Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 16:43:41 (6718)

2000-04-27 16:43:41# 125. lþ. 103.9 fundur 460. mál: #A stjórn fiskveiða# (gildistími ákvæða um veiðar smábáta) frv. 93/2000, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[16:43]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er spurning hvort menn þurfi að gefast upp fyrir hlutum sem þeir eru ekki sáttir við og leggjast flatir fyrir þeim eins og markaðsöflunum eins og mér heyrist á ummælum hv. þm. að hann vilji.

Aðeins þetta: Í fyrsta lagi voru ummæli hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur, formanns þingflokks Samfylkingarinnar, í sjónvarpinu í gær röng. Þau voru bæði röng og ómakleg. Það liggur fyrir.

Í öðru lagi er það óvenjulegt, og það fullyrðir sá sá sem hér talar og býr að þó nokkurri þingreynslu, að stjórnarandstöðuflokkur geri það sérstaklega að útgangspunkti í málflutningi sínum að gera málflutning félaga sinna í stjórnarandstöðu í einu tilteknu máli ótrúverðugan. Út á það hefur málflutningur þingmanna Samfylkingarinnar gengið í dag og í gærkvöldi í sjónvarpinu. Það er óvenjulegt en um leið mjög athyglisvert. Auðvitað má leiða getum að því hvers vegna þessi leið er valin en einhvern tímann hefði manni dottið í hug orð eða hugtök eins og vanlíðan og vanmetakennd til að reyna að skýra slíka framgöngu í pólitískum umræðum á Alþingi.

Herra forseti. Ég bíð spenntur eftir því að komast á mælendaskrá í þessu máli, sem ég bið forseta að sjá til að verði, og einnig að ræða, ef til kemur, að hið margrómaða þingmál Samfylkingarinnar komist til umræðu en sú kann að vera skýring á því að það gerist ekki að það er svo seint fram komið að það er með einhverju hæsta þingskjalsnúmeri sem fyrir finnst í þinginu. Fyrr gekk nú guðdómurinn ekki út af Samfylkingunni en svo að þá voru öll önnur þingmál um sjávarútvegsmál löngu fram komin þegar þetta frv. leit dagsins ljós.