Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 26. apríl 2000, kl. 14:07:48 (6661)

2000-04-26 14:07:48# 125. lþ. 102.94 fundur 463#B stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), sjútvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 125. lþ.

[14:07]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Dómur Hæstaréttar frá 6. apríl sl. í Vatneyrarmálinu svokallaða er mjög afgerandi og skýr. Að honum gengnum leikur ekki nokkur vafi á því hvort fiskveiðistjórnarlöggjöfin standist stjórnarskrána. Í niðurstöðum dómsins felst að val á leiðum við stjórn fiskveiða hljóti að vera hjá löggjafanum og að endurskoðunarvald dómstóla nái ekki til annars en að meta hvort gætt hafi verið málefnalegra sjónarmiða við val leiða. Sé sú leið valin, ekki ómálefnaleg, með þeim hætti að hún brjóti í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrár þá ljúki endurskoðunarvaldi dómstóla þar.

Niðurstaða dómsins er síðan skýr um að það mat löggjafans að byggja á veiðireynslu við úthlutun veiðiheimilda þegar kvótakerfinu var komið á, hafi verið málefnalegt á þennan hátt. Þannig segir orðrétt í dómi Hæstaréttar, með leyfi forseta:

,,Að öllu þessu virtu er mat löggjafans reist á málefnalegum forsendum. Eru ekki efni til þess, að því mati verði haggað af dómstólum. Verður þannig að leggja til grundvallar að úthlutun aflaheimilda eftir 7. gr. laga nr. 38/1990 fullnægi jafnræðisreglu 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar og þeim sjónarmiðum um jafnræði, sem gæta þarf við takmörkun atvinnufrelsis samkvæmt 1. mgr. 75. gr. hennar. Ákvæðið er því stjórnskipulega gilt.``

Þennan dóm kváðu upp fjórir dómarar og voru sammála. Fimmti dómarinn kvað upp aðra niðurstöðu en var hins vegar sammála þeim um að fiskveiðistjórnin stæðist stjórnarskrána. Tveir dómarar voru ósammála því.

Ég ætla ekki að svara þeim orðum sem hv. þm. Sverrir Hermannsson hefur uppi þegar hann vitnar til minnihlutaálits Hæstaréttar, enda hefur það ekki stjórnsýslulega eða stjórnarskrárlega þýðingu í þessu sambandi þar sem meiri hluti réttarins ræður þegar dómur er kveðinn upp.

Það er grundvallarregla í lögfræði að dómstólar fara varlega í að endurskoða mat löggjafans um efnahagslega þætti. Löggjafinn mat það svo við setningu núverandi fiskveiðistjórnarlöggjafar að í kerfinu fælist hagkvæmasta leiðin til að stjórna nýtingu þeirrar auðlindar sem fiskimiðin við Ísland eru. Í dóminum kemur fram að Hæstiréttur taldi sig ekki geta haggað því mati enda sé það byggt á málefnalegum sjónarmiðum í samræmi við markmiðsyfirlýsingu í 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða og grundvallarreglur stjórnarskrárinnar.

Dómurinn eyðir þeirri réttaróvissu sem skapaðist við dóm réttarins frá því í desember 1998 og er skýr um það að með þeim dómi hafi aðeins verið tekin afstaða til 5. gr. laganna um stjórn fiskveiða. Það liggur því ljóst fyrir að viðbrögð Alþingis við þeim dómi með setningu laga nr. 1/1999, sem breyttu þágildandi 5. gr. laganna, voru rétt og nægjanleg.

Með dóminum hefur Hæstiréttur tekið af skarið með það að löggjafinn hafi rúmt vald til að breyta núgildandi fyrirkomulagi um stjórn fiskveiða enda sé það gert með lögum og að gættum stjórnarskrárvörðum réttindum. Eru þær leiðbeiningar af hinu góða fyrir vinnu löggjafans vegna yfirstandandi endurskoðunar fiskveiðistjórnarkerfisins.

