Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 16:52:25 (6722)

2000-04-27 16:52:25# 125. lþ. 103.9 fundur 460. mál: #A stjórn fiskveiða# (gildistími ákvæða um veiðar smábáta) frv. 93/2000, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[16:52]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða sem felur það m.a. í sér að frestað verði um sinn að hluti bátaflotans gangi inn í eins konar kvótakerfi. Út úr því kerfi viljum við fara, enda er þessi tillaga að hluta til byggð á tillögu sem komin var fram áður frá hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni og Árna Steinari Jóhannssyni.

Í álitsgerð með frv. segir:

,,Megintilgangur frumvarpsins er að fresta um eins árs skeið gildistöku nokkurra ákvæða varðandi veiðar smábáta sem taka áttu gildi 1. september nk. Helsta ástæða þess er að nú stendur yfir heildarendurskoðun laga um stjórn fiskveiða.``

Það er þessi heildarendurskoðun sem menn hafa gert að umtalsefni í umræðunni í dag og framlag einstakra þingflokka til þeirrar umræðu. Það varð reyndar að umræðuefni í sjónvarpsþætti í gær sem einnig hefur verið fjallað um hér. Ég verð að segja, herra forseti, að ummæli talsmanna Samfylkingarinnar um það efni vekja mér mikla furðu. Menn segja að til umfjöllunar hafi verið í sjónvarpinu í gær --- það kom fram hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni, sem ég bíð eftir að hlusti á mál mitt, að við hefðum verið að fjalla um tiltekna þáltill. í sjónvarpsumræðuþættinum í gær. Það er rangt. Verið var að ræða um það hvort Frjálslyndi flokkurinn annars vegar og þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hins vegar hefðu lagt fram tillögur, frumvörp eða tillögur um lagabreytingar á þessum lagabálki. Það var til umræðu. Formaður þingflokks Samfylkingarinnar fullyrti ranglega að hvorugur flokkurinn hefði gert það. Og ég andæfði því.

Nú vill svo til að ég hef hér í höndunum frv. til laga um breytingu á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, þar sem segir m.a. í 2. gr.:

,,Lög þessi falla úr gildi 1. september 2001.``

Hvað felur þetta í sér? Þetta felur í sér að þessi lagabálkur, fiskveiðistjórnarkerfið og lögin sem um það gilda skuli verða sett til hliðar. Sett er inn sólarlagsákvæði í lögin að þau verði numin brott. Lengra er nú varla hægt að ganga. Þegar hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir kemur hér í ræðustól og segir eftir að búið er að vekja athygli á þessu að sér finnist nú eiginlega sinn málstaður hafa heldur styrkst hér í dag, þá er þetta er ekki spurning um hvað fólki finnst. Við erum ekki að fjalla um huglægt mat heldur hlutlægt. Annaðhvort fór hv. þm. með rétt mál eða rangt. Hv. þm. fullyrti að þessir þingflokkar hefðu ekki komið fram með neinar lagabreytingar, tillögur. Það var fullyrðingin og hún er röng. Hún er ósönn. Og hv. þm. ber að koma hingað og biðjast afsökunar á því. (Gripið fram í.) Ég gerði það, ég sagði að það hefði verið rangt, en hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, kom hingað í ræðustól áðan og sagði að sinn málstaður hefði heldur styrkst, fyndist henni. Hún fór með rangt mál, ósannindi, og það ber að leiðrétta ósannindi. (Gripið fram í: Hvaða tillögur eru þetta þá?) Það eru þær tillögur sem ég var að lesa upp áðan. (Gripið fram í.) Síðan er þessi furðulegi málflutningur. Vegna þess að hv. þm. eru ósammála tillögunum eða finnst þær ekki nógu góðar eða standa hefði átt öðruvísi að þeim þá finnst þeim þeir hafa leyfi til að fara með ósannindi af þessu tagi. Þetta eru ósannindi og rangfærslur. (SvanJ: Farðu nú ekki lengra út á ísinn, Ögmundur minn.) Farðu ekki lengra út á ísinn, Ögmundur minn, segir hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir. Ég veit nú eiginlega ekki hvaða ís hv. þm. er að tala um. Ég er að tala hér um frv. til laga um breytingar á fiskveiðistjórnarlögunum sem fulltrúar tveggja flokka, Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs annars vegar og Frjálslynda flokksins hins vegar, lögðu fram á Alþingi, um breytingar á fiskveiðistjórnarlögunum. Og hvaða ís er það sem verið er að tala um hér? (Gripið fram í: Það er háll ís.) Það er háll ís. Ég leyfi mér að spyrja: Hvers konar trúverðugleiki er þetta í stjórnmálum að leyfa sér málflutning af þessu tagi? (Gripið fram í: Segðu okkur bara hvaða tillögur þetta eru.) Segðu okkur bara hvaða tillögur þetta eru. Ég er farinn að skilja núna, herra forseti, hvers vegna Samfylkingin hefur haft eins lítinn árangur af málatilbúnaði sínum og málafylgju og raun ber vitni. Ef þetta er allt á þessa bókina lært, rangfærslur og útúrsnúningar, þá er ekki við góðu að búast. Ég skal nefna fleiri tillögur sem koma fram í frv., sem eru tillögur um lagabreytingar, en um það var rætt í sjónvarpsþættinum í gær, hvort einhverjar lagabreytingartillögur hefðu komið fram. Þar er gert ráð fyrir t.d. að skip sem ekki hafa fengið úthlutað kvóta eða hafa þurft að leigja til sín kvóta fái úthlutað sérstökum heimildum.

