Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 15:13:56 (6697)

2000-04-27 15:13:56# 125. lþ. 103.9 fundur 460. mál: #A stjórn fiskveiða# (gildistími ákvæða um veiðar smábáta) frv. 93/2000, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[15:13]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef það er skoðun þingmannsins eftir ræðu mína og upptalningu að Frjálslyndi flokkurinn hafi ekki lagt fram málefnaleg rök fyrir því hvernig breyta mætti stjórnkerfi fiskveiða, get ég ekkert að því gert. Þá er þingmaðurinn bara á þeirri skoðun. Ég er hins vegar eindregið á þeirri skoðun, hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, að Frjálslyndi flokkurinn hafi lagt fram mjög skýra stefnumótun um það hvernig sé hægt að fara út úr þessu kerfi. Sú framsetning byggði alfarið á því að við værum að vinna okkur út frá lögunum eins og þau eru í dag því að í greinargerð okkar sagði m.a. að gengi Vatneyrardómur í þá veru að núverandi lög og 7. gr. laganna stæðust ekki þá væri ekkert um það að ræða að fara nákvæmlega þá leið sem Frjálslyndi flokkurinn hafði lagt til vegna þess að til þess hefðum við ekki tíma og þá bæri sjútvrh. að bregðast öðruvísi við stjórn fiskveiða eins og hann hefur heimildir til í lögum um veiðar í íslenskri landhelgi og m.a. lögum um umgengni við íslenska nytjastofna. Auk þess hefur ráðherrann fleiri heimildir til þess að stýra fiskveiðum. Allt þetta kom fram í greinargerð okkar. Ég get ekkert gert að því þótt þingmaðurinn sé enn þeirrar skoðunar, þrátt fyrir upptalningu mína hér og rökræðu um þetta mál og greinargerð sem við höfum lagt fram ásamt frumvörpum, að málatilbúnaður okkar sé slakur. Það verður þá bara að vera hennar skoðun.