Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 26. apríl 2000, kl. 14:35:14 (6663)

2000-04-26 14:35:14# 125. lþ. 102.94 fundur 463#B stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), KHG
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 125. lþ.

[14:35]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Eftir dóm Hæstaréttar sem er kveikjan að þessari umræðu liggur ljóst fyrir að Alþingi hefur full tök á málinu. Enginn getur verið í vafa um það lengur að þinginu er frjálst að breyta þeim lögum sem í gildi eru á hvern þann veg sem þingið kýs, án þess að vera bundið af eignarréttindum útgerðarmanna. Það er mjög mikilvægt að þessi niðurstaða komi fram því hér í þingsölum voru farnar að heyrast þær raddir að svo væri ekki lengur. Vinna okkar, sem stöndum í því að endurskoða gildandi löggjöf, getur samkvæmt því haldið áfram af fullum krafti og við höfum fullt svigrúm til að móta löggjöfina í þær áttir sem samstaða næst um.

Ég held að menn verði að horfast í augu við að kerfi þarf að vera í fiskveiðum, stjórnlausar veiðar ganga ekki þó að ýmsir horfi með eftirsjá til liðins tíma í þeim efnum. Menn verða að viðurkenna að það fyrirkomulag sem menn hafa stuðst við hálfan annan áratug hefur gert gagn að mörgu leyti. Aðstæður í sjávarútvegi eru á ýmsan hátt mun betri en þær voru áður fyrr. Þegar við horfum til sjávarútvegsfyrirtækja í dag þá velta menn fyrir sér þeim verðmætum sem liggja í fyrirtækjunum, eignum þeirra og þeim peningum sem eigendur geta fengið ef þeir selja sínar eignir.

Fyrir rúmum áratug var öðruvísi ástatt í íslenskum sjávarútvegi. Þá þurfti nýstofnuð ríkisstjórn að grípa til þess, sem var hennar fyrsta verk, að hrinda í framkvæmd neyðarráðstöfunum til þess að koma í veg fyrir algjört hrun í íslenskum sjávarútvegi. Það voru engin verðmæti í sjávarútvegsfyrirtækjum sem voru burðarásar í mörgum byggðarlögum. Þau höfðu enga möguleika á að bjarga sér sjálf þannig að umfangsmikla aðgerð þurfti af hálfu ríkisvaldsins til að viðhalda þessum fyrirtækjum og koma í veg fyrir stórfelldan bjargarskort sem af því hefði leitt. Það er ekki lengra síðan en 10--12 ár að þessar aðstæður voru uppi.

Í dag lítur enginn á íslenskan sjávarútveg þeim augum sem menn gerðu þá. Það verður að viðurkennast og menn verða að meta það að ástandið hefur breyst til batnaðar að þessu leyti. Ég held að við ættum ekki að ræða þessi mál á þeim grundvelli að allt hafi aflaga farið og mistekist sem menn hafa gert í skjóli þeirra laga sem gilt hafa hverju sinni síðasta hálfan annan áratug.

Það er heldur ekki þannig að við höfum fundið upp hina fullkomnu löggjöf né heldur búum við við fullkomnasta kerfi í heimi, því fer fjarri. Ýmislegt er öðruvísi en við viljum hafa það. Það er ýmislegt sem mörgum hverjum finnst hafa farið aflaga sem ástæða væri til að reyna að breyta og bæta til að ná utan um þá ágalla og eyða þeim. Við sjáum að mikil skuldsetning fylgir kerfinu eins og það hefur þróast á síðustu árum. Við sjáum líka að afkoman er slök í greininni. Þrátt fyrir sterkt eigið fé fyrirtækjanna er reksturinn ekki að skila mikilli ávöxtun og stenst ekki mikla samkeppni við aðra ávöxtunarmöguleika á fjármagni.

