Endurmat á verðmæti Landssímans og ríkisstuðningur

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 15:40:56 (6705)

2000-04-27 15:40:56# 125. lþ. 103.94 fundur 467#B endurmat á verðmæti Landssímans og ríkisstuðningur# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[15:40]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Svo vill til um þessar mundir að í vöggu frjálsrar samkeppni, Bandaríkjum Norður-Ameríku, kvað hæstiréttur nýlega upp þann dóm að stærsta tölvufyrirtæki heims, einkafyrirtækið Microsoft, væri orðið of stórt og skyldi því skipt upp í a.m.k. tvo hluta.

Fyrir þessu eru auðvitað rök. Of stórt og ráðandi fyrirtæki er einfaldlega talið hafa skaðleg áhrif á þróun markaðar og beinlínis geta unnið gegn hagsmunum neytenda til lengri tíma litið. Fákeppni er einfaldlega talin geta drepið í dróma alla eðlilega þróun og skapað hinu drottnandi fyrirtæki hættulega einokunaraðstöðu er bitni endanlega á veskjum neytenda. Meðal annars þess vegna hafa ýmir talið ríkiseinokun skömminni skárri en einkaeinokun.

Herra forseti. Landssíminn er ráðandi á íslenskum fjarskiptamarkaði og drottnar yfir nýjum fyrirtækjum sem reyna að hasla sér völl á þessu sviði. Verði hann seldur í einu lagi er einfaldlega verið að koma á Microsoft-ástandi á Íslandi. Ég vara við því.

Tækni á fjarskiptamarkaði fleygir mjög hratt fram. Þess vegna spretta upp ný fyrirtæki. Því má segja að að sumu leyti sé rökrétt að ríkið dragi sig út úr almennum rekstri fjarskipta. Hins vegar fer sá rekstur fram að mestu um grunnnet Landssímans, þ.e. dreifikerfið. Ég hef enn ekki séð rök fyrir öðru en því að ríkið eigi áfram netið og leyfi fyrirtækjum að keppa þar og veita landsmönnum öllum sem besta þjónustu rétt eins og á þjóðvegum landsmanna. Þannig tryggjum við jafnan aðgang allra landsmanna að fjarskiptum. Þannig tryggjum við áframhaldandi eðlilega þróun á sviði fjarskipta og þannig komum við í veg fyrir að hér á landi skapist Microsoft-ástand í fjarskiptum.