Hvað er það sem við síðan vildum gera? Og hvað er það sem við höfum síðan lagt til? Hv. þm. Jóhann Ársælsson sagði um Samfylkinguna að hún væri ungur flokkur og ekki væri við því að búast að hún kæmi fram með fullmótaðar tillögur, og var þá væntanlega að réttlæta það að hingað var sett inn frv. rétt áður en frestur til slíkra hluta rann út. Ég hef fulla virðingu fyrir slíku. En það er til önnur ung hreyfing sem heitir Vinstri hreyfingin -- grænt framboð og hún hefur rætt þessi mál mjög rækilega og ítarlega og gerði það þegar á mótunarstigi sínu. Þar voru sett niður ákveðin meginmarkmið.

[17:00]

Ég tók eftir því að hv. þm. Jóhann Ársælsson sagði að menn hefðu efasemdir um hverjir ættu að eiga veiðiréttinn. Við höfum engar efasemdir um það. Það er þjóðin sem á hann, það er þjóðin sem á þennan rétt, enda segjum við það í fyrsta áherslupunkti okkar:

,,Auðlindir sjávar verði raunveruleg sameign þjóðarinnar og einstökum byggðarlögum tryggður réttlátur skerfur veiðiheimilda og viðunandi öryggi.`` --- Þarna er meginmarkmið sett niður um eignarhaldið á sjávarfanginu.

,,Sjávarútvegurinn aðlagi sig markmiðum sjálfbærrar þróunar og vinni markvisst að því að bæta umgengni um náttúruna og lífríkið, þ.e. einstaka nytjastofna, vistkerfi hafsbotnsins og hafsbotninn sjálfan.`` --- Þetta er annað markmið sem við viljum stefna að.

,,Sjávarútvegsstefnan treysti byggð og efli atvinnu í landinu öllu ásamt því að stuðla að aukinni fullvinnslu framleiðslunnar og þar með aukinni verðmætasköpun og hámarksafrakstri auðlindanna innan lands.`` --- Þetta er enn annað markmið sem við setjum niður.

,,Sjávarútvegsstefnan stuðli að réttlátri og jafnri skiptingu gæðanna ásamt jöfnum og góðum lífskjörum þeirra sem við greinina starfa og veita henni þjónustu. Markmiðið er að afraksturinn af nýtingu sameiginlegra auðlinda dreifist með réttlátum hætti til landsmanna allra.

Sjávarútvegurinn, ekki síst fiskvinnslan, þróist og verði fær um að bjóða vel launuð og eftirsóknarverð störf og standa sig í samkeppni við aðrar atvinnugreinar hvað launakjör, starfsaðstæður, vinnuumhverfi og aðra slíka þætti snertir.``

Þetta var fyrsta stigið í vinnu okkar, að fara yfir sviðið og setja fram þau markmið sem við vildum ná. Hvað er næsta skref sem við stígum? Jú, auk þess að setja fram tillögur um breytingar, lýsa yfir stuðningi við þær aðgerðir sem beri að grípa til þegar í stað, bann við leigu á kvóta, setjum við fram till. til þál., það gerum við í samvinnu við þingflokk Frjálslynda flokksins, þar sem við viljum hefjast handa um að koma þessari stefnu fram, að ná fram þeim markmiðum sem hreyfingin setti sér fyrir síðustu kosningar og kynnti kjósendum. Og hvað viljum við gera til að ná þessum markmiðum sem við settum fram um að stuðla að vistvænum veiðum, efla smábátaútgerð, standa vörð um byggðirnar, einstakar byggðir?

