Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 16:39:00 (6716)

2000-04-27 16:39:00# 125. lþ. 103.9 fundur 460. mál: #A stjórn fiskveiða# (gildistími ákvæða um veiðar smábáta) frv. 93/2000, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[16:39]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að segja að mér kemur málflutningur þingmanna Samfylkingarinnar í þessum umræðum mjög á óvart. Ég varð vægast sagt undrandi á orðum hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur í sjónvarpsfréttum í gær og hefði frekast búist við því að í upphafi umræðna í dag mundi hv. þm. nota tækifærið og biðja okkur félaga sína í stjórnarandstöðunni afsökunar á ómaklegum og óréttmætum ásökunum um tillöguflutning okkar hér í staðinn fyrir að bæta frekar í og fá til þess liðsinni m.a. hv. þm. Jóhanns Ársælssonar. Ég tel að Samfylkingin hafi ekki efni á því að tala eins og hún ein sé handhafi alls sannleika í þessum málum og gera lítið úr tillöguflutningi allra annarra. Þar tel ég að sé kastað steinum úr glerhúsi. Ætli það reynist ekki svo að það séu ærið mörg göt í tillöguflutningi Samfylkingarinnar sjálfrar eða því frv. sem þar er nú mikið gumað af. Ég sé ekki betur fyrir mitt leyti en þar sé skrifað upp á í aðalatriðum óbreytt kvótakerfi með þeirri einu breytingu að taka auðlindagjald og ég sé ekki annað en gert sé ráð fyrir áframhaldandi leigubraski innan ársins með veiðiheimildir. Það er sérkennilegt ef það á að vera eitt helsta framlag þessa væntanlega jafnaðarmannaflokks að standa fyrir allsherjarmarkaðsvæðingu á íslenskum sjávarútvegi, gera hann að einu 100% markaðstorgi. Fróðlegt verður að heyra það útskýrt hvernig það á að gagnast þeim sem veikast standa að vígi í þessari grein.

Ég tel að nálgun þingflokka Frjálslynda flokksins og Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs sé bæði mjög málefnaleg og vænleg til árangurs, að ná saman um aðferðir hvað varðar vinnu að þessu máli og að verulegu leyti um málefni. Ég leyfi mér að varpa fram spurningu á móti til talsmanna Samfylkingarinnar: Fer það e.t.v. í taugarnar á Samfylkingunni að þessir tveir þingflokkar hafa náð jafn vel saman um vinnubrögð og raun ber vitni? Það virðist vera svo.