Við sjáum líka að nýliðun er mjög erfið undir þessu skipulagi. Við sjáum að samþjöppun er veruleg í atvinnugreininni. Samþjöppunin hefur ásamt öðru ýmsar alvarlegar afleiðingar fyrir mörg sjávarútvegsbyggðarlög á landinu. Þeim byggðarlögum hefur farið fjölgandi sem lent hafa í vandræðum eftir því sem árin hafa liðið og jafnvel stærri byggðarlög. Menn héldu lengi vel að þessir annmarkar kerfisins bitnuðu fyrst og fremst á smáum þorpum þar sem fáir íbúar væru og aflið til að standa undir öflugu fyrirtæki væri ekki mikið. En á seinni árum hefur komið í ljós að stærri útgerðarstaðir geta lent í verulegum erfiðleikum, t.d. 3.000 manna staður eins og Ísafjörður sem er þessa mánuði að missa hvert fyrirtækið út úr höndum sér á eftir öðru. Þetta eru auðvitað hlutir sem menn hljóta að viðurkenna að eru ekki eins og við viljum hafa þá, eða hvað? Þess vegna hljótum við að leitast við, við endurskoðun laganna, að átta okkur á hvað okkur finnst hafa farið aflaga og hverju við viljum breyta og finna á betri lausnir.

Ég vil víkja aðeins að áliti þeirra dómara í Hæstarétti sem skila séráliti og gera grein fyrir ákveðnum hluta álits þeirra af því að mér finnst að það eigi fullt erindi inn í umræðuna um endurskoðun á lögunum um stjórn fiskveiða. Ég er að mörgu leyti sammála því sem þar kemur fram.

Ég vil fyrst nefna sératkvæði Guðrúnar Erlendsdóttur og Haraldar Henryssonar, sem segja eftirfarandi í sératkvæði sínu, með leyfi forseta:

,,Í 1. gr. laga nr. 38/1990 segir meðal annars að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar og að markmið laganna sé að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Í þessari stefnumörkun felst eindregin skírskotun til þess, að heildarhagsmunir þjóðarinnar skuli vera undirstaða allra reglna um stjórn fiskveiða. Af eðli máls leiðir að taka ber einnig sérstakt tillit til hagsmuna og atvinnuréttinda allra þeirra, sem eru í þeirri stöðu að tengjast fiskveiðum með beinum hætti, útgerðarmanna, sjómanna, fiskverkafólks, fiskvinnslustöðva og byggðarlaga, sem mjög eru háð fiskveiðum.``

Þarna koma þessir dómarar einmitt með sjónarmið sem ég held að menn hafi of lítið litið til á síðustu árum. Ég held að menn hafi of mikið horft á hagræðingarþáttinn í löggjöfinni, einblínt á það en gleymt að líta á hagsmuni allra hinna sem ekki eru útgerðarmenn. Ég skil það sem fram kemur í þessu séráliti sem ábendingu þessara dómara um að betur megi gera í þessum efnum.

Þetta er líka sérstaklega áberandi í sératkvæði Hjartar Torfasonar en í því segir hann eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Reglur þær um stjórn fiskveiða sem á reynir í máli þessu varða ekki aðeins heildarhagsmuni þjóðarinnar heldur einnig hagsmuni og atvinnuréttindi allra þeirra sem voru og eru í þeirri stöðu að vera tengdir eða háðir fiskveiðum á grundvelli almannaréttar og þeirri aðstöðu sem við þarf til að stunda þær. Koma þar einkum til útgerðarmenn, sjómenn og fiskverkafólk og aðilar að rekstri verstöðva og fiskvinnslustöðva, en einnig hagsmunir byggðarlaga þar sem búseta er tengd fiskveiðum og fiskvinnslu eða háð þessum atvinnuvegi öðru fremur þegar litið er til landkosta. Það leiðir af því sem fyrr var rakið að gildi þessara reglna verður meðal annars að meta eftir því hvort ætla megi að tillit hafi verið tekið til allra þessara hagsmuna, áður en gengið var til ákvörðunar um efni þeirra, og hvort reglurnar sjálfar gefi þetta nægilega til kynna.``

Þarna kemur mjög sterkt það sjónarmið Hjartar Torfasonar að menn eigi að líta til allra þessara hagsmuna við lagasetninguna.

