Endurmat á verðmæti Landssímans og ríkisstuðningur

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 15:43:11 (6706)

2000-04-27 15:43:11# 125. lþ. 103.94 fundur 467#B endurmat á verðmæti Landssímans og ríkisstuðningur# (umræður utan dagskrár), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[15:43]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Hvað eru 3,8 milljarðar milli vina? Jú, vissulega upphæð sem má nota. Ríkissjóður gæti t.d. byggt einn barnaspítala upp á milljarð og lokið í hvelli við tvöföldun Reykjanesbrautar upp á 2,2 og samt átt afgang eftir til annarra góðra hluta.

En eru einhvers staðar 3,8 milljarðar á lausu, einhvers staðar í vindinum? Ó jú, það er einmitt sú tala sem starfshópur samgrh. taldi að Landssíminn væri vanmetinn um. Það vantaði upp á litla fjóra milljarða eða svo.

Herra forseti. Þessi tala gæti verið hærri. Samkeppnisstofnun vakti athygli á þessu vanmati sl. sumar og var með öllu hærri tölur, meira en tíu milljarða. Þá átti ég orðræðu við núv. samgrh. um þau mál. Hann gerði lítið úr því þá, taldi þetta fræðilegt úrlausnarefni. Hann dreif þó hins vegar í því að fá menn til verka til að meta fyrirtækið og hægt og bítandi hækkaði matið, nú síðast um 3,8 milljarða. Hvað hækkar það mikið næst?

Augljóslega eru lausatök á þessum málum af hálfu ríkisstjórnar og hæstv. samgrh. eins og greinilega kom fram í vanmáttugri ræðu hans áðan. Honum hefur ekki tekist að fá virka samkeppni til að njóta sín. Hann hefur þess í stað farið í föt fyrirrennara síns og gert Samkeppnisstofnun að sérstökum óvini lífs síns, og neitað staðreyndum.

Ef selja á Landssímann, eins og ríkisstjórnin ætlar, verða eftirfarandi atriði að vera í lagi:

Í fyrsta lagi að samkeppni verði tryggð og því forðað að einkaeinokun ríki í markaði í kjölfar sölunnar, sem er sýnu verri ern ríkiseinokun.

Dreifikerfið verði áfram í almannaeigu til að tryggja virka samkeppni og lægra verð.

Í þriðja lagi að rétt verð, raunverð, fáist fyrir Landssímann, en hann ekki settur á brunaútsölu til vildarvina í flokki samgrh. eins og ítrekað vanmat á verðmæti fyrirtækisins gefur til kynna. 3,8 milljarðar, hvað þá hærri upphæð, skipta nefnilega máli og þeim á ekki að skáka á milli vina.