Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 14:05:16 (6691)

2000-04-27 14:05:16# 125. lþ. 103.9 fundur 460. mál: #A stjórn fiskveiða# (gildistími ákvæða um veiðar smábáta) frv. 93/2000, Frsm. meiri hluta EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[14:05]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það mál sem hv. 8. þm. Reykn. spyr um var eitt það mál sem við ræddum ótvírætt mest í nefnd okkar varðandi þessa breytingu. Hv. þm. vakti athygli á stöðu þeirra sem hafa gripið til fjárhagslegra skuldbindinga á grundvelli gildandi laga í ljósi þess að svokallað krókaaflamark ætti að taka gildi 1. september nk. og að þau lög gerðu ráð fyrir því að menn þyrftu ekki að kaupa sér úreldingu til að komast inn í þann veiðiflokk. Það er ljóst mál að ýmsir í þeirri stöðu hefðu komist í mikil vandræði ef frv. hefði verið samþykkt óbreytt.

Við skoðuðum þetta mál mjög rækilega. Mjög víða var leitað eftir viðbrögðum og áliti á því hvernig hægt væri að bregðast við þessu þannig að sanngjarnt væri fyrir alla aðila. Niðurstaða meiri hluta nefndarinnar varð sú að eðlilegast væri að opna leiðina fyrir þessa aðila til að fara inn í hið svokallaða krókaaflamark sem hefur það í för með sér að menn hafa ekki aðeins aflahámark í þorski heldur líka í öðrum tegundum. Gert er ráð fyrir því að krókaaflamarkið heimili mönnum veiðar að tilteknu marki í þorski, ýsu, ufsa og steinbít og jafnframt að menn geti þá farið inn í þetta krókaaflamark án þess að kaupa sér úreldingu. Þeir eru því í raun í þeirri stöðu sem þeir voru í þegar þeir tóku fjárhagslegar skuldbindingar sínar þannig að ég hygg að fyrir þeim vanda sé séð sem hv. þm. vekur réttilega athygli á að menn hefðu lent í. Það hefði auðvitað verið röskun og það væri inngrip í ákvarðanir sem menn tóku í góðri trú í ljósi lagasetningar Alþingis. Þess vegna er það eina sem hægt er að gera að búa til umhverfi sem færir þessa aðila á sama stað og þeir voru á þegar þeir tóku ákvarðanir sínar um fjárhagslegar skuldbindingar.