Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 16:47:43 (6720)

2000-04-27 16:47:43# 125. lþ. 103.9 fundur 460. mál: #A stjórn fiskveiða# (gildistími ákvæða um veiðar smábáta) frv. 93/2000, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[16:47]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Þessi umræða hefur nú snúist upp í það að stjórnarandstaðan deilir um framgang og framsetningu mála. Ég tek undir þau orð hv. þm. Steingríms Sigfússonar að vissulega væri betra ef stjórnarandstaðan væri frekar í því að leita að þeim punktum sem saman mega stefna og til framtíðar horfa, því nógu öflug held ég að andstaða stjórnarflokkanna verði í þessu máli. Þar held ég að sá veggur sé sem þarf að komast í gegnum, þ.e. að fá stjórnarflokkana til að viðurkenna að áframhaldandi óbreytt stefna í kvótamálunum, eins og hún hefur verið í framkvæmd á undanförnum árum, geti ekki verið sá farvegur sem við verðum sátt við. Þess vegna er ekki nema eðlilegt að þingflokkur Frjálslynda flokksins, sem hefur haft það að stefnumáli sínu að fara sem fyrst út úr þessu kerfi eftir mögulegum leiðum og hefur lýst þeirri vegferð í sérstakri greinargerð með þáltill. um grundvöll nýrrar fiskveiðistjórnar, sé ekki alveg sáttur við að í framsetningu Samfylkingarinnar skuli vera á þann veg að í fyrsta lagi skuli ekki komið að grundvelli fiskveiðistjórnar heldur eingöngu að framleigunni og þar að auki skuli leigan eiga sér stað áfram innan ársins. Við sjáum ekki, a.m.k. get ég ekki séð það í tillögum Samfylkingarinnar, að á næstu tíu árum verði nein breyting á þessu braski. Menn geti sem sagt braskað með þetta alveg inn og út eins og þeir hafa verið að gera og að þar festum við ekki hönd á neinu hjá Samfylkingunni.