Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 26. apríl 2000, kl. 14:48:26 (6664)

2000-04-26 14:48:26# 125. lþ. 102.94 fundur 463#B stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 125. lþ.

[14:48]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Sannarlega er tími til þess kominn að Alþingi noti eitthvað af tíma sínum til þess að ræða grundvallaratvinnustarfsemi þjóðarinnar. Betra hefði verið að ekki hefði þurft til Vatneyrardóm frá 6. apríl. Vatneyrardómur er afleiðing af gríðarlegri óánægju í samfélaginu sem við verðum öll að átta okkur á. Vel getur verið að hægt sé að velta fyrir sér lagaklókindum af ýmsu tagi en þau lög gilda í öllum löndum að ef menn eru orðnir óánægðir, ósammála, út um allt þjóðfélagið, er það hlutverk hinna lýðræðiskjörnu fulltrúa að bregðast við og gera breytingar sem eru nauðsynlegar í anda tímans. Það er grundvallaratriði. Óánægjan byggist fyrst og fremst á því að mínu mati að aðilum hefur verið gert mögulegt að fara út úr greininni og skuldsetja sjávarútveginn fyrir tugi milljarða. Fólk sættir sig ekki við að horfa upp á slík vinnubrögð. Talið er að hér séu yfir 30 milljarðar bara á allra síðustu missirum sem greinin hefur verið skuldsett fyrir. Reiði þjóðarinnar beinist að þessum aðferðum til að ná sér í skyndingu í auðæfi sem enginn hefur verið skrifaður fyrir og enginn á rétt á nema þjóðin sjálf. Þetta finnst mér vera grundvallaratriði og menn verða að líta á.

Vegna þessarar stöðu lagði Vinstri hreyfingin -- grænt framboð fram þáltill. síðasta vor rétt eftir kosningar um breytingar á lögum til að eiga möguleika á að gera kvótagróðann upptækan, þ.e. þá peninga sem væru að fara út úr greininni. En það er náttúrlega eins og með aðrar tillögur sem hafa komið fram frá stjórnarandstöðu, á þær er ekki hlustað.

Nauðsyn á breytingu á fiskveiðistjórnarkerfinu er einnig mjög mikið byggðamál. Þjóðin stendur frammi fyrir því að hér eiga sér stað þjóðflutningar sem eru ekki í líkingu við neitt sem við getum borið okkur saman við annars staðar á neinum tíma nema á stríðstímum. Hliðarverkanirnar við þetta fiskveiðistjórnarkerfi og þjóðflutningana eru gríðarlegar --- milljarðakostnaður vegna flutninga fólks. Eignir verða verðlausar o.s.frv.

Varðandi umræður um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfi söknum við þess hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði að umræða dagsins í öllum löndum í kringum okkur nær ekki hingað inn, það er umræðan um umhverfismál og umræðan um vistvænar veiðar. Breyta um kúrs, skoða orkumálin, skoða veiðarfærin. Af hverju í ósköpunum er þessi umræða ekki inni í dæminu einnig þegar við erum að tala um þessi mál? Við erum nefnilega svo oft í þeirri stöðu að vera í framkvæmdum eða í hlaupum undan vandamálum og notum okkur aðferðina sem Kanarnir kalla ,,squeeking wheel``, þ.e. hjólið er smurt þegar farið er að ískra í því. Það er ekki góð stjórnsýsla. Ég vil árétta að í þessi mál verður að fara í þessum dúr.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð, ásamt þingfulltrúum Frjálslynda flokksins lagði fram tillögu um grundvöll nýrrar fiskveiðistjórnar 14. febr. 2000. Þar náðum við saman Vinstri hreyfingin -- grænt framboð og Frjálslyndi flokkurinn um grunninn að þeirri vinnu sem þarf að fara fram til þess að finna sátt um nýtt fiskveiðistjórnarkerfi. Merkilegt er að þessir tveir flokkar skuli hafa náð svo góðri samvinnu en þegar upp var staðið sendum við frá okkur sameiginlega þáltill. með viðhengi um sjávarútvegsstefnu beggja flokka. Þetta tel ég ákaflega mikilvægt miðað við stöðuna í dag vegna þess að nauðsynlegt er vegna vinnunnar við endurskoðun á stjórn fiskveiða að klárt sé hvert flokkarnir vilja stefna og að sá tillögugrundvöllur sem semja þarf um sé til á prenti. Það er grundvallaratriði að mínu mati og er til fyrirmyndar varðandi hvernig vinna skal að þessum málum.

Í mínum huga á þessum grunni till. til þál. um grundvöll nýrrar fiskveiðistjórnar held ég að það sé mjög mikilvægt að vinnu endurskoðunarnefndar um stjórn fiskveiða verði hraðað og leitað verði sátta eftir fremsta megni milli þeirra stjórnmálaafla sem eiga sæti á þinginu. Auðvitað er það svoleiðis að menn hafa ekki afl til að ráða einir, hvorki Sjálfstfl. né Framsókn né Samfylking né Frjálslyndir né Vinstri hreyfingin -- grænt framboð og það er því augljóst að hér verður að nást málamiðlun.

