Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 26. apríl 2000, kl. 15:42:12 (6673)

2000-04-26 15:42:12# 125. lþ. 102.94 fundur 463#B stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 125. lþ.

[15:42]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Sverri Hermannssyni málshefjanda fyrir að hefja umræðu um þetta mál utan dagskrár á Alþingi.

Ég tel hins vegar að mörgu leyti mjög gott að það dómsmál sem varð kveikjan að málinu skuli vera að baki og þá fyrst og fremst vegna þess að ríkisstjórnin getur ekki lengur skellt skollaeyrum við kröfum um að tekið verði á fiskveiðistjórnarkerfinu af alvöru, kerfi sem djúp óánægja ríkir um á meðal landsmanna enda er kerfið gallað á marga lund og mjög ranglátt.

Nefnd sem hefur verið skipuð í þessu skyni hefur verið að störfum í vetur en að vissu leyti hefur hún fríhjólað og viðkvæðið jafnan verið að menn bíði dómsniðurstaðna. Nú eru þær fyrir hendi og þessar niðurstöður eru ekki neikvæðar um allt, síður en svo. Þær staðfesta sameign þjóðarinnar á auðæfum hafsins og að yfirvöld séu ekki bótaskyld þótt kvótinn sé tekinn úr hendi þeirra sem fengið hafa hann til sín. Þetta er grundvallaratriði og mjög þýðingarmikið.

Á þessum forsendum þarf Alþingi að taka á fiskveiðistjórnarmálunum. Þá er eðlilegt að spurt sé: Hvað vilja menn gera? Hvað viljum við gera, hvað vill Vinstri hreyfingin -- grænt framboð gera?

Í fyrsta lagi teljum við kerfið, eins og það er rekið núna, vera svo gallað að það beri að leggja til hliðar. Þess vegna höfum við verið talsmenn þess að inn í fiskveiðistjórnarlögin sé sett eins konar sólarlagsákvæði sem hafi það í för með sér að innan tiltekins tíma renni þetta kerfi skeið sitt á enda. En við viljum aðgerðir engu að síður strax. Hverjar eru þær? Við viljum að þegar í stað verði sett í lög bann við leigu á kvóta.

Fyrr við umræðuna var rætt um svonefnt veiðileyfagjald. Ég hef verið í hópi þeirra sem hafa verið tilbúnir að skoða slíkar hugmyndir, ekki sem tekjuöflun heldur sem tæki til fiskveiðistjórnar. Ég hef jafnframt hlustað á röksemdir þeirra sem hafa varað við því að slík gjaldtaka muni koma í koll þeim útgerðum sem síst skyldi og þeim byggðarlögum sem síst skyldi og hraða þeirri þróun sem við höfum orðið vitni á undanförnum mánuðum og missirum, að færa heimildirnar til hinna sterku aðila. Ég hef hlustað á þessi sjónarmið.

[15:45]

Vandinn er eftir sem áður sá að við búum við veiðileyfagjald. Við búum við veiðileyfagjald núna. Það eru hins vegar einkaaðilar, einstakar útgerðir og aðilar sem hafa komist yfir kvóta sem innheimta þetta gjald í eigin vasa án þess að samfélagið njóti góðs af því. Þess vegna leggur Vinstri hreyfingin -- grænt framboð áherslu á að þessu ljúki og að sett verði í lög ákvæði sem banna leigu á kvóta.

Og við viljum ganga lengra. Við erum andvíg hvers kyns braski með kvótann. Við höfum litið á kvótakerfið sem fiskveiðistjórnarkerfi, ekki braskkerfi, ekki verslunarkerfi, ekki kerfi til að hagnast á sem slíku. Á því viljum við taka og þess vegna leggjum við áherslu á að kerfið verði látið renna sitt skeið á enda.

Við höfum lagt áherslu í reynd á tvo meginþætti í okkar stefnu. Í fyrsta lagi byggðastefnu, byggðamálin, og í öðru lagi hinn vistvæna þátt. Á hann leggjum við ríka áherslu. Það gerðum við í okkar stefnuskrá á sínum tíma og henni höfum við fylgt eftir í þingsályktunartillögum og frv. sem við höfum flutt hér á Alþingi. Og það er rangt sem fram kom hér áðan að enginn annar flokkur en Samfylkingin hefði flutt slíkar tillögur. Það er rangt. Það hefur Vinstri hreyfingin -- grænt framboð gert. Hér hafa verið tíundaðar tillögur sem við höfum lagt fram ásamt Frjálslynda flokknum um aðgerðir sem beri að grípa til þegar í stað og hvernig við viljum haga undirbúningi að þeirri vinnu sem nú stendur fyrir dyrum til uppstokkunar á þessu kerfi.

Við viljum efla smábátaflotann og við viljum byggðatengja kvótann. Lengri er tími minn ekki og læt ég máli mínu lokið.