Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 26. apríl 2000, kl. 13:47:04 (6660)

2000-04-26 13:47:04# 125. lþ. 102.94 fundur 463#B stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), Flm. SvH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 125. lþ.

[13:47]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Það er grundvallarmisskilningur ef einhverjir halda að dómur Hæstaréttar í Vatneyrarmálinu sé heilbrigðisvottorð fyrir gildandi fiskveiðistjórn á Íslandi. Því er raunar alveg öfugt farið, eins og glöggt má sjá ef forsendur meiri hluta dómsins og sératkvæða þriggja dómenda eru krufnar til mergjar.

Í forsendum meiri hluta Hæstaréttar segir svo á bls. 12 í dómskjalinu, með leyfi forseta:

,,Í 1. gr. laga nr. 38/1990 segir að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar. Sé það markmið laganna að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögunum myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir þeim.

Réttindi þau sem felast í úthlutuninni ráðast þannig af lögunum eins og þau eru á hverjum tíma.``

Á bls. 12 í sama skjali segir svo, með leyfi forseta:

,,Til þess verður og að líta að samkvæmt 3. málslið 1. gr. laganna myndar úthlutun veiðiheimilda ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra manna yfir þeim eins og áður segir. Aflaheimildir eru þannig aðeins varanlegar í þeim skilningi að þær verða hvorki felldar niður né þeim breytt nema með lögum. Í skjóli valdheimilda sinna getur Alþingi því kveðið nánar á um réttinn til fiskveiða, bundið hann skilyrðum, eða innheimt fyrir hann frekara fégjald en nú er gert vegna breyttra sjónarmiða um ráðstöfun þeirrar sameignar íslensku þjóðarinnar, sem nytjastofnar á Íslandsmiðum eru.``

Ég mun víkja að því síðar sérstaklega hvernig framkvæmdarvaldinu hefur farið úr hendi úthlutun veiðiheimilda og hvernig handhafar heimildanna hafa meðhöndlað þær í einu og öllu sem eigin eign og þverbrotið þannig gildandi lög með vitund og vilja valdhafa.

Niðurstaða tveggja dómenda, Guðrúnar Erlendsdóttur og Haraldar Henrýssonar, er afdráttarlaus. Í III. kafla forsendna þeirra segir svo á bls. 16:

,,Þannig útiloka reglur um úthlutun aflaheimilda til frambúðar aðra mikilvæga hagsmuni, sem telja verður að hafi sambærilega stöðu, og taka verður tillit til í heildarmati. Í þessu felst skýlaus mismunun, sem telja verður ómálefnalega og ósamrýmanlega þeirri skírskotun til heildarhagsmuna, sem fram kemur í 1. gr. laga nr. 38/1990. Er og óhjákvæmilegt að líta svo á, að til frambúðar leiði þessi skipan til myndunar sérréttinda, þrátt fyrir það yfirlýsta markmið laganna, að úthlutun veiðiheimilda myndi ekki eignarrétt og óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir þeim, sbr. 3. málslið sömu lagagreinar.``

Í forsendum fyrir sératkvæði Hjartar Torfasonar segir svo í kafla VII á bls. 24:

,,Að virtu öllu þessu og öðru því, sem telja má á færi dómara, verður að líta svo á, að hin umdeilda skipan fái ekki staðist til frambúðar sem lögmæt skipan á stjórn fiskveiða, þrátt fyrir málefnalegan uppruna, nema því aðeins að til komi eitthvert mikils háttar mótvægi við sérréttindum þeim og einhæfni, er fylgja megineinkennum hennar. Um fyrrgreind sérréttindi eigi það einnig við, að þau standist ekki kröfur áðurgreindra ákvæða stjórnarskrárinnar sem ótímabundinn þáttur fiskveiðistjórnarinnar.``

Svo mörg eru þau orð í forsendum Hæstaréttar og verða ekki misskilin. Þess vegna ber hinu háa Alþingi siðferðisskylda til að taka þegar í stað til meðferðar og gerbreytingar sjálfan grundvöll fiskveiðistjórnarinnar, úthlutun kvótans. Lausn þess þjóðhættulega vandamáls verður ekki fundin fyrir dómstólum heldur á löggjafarsamkundunni. Slík er ályktun hins hæsta réttar og eftir henni ber að sjálfsögðu að fara.