Við gerðum okkur grein fyrir því í aðdraganda málsins um Vatneyrardóm að það þyrfti að grípa til bráðabirgðaaðgerða varðandi stjórn fiskveiða, hvernig svo sem Vatneyrardómurinn færi sem féll 6. apríl. Þess vegna lagði Vinstri hreyfingin -- grænt framboð, ekki þingflokkurinn, heldur ég, Árni Steinar Jóhannsson, sem fulltrúi í sjútvn. ásamt aðalflutningsmanni, Guðjóni A. Kristjánssyni, Frjálslynda flokknum, fram frv. til laga um breytingar á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Þetta frv. til laga um breytingar á lögum var lagt fram 8. mars á þessu herrans ári 2000.

Svo skemmtilega vill til að í þessu tilfelli sá ríkisstjórnin sér þann leik vænstan nánast að prenta upp þessa tillögu til frv. til laga og þó ekki að öllu leyti eins og við vildum hafa það en frv. til laga frá ríkisstjórn Íslands kom fram mjög í sama dúr tveim vikum seinna eftir að við lögðum fram okkar frv. Með því að lýsa þessu á þennan hátt er ég að gera þingheimi grein fyrir því að við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði, og ég tel að það séu full heilindi hjá Frjálslynda flokknum, við erum tilbúin til þess að ganga til verka til þess að leysa þau mál, finna grunn að nýju fiskveiðistjórnarkerfi sem sátt verður um í samfélaginu. Það er grundvallaratriði og verður að nást. Við viljum ganga fram til þessara verka á ábyrgan hátt og lýsum okkur tilbúna til þess á grunni þeirra till. sem höfum lagt hér fram.

Hjá stjórnarandstöðuflokknum Samfylkingunni hafa komið fram tillögur um auðlindagjald. Ég vil leggja áherslu á að þessi grundvallarstarfsemi þjóðarinnar, grundvallaratvinnustarfsemi þjóðarinnar, við megum ekki standa þannig að málum að um einhvers konar kúvendingar verði að ræða og lendingin sé ekki klár. Það er grundvallaratriði í mínum huga og mér er mjög illa við að taka upp aðferðir að hætti krata. Við höfum reynslu af því síðustu 15--20 árin, hvort sem það er varðandi húsnæðiskerfi eða vísitölubindingar eða afnám vísitölubindingar sem hafa haft gríðarlegar afleiðingar út um allt samfélagið og sett þúsundir manna á vonarvöl vegna þess að þar var breytt um kerfi á svo skömmum tíma með svo lítilli aðlögun að það má segja að í raun og veru hafi allt farið í rúst.

Eins og fram hefur komið hjá Samfylkingu er mjög mikilvægt að auðlindagjald sé sett fram í því samhengi að það verður að vera grundvallaratriði í þessu samfélagi, vegna þess að það er ekki bara fiskur sem er auðlind, vatn er auðlind, alls konar efni eru auðlind eins og fram hefur komið. Ég tók eftir því í ræðu hv. þm. Jóhanns Ársælssonar fyrr í dag að hann talaði um að það væri góðra gjalda vert að ríkisstjórnin hefði komið fram með frv. til laga um eignarhald ríkisins á hafsbotninum. Ég fagnaði því frv. t.d. en um það gilda bara allt önnur lögmál, þar var frítt spil. Þar var ekki áratugahefð fyrir landnýtingu eða auðlindanýtingu. Við stöndum frammi fyrir því að það er árhundraðahefð fyrir landnýtingu og auðlindanýtingu eftir búsetu í landinu og það er grundvallaratriði. Því er mjög mikilvægt að menn taki ekki út úr eina grein og ætli að fara að taka af henni auðlindagjald nema því aðeins að það verði gert á samræmdan hátt út um samfélagið allt. Þá verði það gert gagnvart öllum þeim auðlindum sem við erum að tala um með einhvers konar prinsipplausn í því sambandi.

Virðulegi forseti. Tími minn er senn á enda en ég vil árétta að inn í þá umræðu sem hér þarf að fara fram og inn í þá tillögugerð sem þarf að fara fram um endurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu verður að koma ný hugsun hvað varðar umhverfismál. Það þarf að efla smábáta- og bátaútgerð á nýjan leik, láta slíka útgerð njóta aukins forgangs á grunnmiðum næst landinu og hvetja um leið til notkunar vistvænna veiðarfæra og orkusparnaðar og umhverfisvænnar þróunar í greininni. Kostir útgerðarinnar eru einnig þeir að oft er um að ræða einyrkja og fjölskyldufyrirtæki. Þannig viðhelst fjölbreytni í greininni og nýliðun á sér frekar stað. Gera á tilraun með fyrirkomulag þar sem mönnum gefst kostur á að sanna getu sína sem dugandi veiðimenn á smábátum yfir sumartímann og öðlast þannig smátt og smátt tiltekna reynslu innan fiskveiðistjórnarkerfisins.

Virðulegi forseti. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð mun með öllu afli sínu beita sér fyrir því að nýtt fiskveiðistjórnarkerfi verði sveigt til betri vegar á grunni vistvænnar veiðimennsku og til hagsbóta fyrir byggðir landsins og þar með þjóðina alla.