Nú er það orðið ljóst að umræðan um framtíðarskipan fiskveiðistjórnar á heima á hinu pólitíska sviði. Um það erum við hv. frummælandi sammála. En fullyrðingar um að kerfið hafi ekki byggt á málefnalegum sjónarmiðum eru komnar út af borðinu.

Nú eru að störfum tvær nefndir á vegum Alþingis og ríkisstjórnar sem vinna að málum er snerta fiskveiðistjórn. Annars vegar er það auðlindanefnd sem hefur það hlutverk að fjalla um auðlindir sem eru eða kunna að verða þjóðareign og meðal annars hvernig með þær skuli farið og hvernig skuli staðið að gjaldtöku fyrir nýtingu þeirra. Hins vegar starfar nefnd um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða. Markmið hennar er að vinna að sem víðtækastri sátt landsmanna um fiskveiðistjórnarkerfið, þó þannig að markmiðum um skynsamlega nýtingu og bætta umgengni um auðlindir sjávar sé ekki raskað né heldur hagkvæmni eða stöðugleika í greininni.

Það er ljóst af þeim málaferlum sem nú er lokið með dómi Hæstaréttar að þau hafa tafið vinnu þessarar nefnda. Þannig gat auðlindanefndin ekki skilað af sér í lok janúar eins og til stóð vegna þessa dómsmáls. Endurskoðunarnefndin getur síðan ekki byrjað á sinni aðalvinnu fyrr en auðlindanefndin hefur skilað sinni vinnu. Þetta þýðir að sú endurskoðun á núverandi fiskveiðistjórnarkerfi sem stendur yfir kemur til með að tefjast sem þessu svarar.

Hv. þm. Sverrir Hermannsson gerði að umtalsefni hvernig þorskveiðum okkar hefði verið háttað það sem af er öldinni og að við hefðum fyrr á öldinni veitt umtalsvert meiri þorsk árlega en við höfum gert hin síðari ár og gerum nú. Þetta er vissulega rétt. En þegar málið er skoðað grannt þá er öldungis augljóst að fiskstofnarnir stóðu aldrei undir þessum veiðiskap. Veiðar yfir 350 þús. tonn og allt upp í 550 þús. tonn voru ekki sjálfbærar veiðar og hefðu ekki getað gengið til lengdar. (Gripið fram í: Og gera það ekki enn.) Og gera ekki enn. Það er hárrétt hjá hv. þm.

Í þessu sambandi verður líka að hafa í huga að nú eru mjög breyttar umhverfisaðstæður frá því sem var um miðja öldina eða frá árunum upp úr 1920--1965 þegar allt aðrar aðstæður voru í lífríki sjávar, sérstaklega hvað varðar hitastig og dreifingu á hlýsjó eða söltum sjó norður fyrir landið.

[14:15]

Einnig verður að hafa í huga að við erum nú að veiða úr miklu fleiri stofnum en við gerðum á fyrri hluta aldarinnar. Staðreyndin er því sú að við höfum aldrei áður dregið eins mikinn afla úr sjó og við höfum gert nú hin síðari ár. Við verðum að hafa í huga heildarlífkerfið þegar við skoðum aflann, þetta kemur allt úr sama pottinum þar sem gríðarlega mikil tengsl eru á milli afkomu og viðkomu einstakra tegunda.

Við verðum líka að skoða það að á fyrri hluta þess tímabils sem kvótakerfið hefur verið við lýði var kerfið mun ófullkomnara en það er orðið í dag. Þá var verið að stýra fiskveiðunum í bland með sóknarstýringu og því náðist ekki sú nákvæmni sem náðst hefur á síðustu árum um að ákvarða fyrir fram hversu mikið aflamark yrði dregið úr sjó af hverri tegund á hverju ári og því fóru menn umtalsvert fram úr því sem ætlað var um árabil á síðasta áratug. Ástandið var síðan orðið mjög slæmt í upphafi þessa áratugar. Ekki er örgrannt um að það læðist að manni sá grunur að þá hafi álagið á aðrar tegundir orðið heldur meira en menn hefðu kannski viljað og það hafi síðan valdið því að á síðustu árum hafa aðrar bolfisktegundir verið í heldur meiri lægð en æskilegt væri vegna þess að þorskinum var hlíft á fyrri hluta þessa áratugar.

