotið til hæstaréttar en hér er um stjórnsýslustig að ræða.

Noregur er náttúrlega allt öðruvísi formað land en Ísland eins og við vitum. Ég er ekki á því að þeim málum hefði verið betur fyrir komið heima fyrir hér á landi en að setja þau í hendur svokallaðrar óbyggðanefndar. Ég held að það séu mjög hæfir og vaskir menn innan þeirrar nefndar sem sinni starfi sínu af alúð, og ég efast ekki um að úrskurðir þeirrar nefndar verða mjög faglegir því að okkar allra færasta fólk er þeirri nefnd. Það kemur til með að byggja mjög mikið á ítarlegri og umfangsmikilli gagnaöflun í þessum málum til þess að svo viðkvæm mál verði sem best til lykta leidd á sem farsælastan hátt. Að því leyti til treysti ég þeim sem eru innan óbyggðanefndar mjög vel til þeirra verka.