Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 26. apríl 2000, kl. 15:21:27 (6669)

2000-04-26 15:21:27# 125. lþ. 102.94 fundur 463#B stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), GAK
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 125. lþ.

[15:21]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Sjálfstfl. boðaði fyrir ári síðan að nauðsynlegt væri að breyta stjórnkerfi fiskveiða, kvótabraskskerfinu sem 75% þjóðarinnar hafna í skoðanakönnunum. Breytingin átti að vera til að ná sáttum um þetta mikla deilumál sem valdið hefur illdeilum í nærri tvo áratugi. Sumir talsmenn Framsfl., m.a. varafomaður sjútvn., hafa hins vegar opnað á að Alþingi beri að lagfæra þá ágalla sem séu verulegir á kvótabraskkerfinu og hafa valdið byggðaröskun í mörgum sjávarbyggðum. Ég heyrði hann endurtaka þær áherslur sínar hér áðan og er það ánægjulegt. Í ljósi þessa ágreinings stjórnarflokkanna og kosningaloforða þeirra sl. vor er merkilegt að skoða tvær yfirlýsingar, frá hæstv. forsrh. annars vegar og hæstv. sjútvrh. hins vegar, í kjölfar hæstaréttardóms í Vatneyrarmálinu. Hæstv. forsrh. sagði í Morgunblaðinu 7. apríl sl., með leyfi forseta:

,,Ef Vatneyrardómur hefði verið staðfestur hefði öllu verið kollvarpað. Þá hefði löggjafinn ekkert vitað hvernig hann stóð. Menn hefðu þá verið í óvissu í einhverja mánuði og sjálfsagt endað með því að gera breytingar á stjórnarskránni, sem hefði kostað tvennar kosningar og stórkostlega óvissu í eitt til tvö ár með tilheyrandi hruni.``

Valdamesti stjórnmálamaður landsins, sjálfur forsrh. segir enn á ný að öllu hefði verið kollvarpað og hefði sjálfsagt endað með því að gera breytingar á stjórnarskránni, sem hefði einfaldlega þýtt afnám jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar sem er undirstaða lýðræðis í landinu.

Það vantar greinilega ekki vilja á þeim bænum, stjórnarheimilinu, þegar bæði utanrrh., í kjölfar dóms í Valdimarsmáli í des. 1998, og nú forsrh. hafa látið þess orð sér um munn fara. Tvennar alþingiskosningar hefði þurft til að þóknast fámennisvaldi stórsægreifanna og fjármálaaflanna ef einkakvótaúthlutunarkerfið hefði fallið. Ef dómsniðurstaða í Vatneyrarmáli hefði farið á annan veg skyldi öllu til kostað með því að breyta stjórnarskránni og efna til kosninga. Hvar er nú sáttatalið sem blekkti þjóðina í alþingiskosningum fyrir ári?

Síðan langar mig að minnast á yfirlýsingu hæstv. sjútvrh. í DV mánudaginn 10. apríl sl. Þar kemur fram að ráðherra er, fjórum dögum eftir Vatneyrardóm í Hæstarétti, búinn að bæta við einu ári með óbreyttu kerfi og telur nú að ný lög geti ekki tekið gildi fyrr en 1. sept. árið 2002, þ.e. nýendurskoðuð lög.

Þar með liggur fyrir að lögin verða að mestu óbreytt og enginn veit í raun, sérstaklega með tilliti til orða hæstv. forsrh., hvort nokkur sátt verður gerð í málinu. Er það svo að allur málatilbúnaður ríkisstjórnarinnar sé hreinn látbragðsleikur í þessu stóra deilumáli um kvótabraskskerfið? Halda stjórnarliðar að það verði sátt um óbreytt kvótabrask og auðsöfnun fárra? Nei, það verður aldrei.

Nú verður fólkið í landinu að tala sjálfstætt og opið fyrir vilja sínum og sýna í verki að 75% landsmanna vilja út úr kvótabraskskerfinu. Skoðanakannanir sýna þessa afstöðu landsmanna. Það dugar ekki lengur eitt og sér að hafa skoðun sem fólk þorir bara að tjá í leynilegri skoðanakönnun. Nú þurfa verkin að tala. Fólk verður að þora að segja sig úr ríkisstjórnarflokkunum og styðja þá sem segja afdráttarlaust að framtíðin fyrir Ísland sé ekki land stórsægreifanna og lánleysi leiguliðanna sem kerfið gerði eignalausa.

Nú slær leiguverð þorskheimilda öll fyrri met og 127 krónur eru greiddar fyrir óveiddan fisk í sjó. Sægreifarnir hagnast á leigubraskinu sem aldrei fyrr. Vistarbandið sáluga er dregið að húni í stefnu ríkisstjórnar í kvótabraski og stórútgerðarmennirnir einoka nú leiguliðana sem aldrei fyrr. Þeir kvótalitlu geta ekki lifað af við þessi skilyrði og hvað þá heldur ef endurskoðun laganna á að taka tvö ár.

Ég verð að segja hreint út að ég skil ekki það lánleysi útgerðarmanna að þekkja ekki sinn vitjunartíma og bjóða fram sátt við þjóðina með því að afsala sér með öllu sölu og leigurétti á fiskinum óveiddum í sjónum og leggja sjálfir til að sá réttur sé þjóðarinnar. Í staðinn héldi útgerðin veiði- og nýtingarrétti og tekjur útgerðarinnar yrðu aðeins af veiðum en ekki leigu- og sölutekjur af óveiddum fiski í sjónum. Lánleysi stórsægreifanna virðist meira en orð fá lýst. Þeir skynja ekki sinn vitjunartíma, að nú skuli þeir leita sátta. Þess í stað vilja þeir halda áfram kvótabraskinu í græðgi sinni og gera aðra að leiguliðum sínum. Þvergirðingsháttur þeirra er með ólíkindum.

Sjútvrh. sagði hér fyrr í umræðum að allir líffræðilegir þættir fiskstofna væru vel varðir. Ég verð nú að leyfa mér að draga þetta í efa. Síðustu aðgerðir ráðherrans voru að takmarka karfaveiðar, réttara sagt að takmarka ekki úthafskarfaveiðar. Skipstjórnarmenn eru mjög uggandi út af karfaveiðunum og ráðherrann hlýtur að vita það ella er hann ekki í sambandi við neitt af því fólki sem sjóinn stundar.