Það er álit Hæstaréttar að skipan fiskveiðistjórnar hafi á sínum tíma verið reist á málefnalegum forsendum og verði því mati löggjafans ekki haggað fyrir dómstólum. Fyrir því skulum við nú rifja upp tilurð kerfisins og hinnar alræmdu kvótaúthlutunar.

Í ævisögu Steingríms Hermannssonar, fyrrverandi forsætisráðherra, segir svo á bls. 289:

,,Aðdragandi þess að sett var á kvótakerfi í sjávarútvegi á Íslandi er saga sem ekki hefur verið skráð þótt undarlegt megi virðast. Þegar hagsmunaaðilar í útgerð höfðu komið sér saman um nýtt fiskveiðistjórnarkerfi treystu stjórnmálamenn sér ekki til að ganga gegn þeirri niðurstöðu. Halldór Ásgrímsson studdi stefnu LÍÚ og féllst á rök útgerðarmanna fyrir kvóta á skip.``

Í ævisögu Steingríms Hermannssonar, fyrrv. forsrh., sem sat í þeirri stöðu þegar kerfinu var komið á, segir svo, með leyfi forseta:

,,Kvótakerfinu var komið á með hraði um áramótin 1983/1984. Það var sett á fót án þess að umtalsverð umræða færi fram á vettvangi stjórnmálanna eða í sjálfu sjútvrn. Þegar ég yfirgaf ráðuneytið grunaði mig ekki hversu skammt væri í að Kristján Ragnarsson hefði sitt fram.``

Hæstiréttur verður ekki gagnrýndur fyrir að vitna til forsendna löggjafans og að mat hans hafi verið málefnalegt. Rétturinn á engin ráð önnur en þau sem lesin verða í lagagreinunum sjálfum. En hin ískalda staðreynd er hins vegar sú að kvótalögin voru sett eftir hagsmunum LÍÚ-klíkunnar og framkvæmd þeirra hefur verið í höndum sjútvrh. Halldórs Ásgrímssonar og Þorsteins Pálssonar sem voru alla ráðherratíð sína eins og þrælar í járnum á galeiðum sægreifanna. Þetta eru í raun hinar málefnalegu forsendur kvótaúthlutunarinnar, svívirðilegustu eignatilfærslu Íslandssögunnar, gripdeildarlaganna, þar sem örfáir útvaldir maka krókinn á kostnað heildarinnar og byggðir landsins brotna saman undan, með hrottafengnari hætti en nokkurn gat órað fyrir.

Þetta fársjúka fiskveiðistjórnarkerfi er ekki aðeins gott frá sjónarhóli LÍÚ-klíkunnar og taglhnýtinga hennar heldur af þeim talið það besta í heiminum. Gríðarlegum fjármunum er varið til að flytja landsmönnum og allri heimsbyggðinni þennan blekkingarboðskap. Þetta hefur þeim haldist uppi þótt árangurinn af kerfinu sem fiskverndarkerfi sé neikvæður eftir öllum nothæfum mælikvörðum. Kerfið er ekki fiskverndarkerfi heldur kerfi til verndar stórútgerðarmönnum örfáum.

Lítum andartak á þróun þorskveiða síðustu hálfa öld. Á árunum 1952--1972 gaf þorskslóðin af sér 438 þúsund tonna meðalafla á ári í 20 ár. Fram til 1961 var fiskislóðin aðeins 43 þús. km2 en 75 þús. km2 upp úr því, eftir 12 mílna útfærsluna. Nú er landhelgin hins vegar 758 þús. km2. Af þessari 20 ára reynslu, frá 1952 til 1972, hefði að öðru jöfnu mátt ætla að slíkt veiðiálag væri hæfilegt á Íslandsmiðum. En það er í lok þessa tímabils sem hafrannsóknarmenn setja fram fullyrðingu um að þorksstofninum við Ísland verði útrýmt ef ekki verði hafnar friðunaraðgerðir. Óþarft er að rekja þá sögu í smáatriðum, en minna má á, að leyfileg veiði þorsks fór eitt árið niður í 160 þúsund tonn. Eftir að hinum margrómuðu friðunaraðgerðum hafði verið beitt árum saman.

Hvernig skyldi ástandið vera nú eftir allar friðunaraðgerðirnar og verndunarmátt kvótakerfisins? Lítum á síðasta áratug, eftir að kvótaframsalið var innleitt, og berum saman afla ársins 1991 og ráðgerðar veiðar í ár, árið 2000. Þær tölur gefa harkalega vísbendingu um hver árangur er af fiskveiðiráðgjöf og þar með kvótasetningu síðasta áratug eða hitt þó heldur.

