Þjóðlendur

Miðvikudaginn 26. apríl 2000, kl. 13:00:49 (6654)

2000-04-26 13:00:49# 125. lþ. 102.16 fundur 321. mál: #A þjóðlendur# (kostnaður af hagsmunagæslu, málsmeðferð) frv. 65/2000, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 125. lþ.

[13:00]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. landbrh. fyrir innkomu hans í málið. Í fyrsta lagi vill Vinstri hreyfingin -- grænt framboð að jafnt gangi yfir alla og að ríkið sé sjálfu sér samkvæmt og samþykki ekki lög um eitt og geri síðan annað. Við viljum einmitt hvetja hæstv. landbrh. til þess að standa með okkur í því þannig að hæstv. landbrh. þurfi ekki bara að ganga inn í og út úr ríkisstjórn með trú á að málið fá farsælan endi heldur líka málefnalega vinnu að baki einhverri skynsamlegri niðurstöðu.

Það er alveg hárrétt að þetta er ekki komið á lokastig. En kröfugerðin liggur fyrir og skoðun hæstv. landbrh. á því hvernig af stað er farið liggur líka fyrir. Það sem vantar, herra forseti, er að hæstv. landbrh. fari ekki með skoðanir sínar inn í ríkisstjórn á öðrum fæti og á hinum út aftur. Það er einmitt það sem vantar í þessari málafylgju hæstv. landbrh. Hver mundi vilja sjá upplitið á ríkisstjórninni og hæstv. fjmrh. sem fer með kröfugerðina, ef Úthlíð yrði dæmd með 100% rétt, en þeir búnir að gera kröfu til þess að 95% eða 98% af jörðinni yrði tekið til baka? Fyrir hvaða vinnu er þá verið að borga þessum kröfugerðarmönnum ef ekki er meiri trú á þeirra störfum?