Við viljum byrja á því að:

,,Afla gagna og undirbúa tillögur um skiptingu fiskiskipaflotans í útgerðarflokka. Dagróðra- og strandveiðiflotinn verði sérstakur útgerðarflokkur með tiltekna hlutdeild í veiðum helstu nytjastofna.

Afla gagna og undirbúa tillögur um mögulega byggða- eða svæðatengingu veiðiréttinda með sérstakri hliðsjón af hlutdeild smábáta og strandveiðiflotans.

Afla gagna og móta reglur um skilyrði sem leggja eigi til grundvallar því að einstakar tegundir séu kvótasettar. Einnig reglur um hvernig tegundir skulu teknar út úr kvóta þegar forsendur kvótasetningar eru brostnar.

Skipa starfshóp um umhverfismál og sjávarútveg sem móti stefnu um hvernig stuðla megi að þróun íslensks sjávarútvegs í átt til vistvænna veiða og sjálfbærrar þróunar, m.a. með sérstakri hliðsjón af skuldbindingum Íslands samkvæmt Ríó-sáttmálanum.``

Þarna eru vissulega nefndir að störfum. Við leggjum til að einhverjir aðilar vinni þessa vinnu. Við erum meira að segja með tillögu um eina stóra nefnd, þverpólitíska og þverfaglega, gagnstætt því sem ríkisstjórnin hefur lagt til. Við viljum að allir stjórnmálaflokkar sem sæti eiga á Alþingi eigi hlut að þeirri nefnd, fulltrúar allra þingflokka. Það hefur ríkisstjórnin ekki treyst sér til að gera. Í þeim nefndum sem eru að störfum hafa tilteknir aðilar verið útilokaðir, Frjálslyndi flokkurinn, svo dæmi sé tekið.

Við viljum að allir þingflokkar komi að þeirri nefnd sem við erum að leggja til og einnig fulltrúar heildarsamtaka sjómanna, Sjómannasambands Íslands, við viljum að Farmanna- og fiskimannasambandið komi að máli og Vélstjórafélagið, við viljum að fulltrúar frá Verkamannasambandi Íslands fyrir hönd fiskverkafólks komi að málinu og fulltrúar frá Landssambandi íslenskra útgerðarmanna, fulltrúi frá Landssambandi smábátaeigenda, frá Samtökum fiskvinnslustöðva og við viljum að tveir fulltrúar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga eigi aðild að nefndinni en eðlilegt sé að sjútvrh. skipi formann nefndarinnar. Hlutverk þessarar nefndar verði að vera samráðsvettvangur allra helstu hagsmunaaðila og vera Alþingi og ríkisstjórn til aðstoðar og ráðgjafar um vinnu- og stefnumótun á þessu sviði.

Hvað er það sem við erum að reyna að gera með þessu? Við erum að reyna í fyrsta lagi að skapa breiða samstöðu um markmið, þau markmið sem beri að stefna að. Við leggjum síðan til hvernig menn skuli bera sig að í þeirri vinnu til að ná þeim tilteknu markmiðum fram. Ef það er rangt skilið hjá mér, sem það eflaust er, að Samfylkingin geti stutt þessi markmið, ég veit það ekki, um byggðatengingu veiðiheimilda t.d., þá þarf náttúrlega að ræða það og það þarf að koma fram. Þar innan borðs eru margir sem fyrr á tíð a.m.k. voru hliðhollir þessum markmiðum. Ég hélt að almennur áhugi væri fyrir því í þjóðfélaginu og áhyggjur yfir því hvernig kvóti og veiðiheimildir hafa verið fluttar frá einum landshluta til annars, úr einu byggðarlagi til annars, frá einum bæ og þorpi til annarra. Við þurfum að finna leiðir til að koma í veg fyrir þetta, leiðir sem t.d. einn stór uppboðsmarkaður mundi ekki leysa.

Þess vegna segjum við: Reynum fyrst að koma okkur saman um markmið, hvað það er sem við sameiginlega gætum reynt að vinna að. Og setjumst síðan niður og reynum að ná fram samstöðu um tæknilegar leiðir að þeim markmiðum.

Ég er búinn að lýsa því yfir og við erum búin að gera það margoft, að okkur þykir fiskveiðistjórnarkerfið eins og það er rekið ekki ganga upp. Við teljum það rangt og ósæmilegt að kvóti sé leigður og við viljum banna það með lögum þegar í stað. Við erum andvíg því að verslað og braskað sé með kvótann. En við höfum sett fram þessi meginmarkmið og það sem meira er, við höfum lagt til ákveðið vinnuferli um hvernig menn skuli bera sig að til að sjá til þess að þessi markmið nái fram að ganga.