Þorskaflinn árið 1991 var rétt rúm 300 þús. tonn. Nú, eftir mikinn viðgang stofnsins að talið er vegna hagstæðra skilyrða í hafinu sl. tvö ár, er leyft að veiða tæp 270 þús. tonn. af þorski. Ýsuaflinn 1991 var 54 þús. tonn en nú má veiða 38 þús. tonn. Ufsaafli 1991 var 99 þús. tonn en nú telst hæfilegt að veiða 30 þús. tonn. 1991 veiddust 97 þús. tonn af karfa, en nú má veiða 65 þús. tonn. Af skarkola veiddust 11 þús. tonn 1991 en nú er talið hæfilegt að veiða 4 þús. tonn.

Þess ber að geta sérstaklega að ástand hafsvæðanna kringum Ísland þykir sérlega gott og hafi verið hin síðustu árin. Nýjustu fréttir herma þó að netarall og togararall bendi til þess að t.d. þorskstofninn skreppi enn saman. Samt sem áður skreppur veiðin saman sem raun ber vitni. Sem fiskverndarkerfi virðist fiskveiðistjórnin hafa alveg þveröfug áhrif og sú forsenda, málefnalega forsenda fyrir setningu fiskveiðistjórnarlaganna þess vegna að engu hafandi og hreinræktuð blekking eins og sannarlega má sýna fram á og ég hef gert í þessum örfáu tölum.

Í áróðri kvótamanna er sú fullyrðing fyrirferðarmikil að aldrei hafi verið hægt að gera út á Íslandi með neinu lagi fyrr en undir núverandi gripdeildarkerfi.

Hvað segja staðreyndirnar okkur? Hvaðan ætli séu runnin meginefnin í íslensku þjóðlífsbyltinguna? Framfarabyltingin íslenska á sér enga hliðstæðu. Á örfáum fyrstu áratugum lýðveldistímans spratt þjóðin upp úr öskustó örbirgðar til að verða eitt mesta velferðarríki veraldar. Öll voru þau efni úr sjó dregin að heita mátti. Svo koma áróðursmeistarar gripdeildarkerfisins og fullyrða að íslenska útgerðin hafi ævinlega verið á vonarvöl þar til örfáum lénsherrum voru afhent umráð sjávarauðlindarinnar.

[14:00]

Sá sem hér talar getur úr flokki talað þegar hann segir að það hafi alltaf verið gróðavegur að stunda útgerð á Íslandi með góðum mönnum, að vísu mikil áhætta með skussunum sem nóg var af og kunningjaþjóðfélagið hélt úti ásamt pólitískum bankastjórum aðallega. Að auki er það talið kvótakerfinu til ágætis að lungann úr liðnum áratug hefur ríkt góðæri til sjávarins og löngum mjög hátt verðlag á mörkuðum sjávarafurða. Enn fremur er á því klifað að útvegurinn hafi áður fyrr þurft á opinberri aðstoð að halda. Sú aðstoð sést vart með berum augum, borið saman við þá gegndarlausu ríkisframfærslu sem gjafakvótinn veitir.

Það er ærandi holhljómur í tali íslenskra ráðamanna á erlendri grund þar sem þeir eru að mæla gegn styrkjum annarra þjóða til sjávarútvegs í öðrum löndum.

Víkjum þá að hagkvæmninni og hagræðingunni sem kvótakerfið á að hafa haft í för með sér. Ég geri ekki ráð fyrir því að það séu nýjar fréttir fyrir neinn í þessum sal þótt rifjaðar séu upp ástæðurnar fyrir því að Færeyingar vörpuðu fyrir ofurborð því fiskveiðistjórnarkerfi sem við Íslendingar búum við. Það var fyrst og fremst vegna hins gegndarlausa brottkasts afla sem kerfið hratt mönnum út í. Þegar þessi staðreynd er höfð á orði á Íslandi gera hræsnisdruslur kerfisins sig heilaga í framan og stynja af sársauka vegna þeirrar ósanngirni sem íslenskum sjómönnum sé með því sýnd að hafa uppi þessar staðreyndir.

Það er óþarft að fara mörgum orðum um þessa alkunnu staðreynd. Einn þekktasti fiskiskipstjóri flotans, Hrólfur Gunnarsson, fullyrðir að brottkastið nemi 200 þús. tonnum árlega. Við skulum fara varlegar í sakirnar en ekki er ofáætlað að 100 þús. tonnum af þorski sé kastað á glæ, að verðmæti u.þ.b. 20 milljarðar kr., 20.000 millj. kr. Enginn sem leigir sér veiðiheimildir fyrir það okurverð sem tíðkast getur komið að landi nema með verðmesta fiskinn.

