Endurmat á verðmæti Landssímans og ríkisstuðningur

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 15:51:14 (6710)

2000-04-27 15:51:14# 125. lþ. 103.94 fundur 467#B endurmat á verðmæti Landssímans og ríkisstuðningur# (umræður utan dagskrár), PHB
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[15:51]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Hækkun stofnefnahagsreiknings Pósts og síma yrði öll færð sem viðskiptavild. Sem slík er hún afskrifuð á fimm árum eða 20% á ári. Við það lækkar hagnaður fyrirtækisins og þar með tekjuskatturinn sem er 30% og rennur til ríkisins. Skattgreiðslur fyrirtækisins lækka því um um það bil 6% af hækkuninni og bætir það greiðslustöðu fyrirtækisins til þess að berja á samkeppninni. (GÁS: Gefa það bara. Gefa það.)

Samkvæmt lögum nr. 103/1996 átti að gefa út hlutabréf til ríkissjóðs fyrir 75% af stofnefnahagsreikningi. Af því þarf félagið að greiða væntanlegan arð. Ef arðurinn er 10% þá aukast arðgreiðslur um 7,5%. Niðurstaðan er nokkurn veginn núll og breytir engu um samkeppnisstöðu fyrirtækisins eða hæfileika þess til þess að kaupa upp önnur fyrirtæki. Þetta breytir akkúrat engu. Lægri hagnaður fyrirtækisins næstu fimm árin hefur hins vegar bein áhrif á verðmæti fyrirtækisins þegar kemur að sölu þess sem vonandi verður sem allra fyrst.

Vegna miklu lægri ávöxtunarkröfu á hlutabréfamarkaði getur verið að verð félagsins lækki miklu meira en sem nemur þeim 5 milljörðum sem ríkissjóður á að fá.

Varðandi umræðu um einokun og að fyrirtækið sé mjög stórt, vil ég benda á að Ísland er þegar orðið markaðsvöllur heimsfyrirtækja sem gætu tekið Landssímann hf. í nefið.