Síðar í áliti Hjartar segir, með leyfi forseta, um þá aðferð sem menn völdu á árinu 1984, þar á meðal hv. þm. Sverrir Hermannsson sem sat í þeirri ríkisstjórn sem stóð að því að setja þau lög, eins og aðrir ráðherrar hennar, og ekki bara einu sinni og ekki tvisvar heldur þrisvar sinnum:

,,Samkvæmt henni var aflaheimildum þeim er fært þótti að veita úthlutað til þeirra aðila sem næstir stóðu yfirstandandi veiðum á fisktegundunum er vernda átti ... Heimildirnar voru að vísu veittar eigendum skipanna sem nutu hinnar tilskildu veiðireynslu, en ætla mátti eigi að síður að þær kæmu öðrum til góða sem veiðunum væru tengdir meðan þær væru bundnar við þessi skip. Átti það meðal annars við um sjómenn á skipunum og fyrirtæki og fólk í þeim byggðarlögum, þar sem útgerð skipanna og aflaráðstöfun fór fram. Verður á það að fallast að þær lagareglur sem fylgt var í þessu efni á árunum 1984--1990 hafi ekki verið andstæðar ákvæðum stjórnarskrárinnar eða þeim lagasjónarmiðum og viðhorfum, sem um ræðir í fyrri köflum ...``

[14:45]

Þarna leggur dómarinn áherslu á að kerfið hafi að hans mati fyrir daga hins frjálsa framsals tekið tillit til allra þeirra hagsmuna sem það á að gera. Síðan rekur hann það að eftir að framsalið var tekið upp hafi orðið breyting á í þessum efnum. Hann segir svo, með leyfi forseta:

,,Sú breyting, sem gerð var að svo stöddu til að treysta sveigjanleika kerfisins, var aðallega sú, að slíta hin beinu tengsl á milli aflaheimilda skipa og veiðileyfis þeirra og gera aflahlutdeildina framseljanlega. Þessi ráðstöfun var þó varhugaverð að því leyti, að henni hlaut að fylgja samsvarandi rof á tengslum við þá aðra en útgerðarmenn skipanna, sem hagsmuna áttu að gæta vegna aflaheimildanna, og þar með aukning á einhæfni þess, að hafa aflaheimildirnar í höndum útgerðaraðilanna einna.``

Þarna bendir hann einmitt á annmarka sem er að hans mati á því að hafa framsal sem útgerðarmennirnir einir hafa í sínum höndum. Eins og hann kemst að orði fylgir að valdið til að mæta þessum kröfum um hagræðingu er fært úr höndum stjórnvalda yfir til þeirra sem hafa heimildirnar til ráðstöfunar og skerðir þar af leiðandi stöðu og rétt hinna sem hagsmuna eiga að gæta en eru ekki útvegsmenn. Þarna held ég að sé einmitt að finna einn helsta galla núverandi kerfis, það er tengt þessu framsali og því að það er algjörlega í höndum útgerðarmanna einna.

Að mati Hjartar Torfasonar stenst kerfið ekki ef það á að vera ótímabundið með þessu fyrirkomulagi, með svona framsali. Þá stenst ekki ákvæði stjórnarskrárinnar nema til komi meiri háttar efnisleg skilyrði sem eru mótvægi við þeim sérréttindum sem felast í að hafa aflaheimildirnar undir höndum. Í þessu séráliti er því að finna sjónarmið eða leiðarvísi um hvaða breytingar löggjafinn þurfi að leggja áherslu á til þess að kerfið geti staðist og það er að gera breytingar sem lúta að ráðstöfun aflaheimildanna.

Herra forseti. Ég held að menn eigi að hugsa mjög alvarlega um þær ábendingar sem koma fram í sérálitunum tveimur þar sem í báðum álitunum er horft til stöðu fólks í sjávarplássunum hringinn í kringum landið og minnt á það að við eigum að setja löggjöf sem styrkir stöðu þeirra ekki síður en útgerðarmannanna einna eins og nú er.