Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 15:17:03 (6699)

2000-04-27 15:17:03# 125. lþ. 103.9 fundur 460. mál: #A stjórn fiskveiða# (gildistími ákvæða um veiðar smábáta) frv. 93/2000, Frsm. minni hluta JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[15:17]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. sagði í ræðu sinni frá því að hann hefði haft samband við okkur í vetur um stefnumótun í sjávarútvegsmálum og við hefðum ekki náð þar saman um málið. Það er alveg rétt. Það er vegna þess að Samfylkingin vildi móta stefnu út frá jafnræðisgrundvelli í heildina. Ég vil bara segja að margt af því sem Frjálslyndi flokkurinn hefur staðið fyrir í umræðu hefur verið til hins mesta gagns og ágætistillögur. En þær heildarhugmyndir sem þarna eru á ferðinni hjá þeim flokki hugnast mér ekki fyllilega. Það varð til þess að við náðum ekki saman um þann grundvöll sem við teljum að þurfi að vera, þ.e. að það þurfi að vera jafnræði til nýtingar á auðlindinni og í þessum atvinnuvegi almennt.

Ég vil hins vegar vekja athygli á því að þáltill. vinstri grænna og frjálslyndra segir ekkert um hvort þeir eru sammála um hvað eigi að gera í þessu málum. Þarna fylgir bara stefnuskrá vinstri grænna með eins og hún var lögð fram fyrir kosningar. Út úr henni er ekki hægt að lesa hvað vinstri grænir vilja gera af því sem frjálslyndir segjast vilja gera í yfirlýsingu sinni. Það er svo langt frá því og þau orð sem vinstri grænir hafa látið falla í vetur um útleigu veiðiheimilda og annað slíkt benda til þess að þeir séu fullkomlega andstæðir frjálslyndum í því hvað varðar þann hluta tillagna frjálslyndra sem liggja fyrir í greinargerð þeirra. Í því plaggi sem liggur fyrir er ekki nokkur leið að átta sig á því að þarna fari saman tveir þingflokkar sem vilji stefna samhliða að sama markinu. Lái mér hver sem vill þó ég lesi þetta út úr því.