Svör við fyrirspurnum og viðvera ráðherra

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 13:41:12 (6682)

2000-04-27 13:41:12# 125. lþ. 103.97 fundur 469#B svör við fyrirspurnum og viðvera ráðherra# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[13:41]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Það eru mjög alvarlegar upplýsingar sem koma fram hjá hv. 13. þm. Reykv., Ögmundi Jónassyni. Af því tilefni að hann kemur hér og lýsir því að hann fái illa unnið svar, hroðvirknislegt og eins og hann orðaði það sjálfur út í hött, þá vil ég vekja athygli á því að skrifleg svör sem þingmenn hafa beðið um koma seint og illa og skýrslur sem þingmenn biðja um taka óheyrilegan tíma. Þingmenn Samfylkingarinnar fóru yfir það á þingflokksfundi í gær að nokkuð er um að skrifleg svör við fyrirspurnum sem eru orðnar mjög gamlar hafa ekki borist og nokkrar skýrslur hafa verið mjög lengi í vinnslu og við erum komin á lokadaga þingsins. Skýrslur, fyrirspurnir og svör við því sem kallað er eftir eru mjög þýðingarmiklir þættir í störfum Alþingis. Þarna verða upplýsingar oft grundvöllur umræðu og grundvöllur þingmála. Upplýsingar leiða fram ágalla í stjórnsýslu sem mikilvægt er að leiðrétta og þingmenn fá samanburð af ýmsu tagi sem oftar en ekki hefur orðið til þess að umræða sem hefur verið vakin á grundvelli slíkra fyrirspurna eða skýrslna hefur orðið til þess að ráðherrar hafa sjálfir komið með leiðréttingar inn í þingið.

En það er alls ekki nógu gott ef svörin koma seint, skýrslurnar unnar hægt og illa, og þegar svörin koma eru þau illa ígrunduð, hroðvirknisleg og út í hött eins og hér var orðað. Þessu verður að breyta, herra forseti.