Ef menn skoða þetta og bera saman hvernig stofnstærðin hefur verið að þróast miðað við aflann sem hefur verið dreginn úr sjó, sérstaklega á fyrri hluta aldarinnar þegar mest var veitt, þá er beint samhengi á milli þess hversu mikill aflinn var og þess að heildarstofninn minnkaði. Það er einungis að segja má á tveimur tímabilum þar sem dregur úr aflanum og stærð þorskstofnsins og þá sérstaklega hrygningarstofnsins eykst og það er á tímabili seinni heimsstyrjaldarinnar og áranna þar á eftir þegar veiðiálagið minnkaði gríðarlega mikið af eðlilegum ástæðum og svo um miðbik þessa áratugar þegar hin svokallaða aflaregla var tekin upp, 25% aflaregla, að heildarstofninn, veiðistofninn og hrygningarstofninn fer stækkandi aftur. Það er lagt í þetta m.a. vegna þeirra kenninga vísindamanna að stofninn þurfi að vera af ákveðinni stærð til þess að tryggja að hrygningin takist. Við erum vonandi að uppskera eins og til var sáð með því að þrjár síðustu hrygningar hafa tekist afskaplega vel samkvæmt þeim mælingum sem við getum beitt á þetta en því miður eru árgangarnir þar á undan flestir mjög rýrir og við erum svo sem ekki búnir að bíta úr nálinni með þau áhrif sem þau munu hafa á veiðarnar á næstu árum því eins og menn vita er þorskurinn frekar langlífur fiskur.

Ef við skoðum síðan framleiðni sjávarútvegsins, framleiðni fiskveiðanna á síðustu árum er áberandi að gríðarlega mikil aukning verður í framleiðni á þremur tímabilum, þ.e. að sjálfsögðu þegar við færðum út landhelgina um miðjan áttunda áratuginn og þegar kvótakerfinu var komið á í upphafi rétt fyrir miðjan níunda áratuginn og síðan í upphafi þessa áratugar þegar fiskveiðistjórnarlöggjöfin var endurskoðuð. Þar er um miklu meiri framleiðniaukningu að ræða en í nokkurri annarri sambærilegri atvinnugrein, eða í fiskveiðum í öðrum löndum. Þetta segir miklu meira en flest annað um það hver staða greinarinnar er og hvernig það byggir á fiskveiðistjórnarkerfinu þannig að bæði hagfræðilegi þátturinn og líffræðilegi þátturinn eru tengdir mjög sterkt saman.

Mér þótti hins vegar leiðinlegt að heyra hv. þm. Sverri Hermannsson fara þeim orðum um forvera mína í starfi sjútvrh. að þeir hefðu verið eins og þrælar í járnum. Ef mér skjátlast ekki er hv. þm. sá eini sem nú situr á Alþingi sem átti sæti í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar sem upphaflega kom kvótakerfinu á, fyrir utan fyrrv. sjútvrh., Halldór Ásgrímsson. Það má því segja að þeir deili ábyrgðinni að einhverju ef ekki miklu leyti. Ég hefði frekar haldið að hv. þm. Sverrir Hermannsson ætti að halda á lofti rykti sínu sem stjórnmálamanns með því að vitna til þess að hafa tekið þátt í því að koma á þessu kerfi sem hefur svo sannarlega haft góð áhrif á sjávarútveginn, bæði frá efnahagslega sjónarmiðinu og líffræðilega sjónarmiðinu og hefur lagt grunninn að því að sjávarútvegurinn mun áfram verða undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar.