Svör við fyrirspurnum og viðvera ráðherra

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 13:43:18 (6683)

2000-04-27 13:43:18# 125. lþ. 103.97 fundur 469#B svör við fyrirspurnum og viðvera ráðherra# (aths. um störf þingsins), SighB
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[13:43]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Við erum á síðustu dögum þingsins og það eru fjölmörg mál sem fyrir þinginu liggja, mörg af þeim stór og mikil. Athygli vekur að ráðherrarnir eru eiginlega allir fjarverandi. Það er aðeins einn hæstv. ráðherra viðstaddur þingfund í upphafi þessa fundar. Ég vek athygli á þessu vegna þeirrar athugasemdar sem hv. þm. Ögmundur Jónasson gerði. Það er enginn ráðherra viðstaddur til að geta svarað og tekið við slíkri gagnrýni.

Ég vek athygli á því að í gær var til umræðu mjög umdeilt frv. um þjóðlendur. Þar kom fram mjög hörð gagnrýni á nefnd sem fjmrh. hefur skipað til að undirbúa kröfur ríkisins á hendur bændum. Það kom m.a. mjög hörð gagnrýni frá landbrh. á störf þeirrar nefndar sem er á ábyrgð fjmrh. og fjmrh. var víðs fjarri og engum spurningum var hægt að beina til hans.

Það eru eindregin tilmæli mín til hæstv. forseta að hann hvetji ráðherra til þess á síðustu dögum þingsins að mæta til þingfunda, a.m.k. vera viðstaddir í upphafi fundar ef eitthvað sérstakt mál kemur upp á eins og gerðist hér áðan sem krefst þess að ráðherrar séu viðstaddir.