Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 26. apríl 2000, kl. 15:05:53 (6666)

2000-04-26 15:05:53# 125. lþ. 102.94 fundur 463#B stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 125. lþ.

[15:05]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Eftir dóm Hæstaréttar er kallað eftir pólitískum svörum. Hver eru viðbrögð stjórnmálaflokkanna? Hvaða svör eiga þeir við hinum áleitnu spurningum um réttlátara kerfi, kerfi sem ekki mismunar?

Eini þingflokkurinn sem hefur lagt fram heildstæða tillögu um nýjar úthlutunarreglur sem byggja á jafnræði þegnanna er þingflokkur Samfylkingarinnar, og gerði hv. þm. Jóhann Ársælsson grein fyrir tillögum okkar hér fyrr í umræðunni.

Þáltill. vinstri grænna og frjálslyndra um nýja nefnd á forræði ríkisstjórnarinnar eða könnun á hinu og þessu er létt innlegg í þá umræðu.

En ríkisstjórninni, herra forseti, hefur lengi tekist að ýta því á undan sér að takast á við helsta ágreiningsefnið sem leitt hefur af lögunum um stjórn fiskveiða. Til að komast hjá umræðu, til að komast hjá því að kjarni málsins kæmist í brennipunkt umræðunnar, var sáttum lofað. En sáttum um hvað? Það hefur ekki enn komið fram en með því að skilgreina ekki og drepa málum á dreif virðist um flókið mál að ræða. En er það svo? Er þessi deila svo flókin að ríkisstjórn með stóran þingmeirihluta treysti sér hvorki til að lifa við hana né takast á við hana? Eða er bara um venjulega hagsmunagæslu að ræða? Og öll meðul notuð til að komast hjá því að raska högum hinna verðugu aumingja ríkisstjórnarinnar, þeirra sem gjafakvótakerfið verndar svo lengi sem ríkisstjórnin verndar gjafakvótakerfið. Breyting á stjórnarskrá hefur jafnvel verið nefnd ef það mætti verja óbreytt ástand. Nei, ágreiningsefnið er ekkert flókið. Deilan snýst ekki um hvort takmarka þurfi veiðar eða um aflamarkskerfið sem slíkt og þótt menn tali um kvótakerfið, snýst þessi deila í einfaldleik sínum aðeins um það hvernig þeir eru valdir sem sækja mega sjóinn og hvernig arðinum af auðlindinni er skipt.

Í kerfi ríkisstjórnarinnar eru það í grófum dráttum þeir sem leiða réttinn til útgerðar skipa á árunum 1981--1983 sem fá veiðiréttinum úthlutað árlega af hálfu hins opinbera, ókeypis, og kerfið því kallað gjafakvótakerfi því þeir mega síðan ráða hvort þeir veiða, leigja, eða selja þá kvóta sem í hlut þeirra koma. Lögunum hefur verið breytt lítillega í gegnum tíðina til að plástra eða undir þeim formerkjum að verið væri að mæta gagnrýni almennings. Ekkert hefur þó dugað því aldrei hefur verið hróflað við meginágreiningsefninu, þ.e. að örfáir sérvaldir aðilar fái ókeypis úthlutun meðan aðrir þurfi að borga.

Með því að loka miðunum og skammta aðganginn með fyrrgreindum hætti skóp ríkisvaldið ákveðnum aðilum aðstöðu til að auðgast langt umfram aðra. Ekki með því að þeir veiddu eða nýttu miðin á hefðbundinn hátt, heldur með því að afhenda þeim einokunarrétt á að selja eða leigja aðgang að miðunum. Vegna þess réttar hafa þeir verið kallaðir sægreifar.

Herra forseti. Jafnaðarmenn eru málsvarar almannahagsmuna gegn sérhagsmunum. Það á við um allar auðlindir eins og hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson vissi ef hv. þm. fylgdist með umræðunni í stað sleggjudóma. Jafnaðarmenn hafa barist fyrir jöfnum tækifærum allra. Þess vegna leggjum við til að kvótinn verði losaður frá núverandi handhöfum á tilteknu árabili og boðinn út á markaði þar sem allir eiga jafnan rétt. Hvaða önnur leið er fær þegar um er að ræða að deila út takmörkuðum gæðum eins og þeim að fá að nýta nytjastofnana á Íslandsmiðum, sameign þjóðarinnar samkvæmt lögum? Því þurfa þeir að svara sem nú biðja um fleiri nefndir eða styðja að sumir greiði fyrir aðganginn en aðrir ekki. Um slíkt kerfi verður hins vegar aldrei friður, aldrei sú sátt sem þarf til að sjávarútvegurinn fái búið við öryggi og jafnvægi í framtíðinni og geti nýtt þau tækifæri sem bjóðast til frekari vaxtar og þróunar.

Herra forseti. Vinnufriður þarf að fást í þessari mikilvægu atvinnugrein, vinnufriður til þess að greinin geti nýtt sér þá möguleika sem hún á til að breytast úr grein sem fyrst og fremst vinnur að auðlindanýtingu í þekkingargrein og útflutningsgrein á fleiri sviðum en þeim sem við þekkjum í dag. Í því er framtíð hennar, framtíð landsbyggðarinnar og framtíð okkar allra falin.