Þess vegna er öllum smærri fiski hent og öllum dauðum fiski í netum, enda þótt það sé staðreynd að 40% af þorski sem gengur í net drepist á fyrstu nóttu. Og þeir draga net þriggja nátta úr sjó og enginn dauður fiskur í þeim, a.m.k. kemur hann ekki að landi.

Hið sama gildir raunar um gjafakvótamenn. Þeir hljóta að kappkosta að upp í veiðiheimildirnar aflist sem verðmestur fiskur þótt þeim sé ekki nauðugur einn kostur að fleygja öllum verðminni fiski, eins og leigjendum heimildanna. Á togurum er smáfiski skolað fyrir borð og sennilega drepa þeir fleiri einstaklinga fisks en þeir hirða. Þó ekki væri nema til þess að fá allan veiddan afla að landi ber brýna nauðsyn til að leggja af núverandi sóunarkerfi sem herrarnir kalla hagkvæmt.

Hvernig skyldi svo hagur greinarinnar vera í heild eftir góðærið til sjávarins og hæsta verðlag á afurðum? Er hægt að fá skorinorða skýringu á því hvers vegna skuldir sjávarútvegsins hafa hækkað um 50 milljarða á síðustu tæpum fimm árum, 50 þús. millj. kr., og eignaaukningin sáralítil? Hvað er orðið um mismuninn plús gróðann sem gumað er af? Er mismunarins kannski að leita inni á Laugavegi eða uppi í Kringlu eða úti í Lúxemborg? Við vitum um enska knattspyrnuliðið. En fróðlegt væri að fá upplýsingar um einkaráðstöfun sægreifanna á andvirði sjávarauðlindarinnar, sameign íslensku þjóðarinnar.

En hverjir skyldu það hafa verið sem drýgstan þátt áttu í því upp úr miðri öld að lyfta íslenskri þjóð úr örbirgð til bjargálna? Það voru ungir framtaks- og aflamenn. Langflestir höfðu þeir hafist af sjálfu sér enda ekkert auðvald að þeirra baki. Þeir námu skipstjórnarfræði, komust yfir skip og neyttu frumburðarréttar hvers einasta Íslendings að sækja sjó og færa björg í bú. Þetta eru afreksmennirnir sem við eigum fyrst og fremst að þakka velsæld okkar.

Nú er nám í Stýrimannaskólanum ekki lengur eftirsóknarvert fyrir unga menn og skólinn verður sjálfsagt brátt minnismerki um liðna tíð. Ungir menn finna hjá sér enga hvöt að afla sér menntunar til þess eins að þjóna lénsherrum framtíðarinnar og eiga þess enga von að verða sjálfs síns herrar. Hitt er svo annað mál, en þessu náskylt, að atvinnugrein þar sem nýliðun er útilokuð verður brátt illa sett og örbjarga.

Í 1. gr. laga nr. 38/1990 er tekið fram að það sé markmið laganna að tryggja byggð í landinu. Eitt er markmið og annað framkvæmd enda fer framkvæmd fiskveiðistjórnarlaganna þannig úr hendi ríkisvaldsins að innan skamms munu flestar sjávarbyggðir í landinu leggjast í auðn. Tala kvótamenn raunar tæpitungulaust um að slíkt sé eðlileg afleiðing hagræðingarinnar svonefndu í sjávarútvegi.

Það vekur venjulegu fólki hroll að hlýða á slíkt tal og enn meira að hafa kaldar staðreyndir þessarar þróunar fyrir augum. Á hverjum degi sl. árs flutti fjögurra manna fjölskylda af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins og þessu mun fram vinda með vaxandi þunga eftir því sem kvótaeignin færist á færri hendur og ný met hafa verið slegin á fyrstu þremur mánuðum ársins.

Tíma mínum er lokið nú, herra forseti, en að mörgu öðru mætti víkja og líka því að það hlýtur að renna gömlum sjálfstæðisflokksmanni til rifja, sem var alinn upp við kjörorðið stétt með stétt þar sem frjálst framtak og frelsi einstaklinganna til orðs og æðis sat í fyrirrúmi, að horfa upp á gamla flokkinn sinn veita forustu slíkri óstjórn eins og hér gefur á að líta.